fimmtudagur, 2. apríl 2015

1. apríl veröld Sigmundar Davíðs og Bjarna

1. apríl alla daga ársins.  Þannig upplifa margir, þar á meðal ég, íslensku veröldina um þessar mundir.  Fyrirsagnir fjölmiðla í gær voru þannig, allar á einn veg. Við lifum í gabbveröld, kvabbveröld. Lífið er nú þannig svo allt lífð okkar speglar það. Við eigum forsætisráðherra sem er orðinn helsti uppistandari landsins, formann fjárlaganefndar sem notar
handrukkunaraðferðina við fund á háskólakennurum, fjármálaráðherra sem úthlutar eignum ríkisins til ættingja og allir horfa á og segja jahá. Þingmenn sem vilja skammta aðgang að viðtölum við sér með lagasetningu.  Alltaf kemur eitthvað nýtt á hverjum degi alltaf kemur það manni á óvart. Ríkisstjórn sem gerir flest gegn vilja þjóðarinnar. Og heldur ótrauð áfram. Ætli tilbeiðsluhúsið verði ekki fyrir unnendur ríkisstjórnarinnar.  Þeir komast allir fyrir í þvísa húsi.   

Útilokar ekki Hringbraut en segir lausnamiðað fólk hljóta að skoða alla möguleika

Segir kenningu Frosta hafa verið hafnað fyrir átta áratugum

 Nýtt Alþingishús eftir teikningu Guðjóns Samúelssonar

„Fortíðinni sýnd virðing og draumar fyrri kynslóðar uppfylltir í þágu framtíðarkynslóða“

 Æskulýðsrannsóknir án útboðs

Forsætisráðherra vill þjóðarsátt

 Fórnuðu úlfalda og gefa kjötið

 Ísland stofnaðili að banka í Asíu

Að koma sér í úlfakreppu
Stærstu mál ríkisstjórnarinnar eftir áramót eru lögð fram í kapphlaupi við tímann. Ljóst er að fram undan eru átakavikur á Alþingi. Strax farið að ræða um sumarþing. Ríkisstjórnin náði ekki að afgreiða frumvö

Gagn­rýnt að skýrsla sé á ensku

 Til­beiðslu­hús á Nón­hæð

miðvikudagur, 1. apríl 2015

Fjalla Eyvindur og Halla : Meðmæli

Sáum aðra sýningu á þessari nýju útgáfu af þessu erfiða sígilda verki. 
Þetta verk sem í augum okkar setti Jóhann Sigurjónsson inn meðal hinna stóru Norðurlandaskálda leikritunararinnar, en er öllum gleymt nema okkur, Eyjaskeggjunum í norðri. 
Ég sá þetta stykki fyrir tæpum 50 árum í Iðnó með Helgu Bachman og Helga Skúlasyni. Í minningunni var það dimmt og drungalegt.  Enda verk Jóhanns það að mörgu leyti.Útilegurómantík með dapurlegum endi. 

Leikstjórinn og handritsútsetjari, Stefan Metz, hefur farið aðra leið, í fyrrihlutanum er brugðið upp skemmtilegri og spennandi sveitalífsmynd. Spurningin er hvort upp komist um Kára, strokufangann í dulargervi, sem á í ástarævintýri með húsmóður sinni, sem hefur framast við giftingu upp á við, og öðlast sjálfstæði með því að verða ekkja.  Kona með bein í nefinu.  Ást þeirra verður heit og æsandi. Umhverfis þau er allt hið hefðbundna sveitafólk íslenskrar sveitar. Hreppstjórinn, sýslumaðurinn, vinnukonur og menn.  Öllu lýst eins og því hafi aldrei verið lýst áður. Baðstofulíf, réttir, glíma, leitir.   Sakleysi og hreinleiki. En auðvitað eru skuggar sem koma æ meira í ljós.  

Það sem lyftir þessari sýningu eru hinir prýðilegu leikarar, Steinn Ármann var yfirstéttalegur sem Hreppstjórinn, dýrlegur í glímuatriðinu.  Pálmi Gestsson átti yndislegt atriði sem sögumaður.  Og parið, Nína Dögg og Stefán Hallur voru flott, við hlið þeirra var Siggi Sigurjóns, maður gleymir því oft í ímynd hans sem grínara, hversu glimrandi leikari hann er, sem hann sýnir í atriðinu með Nínu Dögg í seinni hlutanum.  Hið einfalda umhverfi með ísklettinn í baksýn skapar stemmninguna og hljóðmyndir og úrvinnsla hins einfalda stefs Elvars Geirs auka við andrúmsloftið sem verður æ dimmara. 

Að mínu mati tókst að gera þetta verk nærtækara manni með léttleika í upphafi sem gengur svo yfir í hin óhjákvæmilegu endalok. Það væri gaman að sjá verkin sem hafa ekki sést frá því á fyrrihluta seinustu aldar.  Ég hef séð Galdra-Loft, önnur aldrei.

Ég mæli með þessari sýningu.  Hún er betri en launaðir gagnrýnendur fjölmiðla hafa sagt.






 

þriðjudagur, 31. mars 2015

Peningar og vopn: Sumar á Sýrlandi......

Eitthvað kunnuglegt í þessu.  Pútín er alltaf tilbúinn í leik við Vesturveldin. Hefur haldið Sýrlandsforseta gangandi með vopn.   Við ættum kannski að reyna aftur það gekk ekki svo vel hjá Davíð og Geir hérna um árið. Gætum fengið aur til að koma okkur út úr Höftunum, það er
sama hvaðan peningarnir koma. Eða hvað?

Annað svolítið merkilegt, ég fletti að gefnu tilefni upp í vef Alþjóðlegu friðarrannsóknastofnunarinnar í Stokkhólmi og skoðaði mestu kaupendur vopna í heiminum.  Þar komast Sýrlendingar ekki á blað.  Ekki sýrlenski herinn það er kannski erfiðara að mæla ótal sveitir upreisnarmanna gegn stjórn Assads.  Ætli sé nokkuð að marka þessar töflur SIPRI ? Þetta segir nýleg skýrsla SIPRI: In 2014, imports of major arms by Syria appeared to have reduced significantly. The planned delivery of MiG-29 and Yak-130 combat aircraft ordered
from Russia was postponed again.

Eitthvað sem erfitt er að trúa. Eða það er kannski ekki barist með vopnum á  Sýrlandi. Ætli allir fái gefins vopn til að leggja þetta land í rústir og tætlur?   Ætli sé alltaf Sumar á Sýrlandi? Svolítið kaldhæðið????
Hvaðan ætli vopnin komi til Sádi Araba sem hafa byggt upp gríðarlegan her upp á síðkastið? Bretland, Bandaríkin og Frakkland.  Hverjir flytja út mest af vopnum í heiminum?  Bandaríkin, Rússland, Kína, Þýskaland Frakkland  og Bretland.


Grikkir hafa leitað til Rússa varðandi mögulega lánveitingu nú þegar greiðslufall ríkisins vofir yfir.

Alexis Tsipras, forsætisráðherra Grikklands, býr sig nú undir að hitta Vladimir Putin, forseta Rússlands, á fundi í næstu viku, en talið er að þar muni hann ræða mögulega lánveitingu síðarnefnda ríkisins til hins fyrrnefnda. Reuters greinir frá þessu.
Grikkir hafa átt í samningaviðræðum við lánardrottna sína á evrusvæðinu undanfarnar vikur en þær hafa ekki gengið sem skyldi. Ef ekki fæst niðurstaða í málið á næstunni gæti greiðsluþrot ríkisins átt sér stað í apríl næstkomandi.
Tsipras hafði áður skipulagt fund með Putin í maí næstkomandi, en flýtti fundinum fyrir fáeinum vikum.  Viðræður við Þýskaland og aðra lánardrottna hafa gengið illa, og vilja evruríkin ekki veita fjármuni til Grikklands nema fyrir liggi skýr umbótaáætlun af hálfu landsins, en án þessara fjármuna gæti Grikkland orðið gjaldþrota og jafnvel yfirgefið evrusamstarfið sem gæti ýtt undir óstöðugleika á svæðinu.
Stjórnvöld í Grikklandi segja hins vegar að um hefðbundinn fund sé að ræða sem sé ætlað að styrkja sambandið milli ríkjanna tveggja. Hins vegar hafa sumir embættismenn í Grikklandi sagt það freistandi að athuga hvort Rússar séu viljugir til þess að hlaupa undir bagga snúa Evrópa bakinu gegn Grikkjum.


mánudagur, 30. mars 2015

Ránfuglar: Minningarbrot um Bjarnfríði og fleira

Ránfuglar virðast eiga heimkynni sín jörðu ofar í Reykjavík svo að maður tali nú ekki um á götum borgarinnar.  Sjaldan hefur græðgin verið meiri þegar ránfuglar auðsins úthluta

sjálfum sér milljónum og milljörðum. Og ernir og fálkar dansa fuglapolka fyrir ofan höfuð okkar ef
marka má seinustu fréttir úr Bústaðahverfinu.  Þar sem ég ólst upp.


Þessi frétt varð til þess að undurskemmtileg minning skaust upp á yfirborðið í morgun.  Sem tengist ferð á Hornströndum og ránfuglum.  Og minningu um merka konu, Bjarnfríði Leósdóttur, sem var jarðsett fyrir nokkrum dögum síðan.  Hún var verkalýðsforingi á Akranesi og þurfti ófáa hildi að heyja við Hauka, Erni og Fálka peningavaldsins til að verja kjör láglaunafólks. Um það getum við lesið í ævisögu hennar.
Í sann­leika sagt, sem Elísa­bet Þor­geirs­dótt­ir skráði,  og kom út 1986.

Á miðjum níunda áratug seinustu aldar, ákvað hópur vina og kunningja og vinna kunningja að fara í göngu á Hornströndum og ganga frá Dröngum og í Hlöðuvik sem er nokkurra dagleiða ferð.  Þetta var fyrsta ferð flestra í þessum hópi á þessar slóðir en vinur okkar Guðmundur Hallvarðsson sálugi átti ættir sínar að rekja í Hælavík og Hlöðuvík.  Faðir hans Hallvarður Guðlaugsson hafði reist hús þar og þetta varð byrjun á Hornstrandaævintýri hjá mörgum.  Þetta var mikil ferð fyrir okkur sem aldrei höfðum tekið þátt í löngum útivistarferðum áður, við lentum í alls konar veðri eins og gerist á Íslandi og minningarnar eru margar úr þessari ferð.

Eftir gönguna tók við nokkurra daga dvöl í Hlöðuvík.  Í hópinn bættust nokkur sem komu með Fagranesinu, skipinu sem sigldi um á þeim árum milli víkanna.  Þar var Bjarnfríður Leósdóttir, sem tengdist eitthvað inn í þennan hóp.  Það var mikil þröng á þingi þarna í Hlöðuvíkinni og því var það að ráði að við færum nokkur yfir á Hesteyri  og gistum þar eina eða tvær nætur og skoðuðum okkur um. Þannig að við hjónin, ég og Bergþóra Gísladóttir, Guðmundur Hallvarðsson og þáverandi unnusta hans Anna Margrét sem seinna giftist honum , sænsk kona, Karen að nafni, og Bjarnfríður gengum um Kjaransvík og yfir á brúnir þar sem leið lá til Hesteyrar.  Ég gekk þá töluvert með Bjarnfríði og við spjölluðum mikið saman, um pólitík, verkalýðsmál, lífið og tilveruna.  Það kom líka í minn hlut að aðstoða hana yfir læki og ár.  Svo við urðum mestu mátar þessa tvo göngudaga.  Það var dásamlegt að koma yfir á Hesteyri,  við gistum í Læknishúsinu, ef ég man rétt, skoðuðum okkur um, kirkjugarðinn skólann, rústirnar af síldarbræðslunni.  Daginn eftir fóru Guðmundur, Anna Grétta og Bergþóra yfir í Aðalvík en ég varð eftir með Bjarnfríði og Karen, sem voru þreyttar eftir gönguna daginn áður.  Veðrið var yndislegt, sól og sumar og blágresi.  Við gengum upp af eyrinni seinna um daginn, þar mátti heyra refi gólast á úr tveim áttum og Ísafjarðardjúpið blasti við í allri sinni sólardýrð.  Daginn eftir gengum við síðan aftur til baka og fórum þá inn Heysteyrarfjörðinn og þá urðum við fyrir merkri reynslu þegar Hafernir hófu upp reiðilestur yfir okkur þeir voru með hreiður upp í brúnunum og vildu ekki fá okkur nærri sér.  Elskan hún Bjarnfríður varð ansi skelkuð og ég fékk að leiða hana inn fjörðinn því þeir voru ekkert friðvænlegir ernirnir!!!  

Svona verða til minningabrot, við á ferðinni inn Hesteyrarfjörð, trylltir ernir yfir höfðum okkar, það var erfitt að staulast upp úr firðinum en við náðum aftur í Hlöðuvíkina heilu og höldnu.  Bjarnfríði sá ég sjaldan eftir þetta, jú við hittumst á kennarafundum í Fjölbraut á Akranesi þegar ég kenndi við Grunnskólann í Borgarnesi. Ég hef kannast við börn hennar, Steinunn verður oft á vegi mínum í Reykjavík og Leó var með í ferð kennara á Vesturlandi til Skotlands upp úr 1990.  Við fórum meira að segja saman út að trimma í háskólahverfinu í Glasgow!!!! 

Já, lesendur góðir það  eru margir sem verða á vegi manns í lífinu, ég tala nú ekki um ef maður býr a nokkrum stöðum.  Sumir hafa þurft að kljást við ránfugla af ýmsum gerðum aðrir ekki.  Lífið okkar í dag er að mörgu leyti auðveldara en líf kynslóðar Bjarnfríðar og foreldra minna (sem voru fæddir 1917 og 1921).  Foreldra mínnir kvöddu þetta líf fyrir nokkuð mörgum árum og nú er Bjarnfríður Leósdóttir farin.  Hún var farsæl í sínu lífi, sem var þó ekki alltaf dans á rósum, en hún skilur eftir hlýjar minningar margra eins og þessi litla saga mín um gönguferð í óbyggðum sem varð örlagavaldur í lífi margra.  Margir fengu Hornstrandabakteríu sem varð ólæknandi.  Og margir sem voru í þessari ferð hafa kvatt þetta jarðlíf.  Blessuð sé minning þeirra.








 

mánudagur, 23. mars 2015

Sighvatur og kappar Davíðs konungs

Mikið er gott og Sigmundur Davíð og kó fá frí í nokkra daga. 
Meðan Jafnaðarmenn rakka hver annan niður.  Bakstungurnar tilheyra ekki Framsóknarflokknum í dag. 
Vigdís Hauksdóttir kemur með eitthvð gott þegar hún fær tækifæri á Alþingi, eftir afmælisveisluna. 
Andans stórmenni ríða bakvega fram í sviðljósið, Sighvatur er alltaf uppáhaldið mitt. 

„Þegar ráðist er til atlögu án skýrs tilefnis, án ágreinings svo vitað sé og án þess að flokksfólk þúsundum saman [...] geti látið rödd sína heyrast.“  Davíð hefur verið glaður að fá svon froðusnakk í útgerðarauðvaldsblaðið.  
Þetta hleypti samt lífi í annars ansi dauða samkundu.  Þó ýmsir vilji stinga spýtu milli teinanna á hjóli Sigríðar Ingibjargar. Hún hefur stimplað sig hressilega inn í forystuna.  Það var ekki vanþörf á meira lífi í forystunni.  Voðalega virðist Valgerður Bjarna vera þreytt um þessar mundir: 
„Árni Páll þarf auðsjáanlega að gefa í. Við þurfum öll að gera það, við sem störfum að þessum málum. Og það er ekki hægt að kenna honum einum um að við erum ekki í okkar óskastöðu í skoðanakönnunum. Það er ekkert hægt að kenna honum einum um. Við þurfum öll að líta í eigin barm.“  
Auðvitað þurfa allir að gera það, en þetta er ekki í fyrsta sinn sem Sigríður Ingibjörg hefur komið með gagnrýni á flokk sinn svo ekki hefði þetta átt algjörlega að koma á óvart.  Og það segir sitt að formaður  sem læðist inn á einu atkvæði, þar þarf að taka til höndum.  
Óánægja almenning með flesta flokka í dag segir sitt. Við viljum beitta umræðu um skattakerfi, kvótakerfi, heilbrigðisþjónustu, siðspillingu núverandi ráðamanna  og mannsæmandi líf á Íslandi.  
Og það er meðmæli með „ Upphlaupi" Sigríðar Ingibjargar að Sighvatur skríði inn í Hádegismóa í fang útgerðarmannanna. 

laugardagur, 21. mars 2015

Ósmekklegar árásir á SF

Umræðan um Landsþing Samfylkingarinnar er furðuleg og ósmekkleg. 

Það er eins og allir ofurbloggarar landsins vænti þess að fá þingsæti á lista Píratanna í næstu kosningum.   Málflutningur þeirra og tuð út í Samfylkinguna er með endemum.  Húsnæði
Landsfundarins er ómögulegt af því að það er á Hótel Sögu.  Ég get ímyndað mér að flokkurinn eigi ekki jafnmikið fé í sjóði og áður.  Fær minna frá ríkinu.  Þarf að finna ódýrara húsnæði.  

Formaðurinn á að vera ómögulegur, Árni Páll er hefðbundinn stjórnmálamaður sem hefur alist upp í Alþýðubandalaginu, svo Samfylkingunni og ráðuneytum þess þegar það var í stjórn, hann er góður fulltrúi hefðbundinna gilda Krata til hægri, hann vantar róttækan eld og kraft Jóhönnu og Ingibjargar Sólrúnu, og persónutöfra Össurar.  En hann er vinnusamur og drengur góður.   Sigríður Ingibjörg hefði örugglega sómt sér sem formaður, hún er impúlsív og kjarkmikil, en formannsframboðið var ansi flausturlegt svona séð að utan.  Þau stóru orð sem hafa fallið um hana og samstarfsmenn hennar eiga vart við að mínu mati.  Þá verð ég að fá meiri vitneskju um baktjaldamakkið í SF ef svo er. 

Kannski speglar kosningin litla hrifninu af ofurformönnum sem eiga að gína yfir öllum.  Að þetta sé flokkur samvinnu og samstarfs!  

Ég sé af ályktunum að yngra fólkið í flokknum er róttækara en eldri kynslóðin.  Ályktun um Drekasvæðið og NATO sýna það.  Bilið á milli SF og VG minnkar.  Og Björt framtíð á í erfiðleikum með stefnuleysi og léleg vinubrögð eins og Hafnarstjórnarmálið í Hafnarfirði sýndi.  Svo ef til vill er ekki svo langt í breiðfylkingu vinstri manna. Undir stjórn Katrínar Jakobsdóttur.

Píratar hafa unnið hug og hjörtu landans að undanförnu.  En þeir eiga langt í land að vera búnir að mynda sér heildræna stefnu.  Þeir hafa sjarmerandi þingmenn og borgarfulltrúa og hefur tekist að komast til skoðanakannanáhrifa seinasta mánuðinn. Nú er að viðhalda vinsældunum.  

Ef við horfum lengra fram í tímann þá er það spurningin um næstu ríkisstjórn eftir bömmera Stjórnar SDG og BB.  Einn bömmer á dag brýtur niður þjóðarhag.  Þá er spurning um stjórn sem vill og er óhrædd að skatta þá sem eiga pening, einstaklinga og fyrirtæki, til að auka jafnræði í heilbrigðis, félags og menntunarmálum.  Hver er bestur að leiða slíka stjórn?

föstudagur, 20. mars 2015

Sólmyrkvi, Alvara og Gosbrunnur.

Á degi sólmyrkva og jafndægurs á vori glampaði morgunsólin.  Og landinn gleymdi stjórnarháttum í nokkrar mínútur. Stjörnuáhugamaður grét upp í Háskóla. Og allir fundu sína sólarvörn, gleraugu, filmur geisladiska svo að eitthvað sé nefnt.  Það létti yfir landanum um
sinn.  

En svo tók alvaran við, ráðning 2 viðbótarseðlabankastjóra sem kostar líklega þjóðarbúið ekki neitt. En spillingarríkisstjórnin þarf ekki að hafa áhyggjur af því.  Óvinsældir Alþingis, algjört Íslandsmet í því.  En líklega gera þingmenn lítið í því fram að næstu kosningum.  Samfylkingarmenn fengu óvænt formannskjör sem kom formanninum á óvart. Hvað má segja um  Guðmund Steingrímsson ætli hann fái næst framboð,  Björt framtíð fer að verða Dimm og Drungaleg ef marka má skoðanakannanir. 

Ég lauk við að lesa undurfurðulega skáldsögu Guðmundar Brynjólfssonar, Gosbrunnurinn, saga sem er fáum lík seinni árin á Íslandi.  Bók um fjarlægan heim samt svo nálægan. Þar sem stríð ríkir þar sem við fáum að kynnast litríkum karakterum í smábæ í landi langt í burtu.  Og aðalpersónu sem ber með sér djúpan og óræðan sársauka sem erfitt virðist að vinna úr. Ég mæli með henni.