Það er gaman að lesa fræðimenn sem treysta sér að takast á við nútímann og atburði á 21. öldinni, án þess að detta inn í hvunndagsþras og hefðbundið stagl flokka og stefna. Svanur Kristjánsson stjórnmálafræðingur og prófessor hefur fjallað um lýðræði, stjórnarskrá og völd í skrifum sínum. Hann hefur verið ansi afkastamikill seinustu árin. Nýjasta afurðin hans er í Skírni, Vor 2015. Þar fjallar hann um valdatíma Forseta Íslands 2004-2008: Forseti fólksins verður guðfaðir útrásarinnar. Forsetatíð Ólafs Ragnars Grímssonar 2004-2008.
Rigerð sem vekur upp forvitni og spennu.
Hann fjallar skilmerkilegan hátt um framhaldið af forsetatíð Ólafs Ragnars en fyrstu árin 8 voru efni greinar í Skírni 2014. Þarna kemur Ólafur grímulaus fram á sjónarsviðið sem talsmaður útrásar eða Útflutningsleiðar eins og hún hét þegar hann var formaður
Alþýðubandalagsins, svo bætist við andstaða við Evrópusambandið og náin tengsl við ríki utan þess. Um leið virðist hann gleyma hornsteinum vinstristefnu, sem varðaðir höfðu verið í riti Alþýðubandalagsins á hans formannstíma.
Rakin er þróun hugmynda hans um hlutverk Íslands og Íslendinga allt frá ræðu í Los Angeles árið 2000, ræðu á norrænni Sveitastjórnarráðstefnu í Reykjavík 2004, Innsetingarræðu við embættistöku í ágúst 2004. Þarna var til hinn yfirdrifni stíll og hugsun, sem hefur einkennt Ólaf frá þeim tíma, allar yfirlýsingarnar sem þeir þekkja sem fylgjast með stjórnmálum, sem hafa í spegli tímans orðið gróteskar og ógnvekjandi, þegar maður hefur í huga þróun efnahags og fjármála á Íslandi sem endar á seinasta ári þessarar umfjöllunar með Hruni íslensks efnahagslífs í október 2008. Ég ætla ekki að taka dæmi hér um þessar ræður en það er ágæt grein eftir Einar Kárason þar sem það er gert. Þarna fær Ólafur að mati Svans gífurleg völd með því að neita að undirrita Fjölmiðlalögin, sem breyttu inntaki og völdum Forsetaembættisins. Við taka samskipti og ferðir með fjármálagreifum landsins, endalaus þjónkun og þýlyndi við stórfyrirtæki. Fyndnar og furðulegar hugmyndir um hlutverk okkar Íslendinga og tenging þess við fortíðina. Sem í mínum huga er fasískar í eðli sínu, Übermensch og ofurþjóðerni eru ekki langt undan. Ég man á þessum tíma að hafa hitt Ólafs Ragnar með uppstríluðum fjármálamönnum í Óperunni,gamla samstarfsmenn úr pólitík virti hann ekki viðlits á staðnum.
Hámark Útrásarinnar náðist á seinni hluta þessa valdatímabils Ólafs. Gagnrýni varð meiri en áður, bent var á aukinn ójöfnuð og misskiptingu, skattalækkanir á þá ríkustu, skattbyrði 1% ríkasta fólksins minnkaði um meira en helming, ofurlaun komu upp á yfirborðið. Um leið er margt merkilegt að komast í umræðu, Ólafur ræddi um þessa nýju stöðu landsins án hers, hann hafði verið merkilegur frumkvöðull í nýjum hugmyndum og alþjóðlegum um baráttu gegn hernum á Keflavíkurflugvelli. Ég starfaði með honum á þeim vettvangi. Umhverfismálin, loftslagsbreytingar og gróðurhúsaáhrif, voru að koma fram sem sterkur þátt í alþjóðlegri umræðu. Ólafur var þar í fararbroddi, það má ekki gleyma þessu starfi hans, þegar þessu var lítinn gaumur gefinn hérlendis. En oft var starf hans bundið við samstarf með toppfígúrum erlendis. Grasrót umhverfishreyfinganna var ansi fjarri honum. Sem líklega var upphafið að þeirri ólgu og óró sem braust fram í hruninu og hefur skapað nýja fjöldahreyfingu sem andæfir hefðbundnum pólitískum flokkum, sem hefur kristallast nú í Pírötunum. Starf Ólafs hefur með tímanum orðið ansi elítiskt. Það eru þeir útvöldu, voldugu og valdamiklu, sem hann hefur samband við. Enn, sumarið 2008 er hann á fullum gangi með frasana, þrátt fyrir að óveðursský hrönnuðust upp. Allt stefndi að hruni, allar þjóðir og sérfræðingar bentu á það, staða Davíðs Oddssonar sem Seðlabankastjóra var tragísk í getuleysi sínu að bregðast við því sem var óhjákvæmilegt. Enginn vildi lána okkur, útréttri hendi um aðstoð og hjálp var hafnað með hroka. Svanur er farinn að verða gagnrýnari á hinn fyrrum samstarfsmann sinn í Stjórnmálfræðinni.
Hann dregur fram sýn sína í lokaorðunum, grundvallaratriði jafnaðarstefnu hverfa, minna talað um jöfnuð, fátækt fær tækifæri í tylliræðum, oft ansi yfirborðslega, Siðbót sem var Ólafi hugleikin hverfur, hann er stækur andstæðingur Evrópusambandsins, ég efast að vísu um áhrif hans á þann málaflokk eins og Svanur heldur fram. Í lok 2008 í byrjun nýs tímabils Ólafs sem forseta stendur íslenska samfélagið frammi fyrir sinni verst kreppu lýðveldistímans. Í hópi töluverðs hóps hefur Ólafur tapað sinni sterku stöðu. Kominn er til sögunnar ný fjölmiðill,
Netið, sem á eftir að hafa mikil áhrif og breytingar á fjölmiðlun næstu árin. Það er skrítið hversu lítið pláss það fær í umfjöllun um ja, að minnsta kosti 2008. Það eina sem sótt er á netið sem heimildir eru ræður og fréttir af Forsetanum á hans eigin vefsíðu. Hvað aðhafðist Ólafur seinustu mánuði ársins 2008? Það kemur ekki fram í þessari prýðilegu ritgerð Svans. Kannski kemur það í seinustu (eða næstseinustu) ritgerð um feril Ólafs Ragnars Grímsson, sem er í þann mund að skipta um stuðningsgrunn, hans gömlu samherjar munu yfirgefa hann næstu árin eða hann þá. Kamelljónið Ólafur Ragnar Grímsson er kannski í sárum á þessum tíma, haustið 2008, en hann á eftir að sleikja sárin og rísa fílefldur upp. Fá nýja bandamenn og samherja, hversu fjölmennur hópur það er, ég veit það ekki. En hann á enn eftir að rugga skútunni á næstu árum. Vonandi endist Svani tími til að rýna í þá sögu og rannsaka á vísindalegan hátt. Svo við fáum að vita meira umáhrifavalda hans og nánustu samstarfsmenn, vita meira um þá sem hafa horfið úr liði hans. Svo er þetta kjörtímabil ekki á enda, ýmislegt getur ennþá gerst.
Skyldulesning fyrir áhugamenn um stjórnmál.