laugardagur, 13. júní 2015

Gleðileysi, árás Rússa og fífl vikunnar

Það er fátt að gleðjast yfir þessa dagana, höftin eru ekkert sem hafa með mig að gera.  
Lög á verkföll, gera andrúmsloftið í samfélagin æ lævi blandnara.  Æ verður erfiðara að fá menntað starfsfólk á sjúkrahús og stofnanir.  Þegar ég þarf á þeim að halda, ég er að verða gamall. 

Eini ljósi punkturinn var ákeyrsla á tvo , ég segi tvö varðskip af rússnesku seglskipi sem kemur sem skaðabótagóss til Rússa eftir fyrrri heimsstyrjöld.........  Gárungarnir í heita pottinum
ræddu um það hvort þetta væri árás á NATO ríki, þarna væri enn Pútín sjálfur að verki.  

En brosið stirðnar á vörum mér, þegar maður hugsar um óöldina ekki svo langt í burtu frá okkur, villimennsku, hendur og hausar höggin af, konur meðhöndlaðar sem skepnur og söluvara,  drónar dansa yfir höfðum okkar og safna upplýsingum og undirbúningi morða. Fjólmiðlum finnst skemmtilegt að segja frá frönskum Hórkarli sem sýnir kvenfyrirlitningu sína fyrir dómi.  

Það eina jákvæða þessa vikuna eru úrslit kosninga í Tyrklandi sem eru satt að segja stórmerkileg, kúrdískur flokkur fær atkvæði fjölda fólks af tyrkneskum stofni og þessi flokkur eru með algjört jafnrétti á framboðslistum karla og kvenna.  Þetta er ekki vika gleðitíðinda. 
Kjáni vikunnar er sjálfstæðismaður úr Vesturbænum, það verður ekki langt þar til hann verður kominn á þing: 

Utanríkisráðherra kemur ekki langt á eftir honum.  

miðvikudagur, 10. júní 2015

Bjarni Ben og Skattalækkanasyndrómið alræmda

Sumir halda að allt sé búið, höftin farin, við höfum stigið inn fyrir dyr Himnaríkis, þar taki Guðirnir á móti okkur með útbreiddan faðm, Sigmundur Davíð og Bjarni, en sjá lífið er ekki svona einfalt!

Í dag er það fyrsta sem liggur Fjármálaráðherranum á hjarta, jú hvað heldur þú lesandi góður? Sem Morgunblaðið fræðir okkur um. Þegar hann og fleiri eru með glýju í augum yfir gulli. Betra Heilbrigðiskerfi? Betri kjör Öryrkja og aldraðra? Hröðun framkvæmda við
Landspítala? Aukning í lyfjakostnaðarsjóð? Eitt af þessu? Ó nei, lesandi góður! Ekki ef maður er með Skattalækkanasyndrómið alræmda, sem hefur smitað margan Íhaldsmann á Íslandi.  Ættað frá Bretlandseyjum ef ég hef heyrt rétt.  

Mér sýnist að ég fái 40.000 króna lækkun á sköttum í kjölfar seinustu kjarasamninga, þótt ég hafi hvorki beðið um það né, eða verið aðili að.  Ég hefði frekar viljað að þeir peningar rynnu í heilbrigðiskerfið, til að greiða laun starfsfólks þar í samræmi við menntun og námslán.  Eða kaupa tæki og búnað á sjúkrastofnunum. En ég má ekki hugsa þannig, það er ekki í samræmi við Skattalækkanasyndrómið alræmda.  

Ef við þekkjum rétt, þá verður þetta eins og venjulega, skattalækkanir þýða mestu lækkanir fyrir þá tekjuhæstu, og það þýðir minna í velferðarþjónustu.  Þannig er bara lífið og kerfið.  Því hvað sem höftum líður eða haftaleysi þá breyta þau engu þar um.  Þeir sem kjósa gaurana tvo og þeirra hyski.  Kjósa bara yfir sig ömurlegri lífsgæði.  Svo einfalt og sorglegt er það!

Bjarni ætti að hugleiða orð Einsteins:  Everything should be made as simple as possible, but not simpler.  Þetta er allt sem segja þarf.......

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherrastækka
Bjarni Bene­dikts­son fjár­málaráðherra mbl.is/Ó​mar Óskars­son
Bjarni Bene­dikts­son, fjár­mála- og efna­hags­ráðherra, seg­ir bætta stöðu rík­is­sjóðs skapa skil­yrði fyr­ir lægri skatta og ein­fald­ara skatt­kerfi. Fram hef­ur komið að af­nám hafta gæti stór­bætt skulda­stöðu rík­is­ins.
„Bætt staða rík­is­sjóðs mun skapa svig­rúm fyr­ir áfram­hald­andi skatta­lækk­an­ir en þær þarf að tíma­setja mjög vel,“ seg­ir Bjarni og nefn­ir lækk­un trygg­inga­gjalds, lægri álög­ur á ein­stak­linga og af­nám tolla.
„Þrátt fyr­ir að við höf­um þegar lækkað skatta um­tals­vert verða lægri skatt­ar áfram meðal for­gangs­mála okk­ar og það verður svig­rúm á næstu árum til að gera enn bet­ur.“


http://www.ruv.is/innlent

þriðjudagur, 9. júní 2015

Verkföll: Á fólk að hrynja niður?

Nú er ríkisstjórnin í sigurvímu, haftaaðgerðum vel tekið. Loksins slá þeir í gegn hjá þjóðinni.  Þrátt fyrir ýmsa bömmera Framsóknar þar sem ekki er til neitt sem heitir þagmælska, og allt á að gleymast nema sterku mennirnir tveir sem unnu að þessu.  Enginn Seðlabankastjóri eða starfsfólk Seðlabanka og ráðuneytis, engin fyrrverandi stjórn, enginn Steingrímur, Jóhanna eða Indriði.  Gunnar Bragi þarf auðvitað að skrifa smágreinarkorn í Fréttablaðið í morgun og upphefja sinn flokk og formann. Þar sem
gleymist þáttur allra flokka í þessu seinustu árin. Og sérfræðingar valdir af fyrri stjórn.  Þar sem okkur tókst að vera sammála. 

En enn eru margir á tánum, þar á meðal ég, fær Fjármálaráðherra að leika með fé og úthluta eignum, við þekkjum Nepótisma hans, ættingjar og vinir eru líka hrægammar í okkar þjóðfélagi.  Þeir eru ekki bara í útlöndum. 

En ....... þetta fræga enn, þótt maður sé í sigurvímu, þá eru sjúkrahús í sjálfheldu, fjöldi mannslífa í hættu.  Enn berja stjórnarliðar hausnum við Stjórnarráðsvegg.  Kröfur um menntun og mat á henni eru ekki á dagskrá.  Opinberir starfsmenn eru alltaf óvinir íhaldsafla, kommar og umhverfissínnar.  Ætlar Bjarni Benediktsson að mæta fyrir dómstóli þegar dánarmein koma í ljós????

sunnudagur, 7. júní 2015

Gunnar Bragi leysir verkföll

Stundum ber maður þá von í brjósti að allt sé ekki alvont í heiminum, eða á þessu litla krummaskuði í Norðurhöfum.   En ........ alltaf hefur maður rangt fyrir sér.  Að það geti gerst að Utanríkisráðherra og einn valdamesti karl í Framsóknarflokknum skuli koma með yfirlýsingar eins og hann gerir núna bendir til þess að það sé ekki vilji um einn eða neinn samning.  Gaf
hann út svona yfirlýsingu án þess að hvísla í eyra Forsætisráðherrans.  Eða er hann bara svona heimskur?  Ég hef nú trú á að þarna sé ein af þessum fléttum Framsóknarmanna til að hleypa öllu í bál og brand, þegar fólk er á 10. viku í verkfalli, margir farnir að hugsa sér til hreyfings í vinnuleit.  Þegar enn er ekki búið að svara um sáttanefndina, það er erfitt að vera í verkfalli það er enginn leikur. 

Nei, Gunnar Bragi álítur að Samfylkingarmenn eigi ekki að taka þátt í Kjarabaráttunni, af hverju talaði hann ekki um Pál Halldórsson sem hefur tekið lengur þátt í vinstri pólitík en Þórunn Sveinbjarnarson, hann gæti meira að segja kallað hann komma, sem varla er hægt um Þórunni.

Nei lesendur góðir, heimskan tröllríður íslenskri ríkisstjórn um þessar mundir það er ekkert hægt að orða það öðru vísi.  Sjálfhverfni og siðblinda  eru mannkostirnir.  Það eru bara Framsóknarmenn sem eru algjörlega ópólitískir.  


Segir formann BHM hápólitískan



 



fimmtudagur, 4. júní 2015

Svanur fjallar um Kamelljónið Ólaf Ragnar

Það er gaman að lesa fræðimenn sem treysta sér að takast á við nútímann og atburði á 21. öldinni, án þess að detta inn í hvunndagsþras og hefðbundið stagl flokka og stefna. Svanur Kristjánsson stjórnmálafræðingur og prófessor hefur fjallað um lýðræði, stjórnarskrá og völd í skrifum sínum.  Hann hefur verið ansi afkastamikill seinustu árin.  Nýjasta afurðin hans er í Skírni, Vor 2015. Þar fjallar hann um valdatíma Forseta Íslands 2004-2008: Forseti fólksins verður guðfaðir útrásarinnar.  Forsetatíð Ólafs Ragnars Grímssonar 2004-2008. Rigerð sem vekur upp forvitni og spennu.

Hann fjallar skilmerkilegan hátt  um framhaldið af forsetatíð Ólafs Ragnars en fyrstu árin 8 voru efni greinar í Skírni 2014.  Þarna kemur Ólafur grímulaus fram á sjónarsviðið sem talsmaður útrásar eða Útflutningsleiðar eins og hún hét þegar hann var formaður
Alþýðubandalagsins, svo bætist við andstaða við Evrópusambandið og náin tengsl við ríki utan þess.  Um leið virðist hann gleyma hornsteinum vinstristefnu, sem varðaðir  höfðu verið  í riti Alþýðubandalagsins á hans formannstíma. 

Rakin er þróun hugmynda hans um hlutverk Íslands og Íslendinga allt frá ræðu í Los Angeles árið 2000, ræðu á norrænni Sveitastjórnarráðstefnu í Reykjavík 2004, Innsetingarræðu við embættistöku í ágúst 2004. Þarna var til hinn yfirdrifni stíll og hugsun, sem hefur einkennt Ólaf frá þeim tíma, allar yfirlýsingarnar sem þeir þekkja sem fylgjast með stjórnmálum, sem hafa í spegli tímans orðið gróteskar og ógnvekjandi, þegar maður hefur í huga þróun efnahags og fjármála á Íslandi sem endar á seinasta ári þessarar umfjöllunar með Hruni íslensks efnahagslífs í október 2008. Ég ætla ekki að taka dæmi hér um þessar ræður en það er ágæt grein eftir Einar Kárason þar sem það er gert. Þarna fær Ólafur að mati Svans gífurleg völd með því að neita að undirrita Fjölmiðlalögin, sem breyttu inntaki og völdum Forsetaembættisins. Við taka samskipti og ferðir með fjármálagreifum landsins, endalaus þjónkun og þýlyndi við stórfyrirtæki.  Fyndnar og furðulegar hugmyndir um hlutverk okkar Íslendinga og tenging þess við fortíðina.  Sem í mínum huga er fasískar í eðli sínu, Übermensch og ofurþjóðerni eru ekki langt undan. Ég man á þessum tíma að hafa hitt Ólafs Ragnar með uppstríluðum fjármálamönnum í Óperunni,gamla samstarfsmenn úr pólitík virti hann ekki viðlits á staðnum. 

Hámark Útrásarinnar náðist á seinni hluta þessa valdatímabils Ólafs.  Gagnrýni varð meiri en áður, bent var á aukinn ójöfnuð og misskiptingu, skattalækkanir á þá ríkustu, skattbyrði 1% ríkasta fólksins minnkaði um meira en helming, ofurlaun komu upp á yfirborðið.  Um leið er margt merkilegt að komast í umræðu, Ólafur ræddi um þessa nýju stöðu landsins án hers, hann hafði verið merkilegur frumkvöðull í nýjum hugmyndum og alþjóðlegum um baráttu gegn hernum á Keflavíkurflugvelli. Ég starfaði með honum  á þeim vettvangi.  Umhverfismálin, loftslagsbreytingar og gróðurhúsaáhrif, voru að koma fram sem sterkur þátt í alþjóðlegri umræðu.  Ólafur var þar í fararbroddi, það má ekki gleyma þessu starfi hans, þegar þessu var lítinn gaumur gefinn hérlendis.  En oft var starf hans bundið við samstarf með toppfígúrum erlendis.  Grasrót umhverfishreyfinganna var ansi fjarri honum.  Sem líklega var upphafið að þeirri ólgu og óró sem braust fram í hruninu og hefur skapað nýja fjöldahreyfingu sem andæfir hefðbundnum pólitískum flokkum, sem hefur kristallast nú í Pírötunum.  Starf Ólafs hefur með tímanum orðið ansi elítiskt.  Það eru þeir útvöldu, voldugu og valdamiklu, sem hann hefur samband við.  Enn, sumarið 2008 er hann á fullum gangi með frasana, þrátt fyrir að óveðursský hrönnuðust upp.  Allt stefndi að hruni, allar þjóðir og sérfræðingar bentu á það,  staða Davíðs Oddssonar sem Seðlabankastjóra var tragísk í getuleysi sínu að bregðast við því sem var óhjákvæmilegt.  Enginn vildi lána okkur, útréttri hendi um aðstoð og hjálp var hafnað með hroka.  Svanur er farinn að verða gagnrýnari á hinn fyrrum samstarfsmann sinn í Stjórnmálfræðinni.  

Hann dregur fram sýn sína í lokaorðunum,  grundvallaratriði jafnaðarstefnu hverfa, minna talað um jöfnuð, fátækt fær tækifæri í tylliræðum, oft ansi yfirborðslega, Siðbót sem var Ólafi hugleikin hverfur, hann er stækur andstæðingur Evrópusambandsins, ég efast að vísu um áhrif hans á þann málaflokk eins og Svanur heldur fram. Í lok 2008 í byrjun nýs tímabils Ólafs sem forseta stendur íslenska samfélagið frammi fyrir sinni verst kreppu lýðveldistímans.  Í hópi töluverðs hóps hefur Ólafur tapað sinni sterku stöðu.   Kominn er til sögunnar ný fjölmiðill,
Netið, sem á eftir að hafa mikil áhrif og breytingar á fjölmiðlun næstu árin.  Það er skrítið hversu lítið pláss það fær í umfjöllun um ja, að minnsta kosti 2008.  Það eina sem sótt er á netið sem heimildir eru ræður og fréttir af Forsetanum á hans eigin vefsíðu.  Hvað aðhafðist Ólafur seinustu mánuði ársins 2008?  Það kemur ekki fram í þessari prýðilegu ritgerð Svans.  Kannski kemur það í seinustu (eða næstseinustu) ritgerð um feril Ólafs Ragnars Grímsson, sem er í þann mund að skipta um stuðningsgrunn, hans gömlu samherjar munu yfirgefa hann næstu árin eða hann þá.  Kamelljónið Ólafur Ragnar Grímsson er kannski í sárum á þessum tíma, haustið 2008,  en hann á eftir að sleikja sárin og rísa fílefldur upp.  Fá nýja bandamenn og samherja, hversu fjölmennur hópur það er, ég veit það ekki.  En hann á enn eftir að rugga skútunni á næstu árum.  Vonandi endist Svani tími til að rýna í þá sögu og rannsaka á vísindalegan hátt. Svo við fáum að vita meira umáhrifavalda hans og nánustu samstarfsmenn, vita meira um þá sem hafa horfið úr liði hans.  Svo er þetta kjörtímabil ekki á enda, ýmislegt getur ennþá gerst. 

Skyldulesning fyrir áhugamenn um stjórnmál. 
















þriðjudagur, 2. júní 2015

Fjárkúgun: Hrunadans spillingar?

Nú æsast leikar.  Nú tekur pólitík og spilling á sig áður óþekktar hæðir á Íslandi.  Allt í einu verða stjórnmálin að glæpareyfara sem Arnaldur, Ævar eða Þráinn Bertelsson hefðu getað skrifað.  Þetta er raunveruleiki þar sem við upplifum bæði sorg og kátínu.  

Við upplifum hversu stutt er á milli persónulegs harmleiks og spillingar sem við höfum séð krauma undir niðri í Framsóknarflokknum.  Tvær konur eiga harma að hefna gagnvart einstaklingi sem hefur hefur víða komið við í hrunadansi Hrunsins.  Þær setja á svið
glæpasögu, með handskrifuðu bréfi, afskekktum stað þar sem afhenda á milljónir til að þagga í hel meintan hlut Forsætisráðherra í kaupum á DV til að koma í veg fyrir gagnrýni og frjálsa fjölmiðlun.  Út úr þessu verður eltingaleikur með víkingasveit löreglu á hælum kvenna  á höfuðstað glæpa á Íslandi, nágrenni Krísuvíkur. 

En hvað var það sem konurnar höfðu í höndum til að koma þessari atburðarás á stað?  Er Forsætisráðherra innblandaður í skoðanakúgun í fjölmiðlaheimi landsins?  Á maður að trúa Birni Inga, handbendi Hrunverja sem oft hafa blásið kaldir vindar um, karl sem ég myndi ekki vilja taka í höndina eða kaupa notaðan bíl af?  Er þetta eitthvað sem á að kitla hláturtaugar og vera lind endalausra brandara á Tvitter?   Eru íslensk stjórnmál orðin ein spillingarhít? 

Er Sigmundur Davíð með hreinan skjöld????

mánudagur, 1. júní 2015

Reykjavíkurflugvöllur: Tími hefndar og rugls

Nú byrjar tími hefndanna, meirihlutinn ætlar nú að sýna minnihlutanum hvar Davíð keypti ölið eða eitthvað sterkara. 
Þetta segir Katrín Júlíusdóttir á Fésinu:

Ég hélt að þessi stjórnarmeirihluti gæti ekki komið mér á óvart lengur. En þá gerist það að mál Höskuldar Þórhallssonar um að taka skipulagsvaldið af Reykjavík þegar kemur að flugvellinum er rifið út úr nefnd, gerbreytt og nú er skipulagsvaldið einnig tekið af Akureyri og Egilsstöðum eða þeim sveitarfélögum sem eru með millilandaflugvelli. Fengum málið sent breytt kl. 8.13. 10 mínútum síðar er það rifið út úr nefnd gegn vilja okkar Svandís Svavarsdóttir og Róbert Marshall. Við óskuðum eftir því að þessi sveitarfélög fengju að koma fyrir nefndina og ræða við okkur um málið svo breytt en því var hafnað. Sama hvað fólki kann að finnast um staðsetningu flugvallarins í Reykjavík þá hlýtur okkur öllum að vera annt um vönduð vinnubrögð og sjálfsákvörðunarrétt sveitarfélaga.

Og Robert Marshall var mættur snemma í vinnuna í morgun:  
Pólitískt reginhneyksli hér í umhverfis- og samgöngunefnd. Nógu arfaslakt var mál formannsins Höskuldar Þórhallssonar um að færa skipulagsmál Reykjavíkurflugvallar undir Alþingi en meirihluti nefndarinnar hefur nú lagt til breytingar á málinu á síðustu metrunum (á síðasta fundi um málið) þannig að skipulagsvald yfir öllum flugvöllum sem geta sinnt millilandaflugi er tekið af m.a. sveitarfélögunum á Akureyri og Egilsstöðum. Án þess að þeim sé gefið færi á umsögnum eða andmælum. Málið var afgreitt út úr nefndinni núna á níunda tímanum við hávær mótmæli okkar Svandísar Svavarsdóttir og Katrínar Júlíusdóttir.

Og Svandís Svavars var á svipaðri skoðun:  „Rétt í þessu var afgreitt út úr umhverfis- og samgöngunefnd þingsins forkastanlegt þingmál þar sem gert er ráð fyrir því að skipulagsvaldið sé tekið af Reykjavíkurborg vegna flugvallarins. Málið tók svo stórtækum breytingum eftir að fundur hófst nú í morgun og Egilsstaðaflugvelli og Akureyrarflugvelli bætt við og þar með skipulagsvaldi þeirra sveitarfélaga. Í frumvarpinu var gert ráð fyrir því að skipulagsvaldið að þessu leyti færðist til Alþingis en breytingin sem var kynnt nefndarmönnum eftir að fundur hófst gerir ráð fyrir því að skipulagsvaldið sé á hendi innanríkisráðherra. Minnihlutinn, við Katrín Júlíusdóttir og Róbert Marshall, mótmæltum málsmeðferðinni harðlega. Viðkomandi sveitarfélög fengu ekki að koma á fund nefndarinnar og heldur ekki ráðuneyti innanríkismála og skipulagsmála sem er umhverfisráðuneytið. Málið var loks tekið út með liðsauka sem sóttur var til annarra nefnda og hefur ekki tekið þátt í umfjöllun um málið hingað til. Hér eru á ferðinni forkastanleg vinnubrögð og yfirgangur sem er formanni nefndarinnar og meirihlutanum til skammar.“

Karl henni ekki óskyldur skrifaði þetta:  Nú þeir VILJA stríð. Merkilegt í lok þingsins. 

Já í lok þingsins?  Kannski er þinginu ekki lokið, eftir allt saman.