laugardagur, 24. ágúst 2013

Reykjavík: Hátíð í bæ

Það er gaman þegar fólk getur sameinast um það að einn ákveðinn dagur sé hátíðardagur. Eins og 17. júní, 1. maí, Verzlunarmannafrídagurinn.  Fólkið sýnir það með því að mæta, taka þátt og njóta. Hafa gaman að. Þannig er með Menningarnótt.  Sem hefur orðið tvöföld hátíð með Reykjavíkurmaraþoni á sama degi.   Þetta er eitt skemmtilegast fyrirbrigði seinustu áratuga víða um heim.   Fjölskyldur, Hjón, börn skella sér í bæinn ráfa um, eru búin að ákveða vissa atburði, fá sér eitthvað að eta og drekka.  Svo eru stórtónleikar um kvöldið og flugeldasýning sem stundum er misheppnuð en ekki alltaf.  

Það viðrar ekki í dag vel til hlaups og útiveru.  Mikill úði og regn.  En það eru 14000 manns sem hafa skráð sig, ótrúleg tala. Enda var algjört kaos umhverfis Laugardalshöllina síðdegis í gær þegar afhent voru gögn.  Konan mín ætlar að hlaupa hálfmaraþon þannig að við vorum á ferli og enduðum með að fara bara í Nóatún að versla.  Svo hljóp kona mín og náði í dótið sitt.  Það tók engan tíma.  Það er ákveðin þversögn í því að fólk sem stundar holla útiveru og hreyfingu þarf að koma hvert á sínum bíl í Laugardalinn.  Það voru nokkur þúsund bílar þarna í gær.  Martröð.  

Ég hef tekið mismikinn þátt í þessari hátíð.  Bjó úti á landi í mörg ár, var ekki alltaf í bænum á þessum tíma.  En ég hef yfirleitt farið í Gallerí Fold þar eru yfirleitt nýjar áhugaverðar sýningar.  Nú eru þar Tryggvi Ólafs og Bragi Ásgeirs. Og Kristján Davíðs ef ég man rétt.  Svo hef hugað að því ef ættingjar koma við sögu, fólk mitt er í tónlist.  Svo er gott að fá eitthvað að borða þó erfitt sé að koma því við í tröðinni.  Ég hef aldrei verið svo fyrirhyggjusamur að panta borð á veitingastað. En svo hef ég bara verið heima um kvöldið og horft á flugeldana af svölunum.  Ég kann ekki vel við mig í kraðaðkinu hjá stórhljómsveitunum.  Ég sé að Sinfonían er með tvenna tónleika í Hörpunni þar væri gaman að vera, vöfflukaffin eru mörg þau koma til greina, Amnesty í Þingholtsstræi, Fjölskyldan í Ingólfsstræti bak við Aðventukirkjuna, Dagur Eggerts, Ólöf Arngríms.  

Svo lesendur góðir við hittumst kannski í dag, eða ekki.  Reynið að njóta dagsins, þótt sólin sé ekki í heiði.  Ekki fara í kerfi. Ráðist hvorki á ríkisstjórnina né borgarstjórn þau ráðu engu um þetta.  Kannski Davíð Oddsson!!!! Þetta er brandari.  

Gleðilega hátíð!!








Smásýning dagsins:  Skyssubæku Erlings .........

Engin ummæli:

Skrifa ummæli