miðvikudagur, 27. maí 2015

Svikalogn: Tími á nýjar kosningar

Mér datt í hug orðið svikalogn, en sá svo þegar ég fletti upp í netinu að ég var ekki sá fyrsti, fleirum hafði dottið það í hug: 

Stjórnarandstaðan fagnaði ákvörðun Einars Kristins en hefur þó varann á sér. Þannig segir Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þingmaður Vinstri grænna, á Facebook-síðu sinni að hún vonist til að ekki sé um svikalogn að ræða.

Já, Einar þingforseti lagði til hliðar Ramma áætlunina, í bili, en svo er spurningin hvort Ofurvirkjarar sætti sig við það til eilífðar.  Við verðum að virkja til að skaffa vinnu, segja þeir, þá gleymast alltí einu verðbólguáhrif liðinna virkjana.  Þá gleymast gjafasamningar liðinna ár.   Þar sem ódýrara virkjanarafmagn fæst í stóriðju á Íslandi en í Afríkulöndum, þar sem laun eru mörgum sinnum lægri.    

Svo er það makríllinn, 39000 skora á forsetann.  Við bíðum eftir að heyra í honum, blessuninni! Ætli hann sé lagstur undir feld?

En svo kom skoðanakönnunin nýja:  xB sekkur og sekkur, er ekki kominn  tími á nýjar kosningar.  Nýjan þingforseta, nýja ráðherra, nýja hugsun???



þriðjudagur, 26. maí 2015

Bjarni og Eygló: Um hvað er barist?

Að koma upp leigumarkaði á Íslandi virðist ætla að verða torsótt.  Þras Bjarna Ben og Eyglóar sýnir það, andstæðingar leigumarkaðar fulltrúar fasteignabraskarar ætla ekki að gefa sig.  Það virðist vonlaust að fara eftir reynslu annarra þjóða um þessi mál.  Íslendingar eru sjálfstætt fólk, það á að eiga fasteignir sínar!!!


Lekið er svo upplýsingum, gamla trixið notað.  Allt í háaloft á baka við tjöldin.  Fjármálaráðherrann er alveg til í að bjóða nokkur prósent í kjarasamningum til að koma í veg fyrir frumvörp Eyglóar. Eða hvað???? 

Svo er spurningin hvort Eygló fái stuðning frá Sigmundi Davíð.  Það er ekki öruggt. Hnífstungurnar eru klassískar í Framsókn.

laugardagur, 23. maí 2015

Á Moskan að fara til Íslands?? Je suis un homme de Paix

Það er gott að fleiri koma með þessa hugmynd en ég ( í bloggi í vikunni) auðvitað á að senda innvolsið hið listræna til Íslands byggja fallegt hús utanum og þá er komin moskan sem reisa á í Reykjavík. Þar sem Islamtrúar fólk getur stundað sína trú og félagsstarf. Óþarfi að blanda kirkjunni inn í það. Það er eins og aðalatriði hjá mörgum sé að fá eitthvað sem leiði til átaka og ófriðar, jafnvel fjöldamorða. Ég er of mikill friðarsinni til að taka þátt í því!

fimmtudagur, 21. maí 2015

Sigmundur og Bjarni: Tómhentir með frekju

Enn kemur ekkert frá andvana ríkisstjórn.  Stórstirnin mæta á Alþingi í morgun og taka þátt í þrasinu af fullum þunga. En ekkert annað.  Engar hugmyndir, engar tillögur um lausn alvarlegustu kjarakreppu seinustu áratuga.  Meira að segja prúðasti maður norðan Alpafjalla, ríkissáttasemjari, er búinn að fá nóg.  

Fræðingar eru kallaðir til af fjölmiðlafólki, auðvitað er hætta á verðbólgu, auðvitað er hætta á töfum á lausn á stór efnahagsmálum, en það er ríkisstjórnar og stofnana að vinna að því að svo verði ekki. Það þarf vilja, ekki bara frekju. Það er þetta eina að viðurkenna að það þurfi að breyta skiptingu kökunnar, þegar milljarðar streyma í vasa örfárra einstaklinga, þegar
atvinnurekendur falsa gögn og kannanir þá er engin furða að hnefar fari á loft.  Það er hlutverk forsætis og fjármálaráðherra og lægja öldurnar og vera sáttaberar.  En þeir kunna það ekki, þeir þekkja bara frekju.  

Fræðingar eru sjaldséðir sem mæla með umhverfisáformum ríkisstjórnar, af hverju eru þeir ekki kallaðir í fjölmiðlana?  Er það furða að náttúran kveinki sér undan afglapahætti nefndarkjána.  


Jörðin - þessi allra dauðlegra sameiginlegi fararskjóti.Sagði Jónas. Hún á betur skilið af börnum sínum.

Ég óska hinum knáa Dalamanni Ásmundi Einari, góðs bata, netheimur er miskunnarlaus, en lygar og undansláttur ýmissa aðila bæta ekki þetta sorglega mál. 

miðvikudagur, 20. maí 2015

Silicor: Enn um Sólarkísil og fjárfestingar

Við þurfum að virkja til að skaffa atvinnu sagði hann , þingmaðurinn, virkja.Eins og að veruleikinn sé svona einfaldur.  

Fyrir hverja erum við að virkja, hvernig veljum við samstarfsaðila.  Það er stundum skrítið. 

Eins og með Silicor fyrirtæki sem hefur viljað hasla sér völl á Íslandi, en ....... takið eftir en ..... eftir að hafa brennt brýr að baki í Bandaríkjunum. Komið sér út úr húsi þar vegna fjármálaóreiðu.  Hver á að fjárfesta.  Kemur Silicor með fjármagn inn í landið?  Ætlar þeir ekki að fá lán í íslenskum banka?

Þetta er spennandi verkefni að máli margra, en þetta er það fyrsta sinnar tegundar í heimi.  Hvað ef mistekst, gengur ekki sem skyldi?  Hverjir geta þá setið uppi með skuldasúpuna.  Erum við tilbúin að svolgra þá súpu í okkur? Orðspor þessa fyrirtækis er ekkert til að hrópa húrra fyrir, við erum lítið efnahagssvæði, ef eitthvað væri úrskeiðis, gæti það haft alvarlegar afleiðingar.  

Þegar við eigum að fá erlend fyrirtæki til okkar væri ekki eðlilegra að fá traust og gott fyrirtæki með gott orðspor???? Hverjir vilja fjárfesta í þessu, verða það ekki bara við.  Hverjir sitja þá uppi með sárt ennið.  Ætli það verðum ekki við? 

 Er ekki bjartsýni fyrrverandi bæjarfulltrúa á Akranesi svolítið barnaleg? Þurfum við ekki að tryggja okkur eitthvað betur?  Gæti sólskinið ekki breyst í þokuhjúp þar sem aldrei sæist til sólar???




1. Verksmiðjan verður vinnustaður 450 manna, fagfólks á mörgum sviðum og af báðum kynjum.
2.Erlend fjárfesting af slíku umfangi er vel þegin og mikilvæg innspýting í efnahagslífið. Hún hefur mikil margfeldisáhrif á öllu atvinnusvæði Vesturlands og Suðvesturhornsins.
3. Skipulagsstofnun telur umhverfisáhrif starfseminnar ekki umtalsverð og framkvæmdin skuli því ekki háð mati á umhverfisáhrifum.
4. Umhverfisstofnun er sama sinnis og vísar til þess að verksmiðjan muni hvorki losa flúor né brennisteinstvíoxíð út í umhverfið. Mengunarálag á Grundartanga aukist því ekki með starfseminni.
5. Silcor hefur öðlast einkaleyfi á algjörlega nýrri framleiðsluaðferð þar sem unnið er í lokuðu kerfi.
6. Raforkunotkun verður einungis þriðjungur þess sem gerist í hefðbundinni sólarkísilframleiðslu.
7. Væntanleg framleiðsluvara, hreinn kísill frá Grundartanga, verður flutt úr landi og notuð til að framleiða sólarkísilflögur sem menn setja á þökin sín og virkja sjálft sólskinið til raforkuframleiðslu.
8. „Hliðarafurðir“ sólarkísilframleiðslunnar verða söluvörur líka, til dæmis álhlutar sem nýtast í bíla og létta þá – sem aftur sparar eldsneyti og dregur úr losubn gróðurhúsalofttegunda.

þriðjudagur, 19. maí 2015

Kennitöluflakk: Hvorki ólöglegt né siðlaust!!!

Enn gerist ekkert með þá sem leika sér með skiptum á kennitölu. Það er skrítið hvernig einfaldar aðgerðir gegn aðilum sem nota sér lagakróka til að komast hjá að borga
opinber gjöld og skatta virðast vera yfirvöldum ofviða.  Og það er ráðherra sjálfur sem gefur út leyfi um slit félaga með takmarkaða ábyrgð.Þetta situr á borðinu hjá honum.

Alþýðusamband Ísland skrifaði prýðilega skýrslu um þetta vandamál fyrir tæpum 2 árum og kom með tillögur. Félag Atvinnurekenda er líka með tillögur.  En..... gerist eitthvað?  Fjárhæðir sem tapast vegna óheiðarleika eigenda einkahlutafélaga og hlutafélaga eru ótrúlegar:  Á tveggja ára tímabili voru þannig lýstar kröfur að fjárhæð rúmir 400 milljarðar og af þeim innheimtust tæpir 8 milljarðar. Hér er um hreint ótrúlegar upphæðir að ræða í ljósi þess að eignir félaga eiga að ganga upp í skuldir þeirra við slit. 

Að langstærstum hluta er hér um tap sameiginlegra sjóða landsmanna að ræða9, fjármuni sem nýta hefði mátt til að efla heilbrigðis- og menntakerfið, treysta velferðarkerfið, bjóða félagslegar lausnir í húsnæðismálum, efla stuðning við nýsköpum og sprotastarfsemi eða lækka skatta á lágtekjufólk svo dæmi séu tekin. " Stendur í skýrslunni, munar okkur ekkert um 400 milljarða!!!!!! Í stefnuyfirlýsingu núverandi ríkisstjórnar er kveðið skýrt á um þetta: 
Unnið verður að því að jafna samkeppnisstöðu með því að vinna gegn kennitöluflakki, tryggja jafnræði vegna greiðslu opinberra gjalda, hindra að gjaldeyrishöft skekki samkeppnisstöðu fyrirtækja og koma í veg fyrir að fjármálastofnanir stjórni rekstrarfélögum til langs tíma.

Enn hefur ekkert gerst, ríkisstjórir okkar virðast ekki þurfa á fé að halda úr því að þeir gera engar bætur á lögum og reglum.  Er ekki kominn tími til????  Eigum við bara að halda áfram að leyfa einstaklingum að leika sér með fé okkar.  Einn af þeim hafði þetta til málanna að leggja: 
„Kennitöluflakk er ekki ólöglegt.
Kennitöluflakk er ekki einu sinni siðlaust,“


Hér eru nokkur brot úr þessari góðu skýrslu ASÍ fyrir þá sem eru duglegir að lesa: 
Í sinni einföldustu mynd má lýsa kennitöluflakki sem skipulagðri aðgerð forsvarsmanna þar sem verðmæti eru tekin út úr einu félagi og sett í annað félag en skuldir og aðrar skuldbindingar skildar eftir og félagið síðan sett í þrot. Mörg dæmi eru um keðju slíkra gjörninga vegna sama rekstursins þar sem sömu einstaklingar eru í forsvari1.

Mikilvægt er að gripið sé til aðgerða eins fljótt og kostur er þegar ætla má að félög með takmarkaða ábyrgð séu komin í alvarleg vanskil og að komast í þrot. Ein fyrsta vísbending um slíkt er þegar tafir verða á uppgjöri virðisaukaskatts. Önnur vísbending er síðan tafir á öðrum skattskilum og ársreikningaskilum. Þá er mikilvægt að hægt sé að velta ábyrgð yfir á forsvarsmenn félaga við tiltekin brot félaga með takmarkaða ábyrgð.

Heimild til að framkvæma slit á félögum, sem er að finna í lögum um hlutafélög og einkahlutafélög, verði flutt frá ráðherra til hlutafélagaskrár og henni jafnframt fylgt eftir af festu. 


Kennitöluflakk og umfangsmikil undanskot á opinberu vörslufé, sem gjarnan fylgja, hefur á undanförnum árum þýtt að sameiginlegir sjóðir landsmanna hafa orðið af tekjum sem skipta a.m.k. tugum milljarða á hverju ári. Afleiðingin af slíku getur aðeins orðið sú að leggja þarf auknar álögur á heiðarlegt fólk og fyrirtæki og/eða grípa til niðurskurðar í mikilvægri samfélagsþjónustu, s.s. á sviði heilbrigðis-, mennta- og velferðarmála.

Kennitöluflakk og eðli þess skekkir samkeppnisstöðu heiðarlegra fyrirtækja, sem standa skil á sínu gagnvart samfélaginu, og hefur þannig bein og óbein áhrif á starfsmenn þeirra. Þá snertir kennitöluflakk með beinum hætti hag þeirra birgja sem ekki fá greitt fyrir vöru sína og þjónustu.


Til að átta sig á samfélagslegu tjóni vegna gjaldþrota félaga með takmarkaða ábyrgð má setja það í samhengi við þá staðreynd að heildarupphæð lýstra krafna í þau 995 þrotabú félaga, sem uppgjöri var lokið á tímabilið 1. mars 2012 til 24. janúar 2013, var tæpir 166 milljarðar en heimtur einungis rúmir 5,2 milljarðar, eða um 3,14%. Sambærilegar tölur fyrir tímabilið 1. mars 2011 til 29. febrúar 2012 voru 1.236 þrotabú með lýstar kröfur að fjárhæð tæpir 236 milljarðar en heimtur einungis tæpir 2,7 milljarða, eða um 1,13%.  Á þessu tæplega tveggja ára tímabili voru þannig lýstar kröfur að fjárhæð rúmir 400 milljarðar og af þeim innheimtust tæpir 8 milljarðar. Hér er um hreint ótrúlegar upphæðir að ræða í ljósi þess að eignir félaga eiga að ganga upp í skuldir þeirra við slit.


Einnig eru þekkt dæmi um einstaklinga sem eru í persónulegum ábyrgðum og flytja eignarhald og
verðmæti yfir á aðra einstaklinga (gjarnan maka) áður en þeir fara í þrot. Þá eru þekkt dæmi þar sem
bankamenn fluttu persónulegar ábyrgðir yfir í einkahlutafélög.

sunnudagur, 17. maí 2015

Eygló og Bjarni: Hvar er Forsætisráðherrann?

Eygló kemur Bjarna á óvart.  Hún hlýðir ekki Fjármálaráðherranum.  En spurningin er hvar er Forsætisráðherrann.  Tveir ráðherrar eru komnir í hár saman í fjölmiðlum.  Enginn
verkstjóri í Ríkisstjórninni frekar en fyrri daginn? Hann er kannski að sinna skipulagsmálum?



„Þessi fram­ganga fé­lags­málaráðherra kem­ur mér veru­lega á óvart. Þetta mál er í sjálfu sér ósköp ein­falt,“ seg­ir Bjarni Bene­dikts­son í sam­tali við mbl.is í dag. „Það er lagt inn frum­varp til kostnaðarmats í fjár­málaráðuneyt­inu. Eft­ir að vinna hefst við að fram­kvæma kostnaðarmatið kem­ur fram að vel­ferðarráðuneytið er að vinna að breyt­ing­um á frum­varp­inu. Þá er það verklags­regla í sam­skipt­um á milli ráðuneyt­anna að vinnu við kostnaðarmatið er hætt og farið fram á að ráðherr­ann aft­ur­kalli málið og leggi það fram að nýju þegar það hef­ur verið full­unnið.“


Hann segir enn fremur að Eygló verði að sætta sig við að frum­varp henn­ar lúti sömu regl­um og önn­ur slík.Frumvörp þurfi að vera fullunninn áður en kostnaðarmat sé framkvæmt. Að því loknu séu þau tekin á dagskrá í ríkisstjórn og að því loknu í þingflokkum stjórnarflokkanna ef ríkisstjórnin hefur ákveðið að leggja þau fram á Alþingi. „Fé­lags­málaráðherra verður ein­fald­lega að sætta við það að þetta mál sé unnið eft­ir sömu regl­um og önn­ur mál,“ segir Bjarni á mbl.is.



Tjöldin dregin frá og bullandi ágreiningur blasir við


Nú er komið í ljós, að þetta var ekki nándar nærri tilbúið mál hjá Eygló, samkvæmt svörum efnahags- og fjármálaráðuneytisins, og nær útilokað var að það gæti af þeim sökum orðið að innleggi í harðar kjaradeilur. Eygló hefur reyndar sjálf hafnað þessu, sem þýðir að ráðherrarnir Bjarni Benediktsson og Eygló, eru augljóslega ekki sammála um hversu langt málið er komið. Raunar virðist vera bullandi ágreiningur um málið, eins og ólík svör ráðuneytanna bera með sér.