föstudagur, 18. apríl 2014

Hallgrímur Pétursson: Maður allra tíma og flámælges.....

Mikið er nú Hallgrímur Pétursson merkilegur maður.  Enn eiga ótal hlutir við, sem hann orti fyrir 300 og eitthvað árum.  Það er eins og hann sé maður þessarar hátíðar.  Það er alls staðar verið að fjalla um hann. Hann er vissulega maður allra tíma. 
 Það er fátt mannlegt sem ekki er honum viðkomandi.  Það fór ýmislegt á flug við seinasta flutning Megasar á Passíusálmunum í dag.  Við eigum listamenn sem koma þessu listaverki til skila svo unun og gleði er að.  Það var svo mikil gleði í Grafarvogskirkju i dag.  Fjölbreyttar útsetningar og glitrandi flutningur.  Troðfull kirkja, margir sem hafa mætt á alla þrjá tónleikana.  

En ekki hefði þetta verk orðið til án Hallgríms, sem fjallar um trúna sína, líf og dauða, valdsmenn og græðgi, frið og stríð, gæsku og grimmd, fátækt og ríkidæmi, rikisbubba og glæpamenn, málfar og flámælge.  Flest sem Megas hefur einnig  fjallað um í söngvum sínum. Meira að segja unglingavandamálin eru til hjá Hallgrími, ungdómsþverlyndi talar hann um. Enda virðist hann sjálfur hafa verið í æskuuppreisn.  

Ekki hefðu Passíusálmar heldur orðið til án sögunnar um þennan sérkennilega mann, Jesúm.  Þessarar merkilegu sögu um mann sem lifði og dó og reis upp aftur. Hvort sem hann var til eða ekki.  Sem enn hefur þó ótal, hugmyndir,  hugsanir og boðskap til okkar að færa.  Þessi einfalda saga.  Saga sem nær þess vegna til allra. Sem hefur frelsað svo marga og komið ýmsu óhugnanlegu til leiðar.  En við segjum bara í dag að það allt sé bara mannanna verk.  Í tilefni hátíðarinnar.  Og þessa dags sem í bernskuminningunni var svo langur, það mátti ekkert gera, allt var lokað.    Svo óska ég gleðilegra páska!





Gefðu að móðurmálið mitt

minn Jesú þess ég beiði
frá allri villu klárt og kvitt
krossins orð þitt út breiði
um landið hér
til heiðurs þér
helst mun það blessun valda
meðan þín náð
lætur vort láð
lýði og byggðum halda.

miðvikudagur, 16. apríl 2014

Guðni leggur undir sig Reykjavík

Mikil er hamingja okkar Reykvíkinga.  Við sjáum fram á bjartari tíma: 
Þegar öll nótt var úti þá kom hann skeiðandi inn í borgina, með tvo til reiðar, bjargvætturin eina
sanna,  eftir að Óskar verktakavinur lagði á flótta.  

Guðni útilokar ekki framboð í Reykjavík


Eflaust mun Guðni ekki standast mátið, enda finnst honum gaman innan um fjölmenni, með SS pylsu í annarri og einn sterkan í hinni.  Hann mun sveima um bari bæjarins taka menn tali á sinn þjóðlega hátt og atkvæðin munu safnast í stóra hrauka.  Eins og þau hafa gert suður á Kanarí seinustu áratugi.  Ekki væri verra ef hann svifi um með mágkonu sína sér við hlið, Vígdísi Hauksdóttur.  Þá væri x B kominn með minnst  þrjá borgarfulltrúa.  Og Guðni  settist í borgarstjórastólinn lítillátur að vanda og fengi sér brauðsneið úr íslensku méli með íslenskt smér ofan á.  Heiðursgestur borgarstjórnar yrði að sjálfsögðu Jón Bjarnason, Snæfellingurinn góðglaði.  

Þá verða engar utanferðir hinar stærri á hans tíma !!! Og vopnaðar víkingasveitir munu halda uppi lög og reglu í 101.  Þá verður margur stoltur að búa í Reykjavík.



mánudagur, 14. apríl 2014

Jón Gnarr: Næsti Aðalritari SÞ

Mikið vorum við heppin að eignast svona óvart Jón Gnarr sem borgarstjóra.  Eiginlega bjuggumst við ekki við neinu þegar hann tók við.  En með framkomu sinni, ótrúlegri framkomu þar sem maður vissi aldrei hvað kom næst þá vann hann okkur yfir.  Þessa vantrúuðu.  Svo kórónaði hann feril sinn með því að afneit valdinu, hann ákvað að hætta.  


Hann hefur á sinn svo einfalda hátt dregið fram góðar hugmyndir sem hafa fengið illt orð á sig. Eins og frið, umhverfi, náttúru, list og menningu: 

Mig dreymir um friðarháskóla Sameinuðu þjóaðnna. Alþjóðlega rannsóknamiðstöð um Norðurslóðamál, loftlagsbreytingar og hnattræna hlýnun. Rannsóknir og þróun á rafmagnsbílum. Friðarráðstefnur og friðarviðræður. Listrænar uppákomur. Náttúruminjasafn. Alþjóðlega stofnun um friðsamleg samskipti. Ég vil gera Ísland að heimili vonar fyrir mannkyn,


Þetta er ansi hátimbrað að tala um Ísland sem heimili vonar, sérstaklega þegar við horfum á framkomu ýmissa stjórnmálamanna.  En með sakleysi sínu flettir Jón Gnarr ofan af atvinnustjórnmálamanninum.  En við skulum samt ekki halda að það sé lausnin okkar að hafa ekki atvinnustjórnmálamenn.  Jón er svo einstakur, Björn Blöndal fetar ekki í hans spor.  En hann kennir okkur að það er gott að hafa fjölbreytni í kosnum fulltrúum okkar.  Og það er allt í einu að skipta oftar. 

Svo ætli þetta sé nýja vinnan hans?  Þáttastjórnandi!   http://youtu.be/VD5D7GymLd4

 Ég vil nú frekar fá hann sem Aðalritara Sameinuðu þjóðanna !!!!







sunnudagur, 13. apríl 2014

Stríð í Úkraínu

Ekki er ástandið gott í Austur-Evrópu.  Var að horfa á danskar fréttir. Fréttamaður þeirra var á ferð rúmlega 200 kílómetra inn í Úkrainu, við borgina Slavjansk og hitti þar rússneska hersveit, einkennisbúninga, vopn, búnað, sem kváðust vera kósakkar að hjálpa rússnesku talandi fólki.  Sem tékkaði hverjir fóru yfir brú.   Alls staðar á þessu svæði virðast rússneskir Úkraínubúar hafa tekið völdin. Forsætisráðherra Úkraínu lýsir yfir stríði gegn terrorisma í landinu.  En á svæðinu sem fréttamaðurinn er austast, eru fáir úkrainskir hermenn. Fréttamanninum virtist sem ekki væri heildræn innrás frá Rússlandi heldur fámennar sveitir sendar til hjálpar Rússnesku talandi íbúum.  

Svo það lítur út fyrir styrjöld í Evrópu.  Eins og við mátti búast eftir viðbrögð Pútíns.  
  

fimmtudagur, 10. apríl 2014

Ráðherrar: Það er erfitt að fórna sér fyrir vanþakkláta þjóð.

Enn er hann að, sá sem trúir á afnám skatta.  Hugmyndafræði nýfrjálshyggjunnar: Hver bjargi sjálfum sér aðrir eiga ekki skilið að lifa.  Bjarni Ben styrkir vini sína, en þeir virðast ætla að flytja skipin sín til Grænlands eða að selja var það ekki til Rússlands.   Svo halda þeir áfram að kyrkja
þorpin á landsbyggðinni hægt og örugglega.  Og borga sér arð í hundruðum milljóna meðan þeir kvarta um lélega afkomu.  Svo eru þeir hissa á því að flokkurinn sé að síga saman eins og sprungin blaðra.  Dælt er milljörðum í skattalækkanir, meða vegakerfið drabbast niður, heilbrigðiskerfið sér starfsfólk sitt á hlaupum upp í næstu flugvél, húsnæðiskerfið á auðvitað að byggjast á einkaeignum fólks sem getur ekki keypti húsnæði.   
Og Sigmundur er að bjarga þjóðinni með lækkun fasteignalána af hverju kann engin að meta þetta?  Af hverju er þessi þjóð svona vanþakklát?   Er það nema von hann þurfi að hvíla sig öðru hverju erlendis?   Jafnvel i ESB landi .......... 

Það er erfitt að fórna sér fyrir vanþakkláta þjóð.

-------------------------------------------

Ríkir og sjávarútvegurinn hagnast mest 

Stærsti einstaki skattalækkunarliðurinn gagnvart einstaklingum sem Bjarni vísaði í í ræðu sinni er brottfelling auðlegðarskattsins. Reiknað er með að skatturinn skili ríkissjóði 9,4 milljörðum króna í ár samkvæmt upplýsingum í fjárlagafrumvarpinu en hann nær til um tæplega sex þúsund einstaklinga. Almennar tekjuskattslækkanir, þar sem milliþrep tekjuskatts var lækkað og neðri mörk hans hækkuð, skilar ekki nema fimm milljörðum og nær til flestra launþega.
Skattur á sjávarútvegsfyrirtæki var svo lækkaðir sem nemur 7,4 milljörðum króna, eða jafnvirði um 60 þúsund króna á hvert heimili. Þá hafa tryggingargjöld á fyrirtæki verið lækkuð sem nemur milljarði, samkvæmt ræðu Bjarna. Samtals nema þessar lækkanir um 23 milljörðum króna en því til viðbótar hefur stimpilgjöldum verið breytt og öðrum sköttum sem hafa minni áhrif á tekjur ríkissjóðs.B

Ríkir og sjávarútvegurinn hagnast mest

Stærsti einstaki skattalækkunarliðurinn gagnvart einstaklingum sem Bjarni vísaði í í ræðu sinni er brottfelling auðlegðarskattsins. Reiknað er með að skatturinn skili ríkissjóði 9,4 milljörðum króna í ár samkvæmt upplýsingum í fjárlagafrumvarpinu en hann nær til um tæplega sex þúsund einstaklinga. Almennar tekjuskattslækkanir, þar sem milliþrep tekjuskatts var lækkað og neðri mörk hans hækkuð, skilar ekki nema fimm milljörðum og nær til flestra launþega.
Skattur á sjávarútvegsfyrirtæki var svo lækkaðir sem nemur 7,4 milljörðum króna, eða jafnvirði um 60 þúsund króna á hvert heimili. Þá hafa tryggingargjöld á fyrirtæki verið lækkuð sem nemur milljarði, samkvæmt ræðu Bjarna. Samtals nema þessar lækkanir um 23 milljörðum króna en því til viðbótar hefur stimpilgjöldum verið breytt og öðrum sköttum sem hafa minni áhrif á tekjur ríkissjóðs. dv.is í dag

miðvikudagur, 9. apríl 2014

Ráðgjafar: Er þetta löglegt ?????



Það er margt furðulegt í okkar samfélagi, það er ýmislegt rotið:  


Stjórnvöld fóru leynt með skipan ráðgjafa
Alþingi Farið var leynt með skipan hóps ráðgjafa sem nýverið skilaði ráðherranefnd um afnám gjaldeyrishafta tillögum.
Alþingi
Farið var leynt með skipan hóps ráðgjafa sem nýverið skilaði ráðherranefnd um afnám gjaldeyrishafta tillögum. Skipan hópsins þótti varða við efnahagslega mikilvæga hagsmuni ríkisins. Þetta kemur fram í svari Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra við fyrirspurn Össurar Skarphéðinssonar, þingmanns Samfylkingarinnar, á Alþingi.

Ráðgjafarnir sex voru skipaðir í lok nóvember í fyrra. Hvorki var tilkynnt opinberlega um skipan
þeirra, né var skipunarbréf þeirra gert opinbert fyrr en í svari Sigmundar nú. Ráðgjafahópurinn hafði frjálsar hendur um verkaskiptingu
og fundahöld. Engar fundargerðir voru ritaðar, en fulltrúi forsætisráðuneytisins sem sat fundina ritaði minnispunkta, segir í svarinu.

Ráðgjafarnir áttu að vera uppspretta hugmynda um afnám haftanna, og áttu að auki að smíða tillögur í kringum hugmyndirnar. "Þeir eru ráðgjafar ráðherranefndar um efnahagsmál en hafa ekki verið skipaðir í nefnd eða starfshóp. Ráðgjafar hafa ekki ákvörðunarvald í neinum málum er viðkoma afnámi hafta og eru ekki opinberir starfs
menn," segir í svari Sigmundar. Því telur hann reglur um jafnt hlutfall karla og kvenna í stjórnum og nefndum ekki eiga við. Ráðgjafarnir eru allir karlmenn.

Össur spurði um þóknun ráðgjafanna, en var aðeins svarað að hluta. Tímakaup þeirra var 17 þúsund krónur. Samið var um fastan tímafjölda á mánuði, en ekki kemur fram í svarinu hversu margir tímarnir voru. Þá var greitt sérstaklega fyrir skýrsluskrif og sérstakar athuganir umfram fastan tímafjölda.
- bj


þriðjudagur, 8. apríl 2014

Óperan: Gunnar á lof skilið

Sá síðustu sýninguna á Ragnheiði.  Varð tilefni ýmissa hugleiðinga: 

Sýningin sem slík var gífurlega vel gerð og sett upp.  Óperunni til sóma. 

Sviðið og lýsingin frábær, ótrúlegt hvað hægt er að gera við erfiðar aðstæður.  Sviðsatriðin mörg svo falleg. Grétari og Kó til hróss. 

Söngvarar og kór voru fín, Þóra rismikil í dramatisku atriðunum, Elmar flottur á sviði, hlakka til að sjá hann í fleiru. Viðar, Bergþór, Guðrún Jóhanna og Elsa.  Þetta var allt svo jafngott.  

Óperan sjálf;  ég er bara búinn að hlusta einu sinni á hana, á sýningunni, nokkrar aríur, lofa góðu við endurheyrn, verður þetta ekki gefið út á diski.  Tveir dúettar ef ég man rétt, Bergþór í Allt eins og blómstrið eina, Guðrún Jóhanna með sína aríu í seinni hlutanum. Eiðtaka flott í samspili söngvara og kórs.  Mér þótti vanta meiri fjölbreytni í útsetningum hljómsveitarinar.  Stundum svolítið litlaust en sprettir á milli, arían (var það Guðrún Jóhanna) þegar harpan er notuð sem aðalhljóðfærið var mjög falleg.  

Það sem var einstakt við þessa sýningu að horfa á 1700 áhorfendur á hverri sýningu.  Sem kunnu að skemmta sér eins og á að gera á óperu.  Sýningin var ansi spennandi.  Og tilfinningaþrungnir lokakaflarnir dramatískir.  Ég sá nú ekki þessa grátþörf.  Þetta var damatísk en hvað með það, margar óperur eru það. Texti Friðriks var stundum ansi tilgerðarlegur það er erfitt syngja eðlilegt 17. aldar mál.  
Það eru ekki mörg óperuhús sem geta státað af svona móttökum í dag af nýrri óperu.  

Það er gaman að bera Ragnheiði saman við Passíusálma Megastar sem ég hlustaði á í sömu viku.  Sálmarnir höfðu meiri áhrif á mig, útsetningarnar magnaðri.  Ég er samt ekkert að segja að Gunnar hafi gert eitthvað slæmt, það var margt gott.  Ég var svo lánsamur að hlusta á Gunnar með félögum sínum í Trúbrot á sínum tíma.  Það er áhrifamesta rokktónlist sem flutt hefur verið hér á land, sunnudagskvöldin í Glaumbæ voru oft mögnuð. Gunnar á lof skilið. 

Mikið eigum við af góðu listafólki.   Gott er líka hversu margir Íslendingar kunna að meta þá.  Þrátt fyrir nagg um kostnað, Hörpur og það að fólk fái laun fyrir vinnu sína.