Ránfuglar virðast eiga heimkynni sín jörðu ofar í Reykjavík svo að maður tali nú ekki um á götum borgarinnar. Sjaldan hefur græðgin verið meiri þegar ránfuglar auðsins úthluta
sjálfum sér milljónum og milljörðum. Og ernir og fálkar dansa fuglapolka fyrir ofan höfuð okkar ef
marka má seinustu fréttir úr Bústaðahverfinu. Þar sem ég ólst upp.
Þessi frétt varð til þess að undurskemmtileg minning skaust upp á yfirborðið í morgun. Sem tengist ferð á Hornströndum og ránfuglum. Og minningu um merka konu, Bjarnfríði Leósdóttur, sem var jarðsett fyrir nokkrum dögum síðan. Hún var verkalýðsforingi á Akranesi og þurfti ófáa hildi að heyja við Hauka, Erni og Fálka peningavaldsins til að verja kjör láglaunafólks. Um það getum við lesið í ævisögu hennar. Í sannleika sagt, sem Elísabet Þorgeirsdóttir skráði, og kom út 1986.
Á miðjum níunda áratug seinustu aldar, ákvað hópur vina og kunningja og vinna kunningja að fara í göngu á Hornströndum og ganga frá Dröngum og í Hlöðuvik sem er nokkurra dagleiða ferð. Þetta var fyrsta ferð flestra í þessum hópi á þessar slóðir en vinur okkar Guðmundur Hallvarðsson sálugi átti ættir sínar að rekja í Hælavík og Hlöðuvík. Faðir hans Hallvarður Guðlaugsson hafði reist hús þar og þetta varð byrjun á Hornstrandaævintýri hjá mörgum. Þetta var mikil ferð fyrir okkur sem aldrei höfðum tekið þátt í löngum útivistarferðum áður, við lentum í alls konar veðri eins og gerist á Íslandi og minningarnar eru margar úr þessari ferð.
Eftir gönguna tók við nokkurra daga dvöl í Hlöðuvík. Í hópinn bættust nokkur sem komu með Fagranesinu, skipinu sem sigldi um á þeim árum milli víkanna. Þar var Bjarnfríður Leósdóttir, sem tengdist eitthvað inn í þennan hóp. Það var mikil þröng á þingi þarna í Hlöðuvíkinni og því var það að ráði að við færum nokkur yfir á Hesteyri og gistum þar eina eða tvær nætur og skoðuðum okkur um. Þannig að við hjónin, ég og Bergþóra Gísladóttir, Guðmundur Hallvarðsson og þáverandi unnusta hans Anna Margrét sem seinna giftist honum , sænsk kona, Karen að nafni, og Bjarnfríður gengum um Kjaransvík og yfir á brúnir þar sem leið lá til Hesteyrar. Ég gekk þá töluvert með Bjarnfríði og við spjölluðum mikið saman, um pólitík, verkalýðsmál, lífið og tilveruna. Það kom líka í minn hlut að aðstoða hana yfir læki og ár. Svo við urðum mestu mátar þessa tvo göngudaga. Það var dásamlegt að koma yfir á Hesteyri, við gistum í Læknishúsinu, ef ég man rétt, skoðuðum okkur um, kirkjugarðinn skólann, rústirnar af síldarbræðslunni. Daginn eftir fóru Guðmundur, Anna Grétta og Bergþóra yfir í Aðalvík en ég varð eftir með Bjarnfríði og Karen, sem voru þreyttar eftir gönguna daginn áður. Veðrið var yndislegt, sól og sumar og blágresi. Við gengum upp af eyrinni seinna um daginn, þar mátti heyra refi gólast á úr tveim áttum og Ísafjarðardjúpið blasti við í allri sinni sólardýrð. Daginn eftir gengum við síðan aftur til baka og fórum þá inn Heysteyrarfjörðinn og þá urðum við fyrir merkri reynslu þegar Hafernir hófu upp reiðilestur yfir okkur þeir voru með hreiður upp í brúnunum og vildu ekki fá okkur nærri sér. Elskan hún Bjarnfríður varð ansi skelkuð og ég fékk að leiða hana inn fjörðinn því þeir voru ekkert friðvænlegir ernirnir!!!
Svona verða til minningabrot, við á ferðinni inn Hesteyrarfjörð, trylltir ernir yfir höfðum okkar, það var erfitt að staulast upp úr firðinum en við náðum aftur í Hlöðuvíkina heilu og höldnu. Bjarnfríði sá ég sjaldan eftir þetta, jú við hittumst á kennarafundum í Fjölbraut á Akranesi þegar ég kenndi við Grunnskólann í Borgarnesi. Ég hef kannast við börn hennar, Steinunn verður oft á vegi mínum í Reykjavík og Leó var með í ferð kennara á Vesturlandi til Skotlands upp úr 1990. Við fórum meira að segja saman út að trimma í háskólahverfinu í Glasgow!!!!
Já, lesendur góðir það eru margir sem verða á vegi manns í lífinu, ég tala nú ekki um ef maður býr a nokkrum stöðum. Sumir hafa þurft að kljást við ránfugla af ýmsum gerðum aðrir ekki. Lífið okkar í dag er að mörgu leyti auðveldara en líf kynslóðar Bjarnfríðar og foreldra minna (sem voru fæddir 1917 og 1921). Foreldra mínnir kvöddu þetta líf fyrir nokkuð mörgum árum og nú er Bjarnfríður Leósdóttir farin. Hún var farsæl í sínu lífi, sem var þó ekki alltaf dans á rósum, en hún skilur eftir hlýjar minningar margra eins og þessi litla saga mín um gönguferð í óbyggðum sem varð örlagavaldur í lífi margra. Margir fengu Hornstrandabakteríu sem varð ólæknandi. Og margir sem voru í þessari ferð hafa kvatt þetta jarðlíf. Blessuð sé minning þeirra.