föstudagur, 30. október 2015

Regnskógar og græðgi mannanna

Oftast eru það fréttir sem skipta engu máli sem við lepjum í okkur.
Cameron á Íslandi,
Kínaforseti í heimsókn hjá Elísabetu drottningu,
Skoðanir Vigdísar Hauksdóttur á fjármálum og Ríkisútvarpi.

En það eru ýmis mál sem skipta meiri máli. Eins og þetta.

Suður í heimi nógu langt frá okkur, í Indónesíu er regnskógum eytt, lífi milljóna ógnað, svæði þar sem allir ganga með grímur, samt kafna börn af reyk, ótal dýrum og jurtum útrýmt.

Okkur varðar ekki um eiturtegundir í öðrum heimsálfum, koldíoxíð, methanský, og ótal gastegundir í vitum íbúanna, það er þeirra mál.

Í desember ræða forystumenn heimsins umhverfismálin, hve margt verður það sem ekki verður rætt?

Lesið greinar Georges Monbiot í Guardian.


laugardagur, 24. október 2015

Sjálfstæðisflokkurinn og kirkjan

Líklega samþykkir Sjálfstæðisflokkurinn ekki trúfrelsi, aðskilnað ríkis og svokallaðrar þjóðkirkju. á neinum landsfundi, hugmyndagrunnur  flokksins býður ekki upp á slíkt.  Alltaf hefur hann byggst á valdi hinna innvígðu þar sem peningar og  völd fara saman. Fals og fláræði mega þar ríkja, eins og fyrrum innanríkisráðherra sýndi. Trú og siðleysi fara þar saman. Kirkjan styrkir ramma ofurvaldsins sem er allt of mikið miðað við álit fólksins í landinu.

Þjóðin vill fullan aðskilnað kannanir sýna það. Og stuðningurinn verður alltaf meiri og meiri. Svo segir frú biskup að aðskilnaðurinn sé í reynd! 
Merkilegt. 

Mynd með færslu

sunnudagur, 18. október 2015

Flokkar: 80 milljónir á villigötum

Flokkur eða ekki flokkur. Hreyfing eða ekki hreyfing. Nútímastjórnmál kosta peninga. Og fé er deilt út til flokka og hreyfinga.  Líka til þeirra sem ekki náðu inn á þing.  Þar eru Flokkur heimilanna og Dögun sem náðu 2,5% atkvæða.  Og fá 9 milljónir á ári í 4 ár.  Hinir hefðbundnu flokkar frá meira eftir atkvæðamagni og Píratar sem ekki telja sig verða hefðbundna, ekki Fjórflokkar. Ef svo fer fram sem horfir þá fá þeir 80-100 milljónir eftir næstu kosningar.  Ég sagði EF.  

  • Björt framtíð: 25.002.659 kr.
  • Framsóknarflokkur: 74.079041 kr.
  • Sjálfstæðisflokkur: 80.948.996 kr.
  • Flokkur heimilanna: 9.156.197 kr.
  • Samfylkingin: 38.976.809 kr.
  • Dögun: 9.393.645 kr.
  • Vinstrihreyfingin – grænt framboð: 32.963.593 kr.
  • Píratar: 15.479.059 kr.


Hinir þingmannalausu flokkar hafa átt erfiða daga eftir kosningar. Dögun er í sárum meðan allt gengur fyrrum félögum þeirra í Pírötum í haginn.  Fundargerðir flokksins sýna það, fámenn klíka situr þar og heldur fulltrúaráðsfundi, lítið að gerast, einhver vandræði með Grasrótina, lítið minnst á peningana sem renna inn, aðalfundur samt verið boðaður í nóvember.  Flokkur heimilanna virðist vera í hershöndum, allt í háaloft, kemur mér ekki á óvart þegar alræmdir Útvarp Sögumenn eru á ferð.  Ráðuneyti búið að kveða upp úrskurð í vetur sem leið ég veit ekki hvað meira.  Svo það er spurning um 40 milljónirnar!   

Svo lesendur góðir, þá sá ég að aðalfundur Heimssýnar, uppáhaldssamtakanna minna, er í vikunni.  Ég dáist að því hversu vinir mínir, þeir róttækustu af öllum, geta setið í hægðum sínum með höfuðíhaldi landsins.  Það er margt furðulegt í pólitíkinni, engin tík fer eins furðulegar krókaleiðir í lífinu.  Ég tala nú ekki um þegar maður hefur sérstöðu í bakteríum.

Formaður Flokks heimilanna stefnir Pétri Gunnlaugs hjá Útvarpi Sögu fyrir meiðyrði


Stjórnarmenn Flokks heimilanna takast á um 40 milljóna króna ríkisstyrk


Hér má sjá þá stjórn Flokks heimilanna sem Atvinnu- og nýsköpunarráðuneytið telur vera ólöglega. Pétur Gunnlaugsson er annar frá vinstri og Kristján er lengst til hægri. Þriðji frá hægri er svo séra Halldór Gunnarsson sem er einn af stofnendum flokksins.



    laugardagur, 17. október 2015

    Forsetinn: Ríki í Ríkinu

    Nú er kátt í höllinni. Ólafur forseti heldur veislur.  Nú líður honum vel. 
    Stórvirki hans Hringborð norðurskautsland í fullum gangi. 1800 manna hirð. 
    Ólafur hefur fundið sér samastað meðal hinna stóru.  Fræðimenn, stjórnmálajöfrar, fjármálajöfrar, umhverfissinnar og áhugafólk um líf á jörðu hittast og ræða um Norðurhluta jarðarinnar.   Þarna er fólk meða ýmsar skoðanir um ástand Norðurslóða, það er líka komið víðar við.  Enda 185 fyrirlesarar.

    Athygli vekur stór hlutur Kínverja, kveðjur frá stórveldum, heimsókn Francoise Hollande til landsins. En yfir öllur svífur andi Forsetans.  Sigmundur Davíð fær viðtal við Hollande, nokkrir alþingismenn eru með ræður.  Þetta hlýtur að vera óhemju dýr ráðstefna og undirbúningur. Forsetinn fékk í upphafi með sér áhrifamikla fjárjöfra frá Alaska enda fær ráðstefna mikla athygli þar, og styrki víða.  Forsetanum hefur tekist að gera þessa ráðstefnu að einni þeirri viðamestu hérlendis.  Æ fleiri viðurkenna það með þátttöku sinni.

    En um leið sýnir hún vinnubrögð Forsetans, hann er ríki í ríkinu,  Ríkisstjórnin er sett til hliðar, við höfum fengið valdakerfi sem ekki er í anda þeirra sem settu upphaflega stjórnarskrá.  Enda hefur Forsetinn skoðanir á því hvernig eigi að þróa hana.  Hann vill sitja áfram til að halda í sín völd og áhrif hér og erlendis.  Hann er enginn boðberi ríkisstjórnarinnar út á við. Ríkisstjórnin er boðberi hans. 










    þriðjudagur, 13. október 2015

    Spilling: Dúkkuheimilið okkar allra

    Spilling er orð dagsins og vikunnar. 

    Ekki líður dagur án þess að ríkisstjórnin dansi um völl, uppáhaldsdansinn er Spillingartangó. Ein og einn svífur í Heimskuvalsi.  Allt svo saklaust allt svo tandurhreint.  Það glitrar á gullislegið dansgólfið. 

    Ég fór í leikhús í gærkvöldi. Þar var líka allt svo siðhreint, á yfirborðinu.  En undir niðri var margt óhreint mjöl í pokahorninu, eða á ég að segja sandkassanum.  Því leikritið var Dúkkuheimilið, eins og það heitir núna, þegar ég var ungur hét það Brúðuheimilið. Það þykir ekki fínt að láta ylhýra málið njóta sín.  Dúkka er langtum fegurra en Brúða.  Þetta var
    smáútúrdúr.  Ibsen var sjáandi síns tíma, leikrit hans eiga enn við í dag, og með smákryddi leikstjóra og samstarfsmanna hennar þá verður þetta 140 ára leikrit ansi beitt.  Peningar skipta miklu máli, þeir flögra um í stofum heldriborgaranna. Jólagjafirnar eru gulli slegnar.  Allt er gert til að að halda öllu sléttu og felldu, ýmislegt skríður undir yfirborðinu en kemur öðru hverju upp á yfirborðið.  Hláturinn og skrækirnir breytast í þunga sorgaröldu. Leiksviðið er sandur og lýsing.

    Eins og núna.  Það verður með hverjum degi ljósara að allt of margir ráðherrar ráða ekki við starf sitt það er svo ótalmargt gert til að hanga utan í ráðherrastólunum, haldið dauðahaldi um fætur og arma. En allt kemur fyrir ekki það eru langflestir búnir að sjá að leiknum er lokið.  Við verðum eflaust að bíða næstu kosningar.  Trúðaleikurinn heldur áfram, í nafni lýðræðis og meirihluta og fjárgræðgi.  Meðan við veltumst um af hlátri í leikhúsinu en grátum af sorg yfir skuggaleiknum þegar við komum heim. Rákir myndast í andlitsfarðann, allt klístrast og afmyndast. 

    En lesendur góðir.  Hvað sem gerist þá vitum við hvernig þetta mun enda.  Nýju fötin keisarans eru í tætlum. Þá er það eina eftir. Spillingin blasir við okkur áhorfendunum í allri sinni eymd.  Tjaldið fellur. 







    sunnudagur, 11. október 2015

    Svetlana Alexievich: Að víkka út heiminn


    Við bókaáhugafólk bíðum spennt á haustin þegar Nóbelsverðlaunin eru tilkynnt.  Sumum finnst lítið koma til verðlauna enda vitum við að þau eru huglægt mat nokkurra manna, oftast með karla í meirihluta.  En samt er það nú þannig að verðlaunin í bókmenntum ná til fleiri en flest hin verðlaunin þar sem um þrengri hóp sérfræðinga er að ræða (hér eru örugglega margir ósammála mér)  það eru helst friðarverðlaunin sem veitt eru í Osló en ekki Stokkhólmi eins og öll hin.  Það má hins vegar segja um Friðarverðlaunin að úthlutunarnefndin þar hefur með slæmum vinnubrögðum og niðurstöðum varpað fyrir róða trúverðugleika sínum.  


    Bókmenntaverðlaunin í ár hafa ekki valdið neinum óróa, held ég megi segja.  En verðlaunin hlaut Svetlana Alexievich, sem hefur víkkað út bókmenntaveröldina með nýstárlegum aðferðum að blanda saman aðferðum munnlegrar sagnfræði og skáldskap.  Hún tekur viðtöl við ótal manns, oftast eru það konur og notar nokkurs konar klippiaðferð til að lýsa veruleikanum í sínum heimshluta, Austur-Evrópu.

    Svona orðar Nóbelsnefndin verðlaunaveitingu sína, hér er rætt um margradda skrif og minnisvarði um þjáningur og hugrekki vorra tíma:

    The Nobel Prize in Literature for 2015 is awarded to the Belarusian author Svetlana Alexievich "for her polyphonic writings, a monument to suffering and courage in our time".

    Bækurnar sem hún byggir skoðun sína á eru: 
    Černobyl'skaja molitva (1997; Voices from Chernobyl – Chronicle of the Future, 1999). Cinkovye mal'čiki(1990; Zinky Boys Soviet voices from a forgotten war, 1992) is a portrayal of the Soviet Union's war in Afghanistan 1979–89, and her work Vremja second chènd (2013; "Second-hand Time: The Demise of the Red (Wo)man") is the latest in "Voices of Utopia". Another early book that also belongs in this lifelong project is Poslednie svideteli (1985; "Last witnesses").

    Bækur sem hafa komið út á sænsku eru: 

    Bön för Tjernobyl : en framtidskrönika / översättning av Hans Björkegren ; förord av Stig Hansén & Clas Thor. – Stockholm : Ordfront, 1997. – Originalets titel: Černobyl'skaja molitva
    Förförda av döden : ryska reportage / urval och intervju av Stig Hansén & Clas Thor ; översättning av Stefan Lindgren. – Stockholm : Ordfront, 1998.
    Kriget har inget kvinnligt ansikte : en utopis röster / översättning av Kajsa Öberg Lindsten. – Stockholm : Ersatz, 2012. – Originalets titel: U vojny ne ženskoe lico
    Tiden second hand : slutet för den röda människan / översättning av Kajsa Öberg Lindsten. – Stockholm : Ersatz, 2013. – Originalets titel: Vremja second chènd
    Bön för Tjernobyl : krönika över framtiden / översättning av Hans Björkegren. – Stockholm : Ersatz, 2013. – Originalets titel: Černobyl'skaja molitva
    Zinkpojkar : Utopins röster / översättning av Hans Björkegren. – Stockholm : Ersatz, 2014. – Originalets titel: Cinkovye mal'čiki
    De sista vittnena : solo för barnröst / översättning av Kajsa Öberg Lindsten. – Stockholm : Ersatz, 2015. – Originalets titel: Poslednie svideteli

     Og á ensku: 

    War's Unwomanly Face / translated by Keith Hammond and Lyudmila Lezhneva. – Moscow : Progress Publishers, 1988. – Translation of U vojny ne ženskoe lico
    Zinky Boys : Soviet Voices from a Forgotten War / translated by Julia and Robin Whitby. – London : Chatto & Windus, 1992. – Translation of Cinkovye mal'čiki
    Zinky Boys : Soviet Voices from the Afghanistan War / translated by Julia and Robin Whitby ; introduction by Larry Heinemann. – New York : W.W. Norton & Co., 1992.– Translation of Cinkovye mal'čiki
    Voices from Chernobyl : Chronicle of the Future / translated by Antonina W. Bouis. – London : Aurum Press, 1999. – Translation of Černobyl'skaja molitva
    Voices from Chernobyl : the Oral History of a Nuclear Disaster / translation and preface by Keith Gessen. – Normal : Dalkey Archive Press, 2005. – Translation of Černobyl'skaja molitva

    Ég hef aldrei nálgast þessa skáldkonu þó ég hafi heyrt nafn hennar.  Það er svo með bókmenntaverðlaunin að oftast er verið að verðlauna mikilhæfa höfunda fyrir lífsstarfið sitt eða að kynna fyrir okkur höfunda sem hafa ekki náð eyrum okkar vegna þess að verk þeirra hafa ekki verið þýdd og tungumálin á jörðinni eru ansi mörg og alls staðar er til þessi frumþörf sköpunar. Mikið vorum við upp með okkur þegar okkar maður Halldór Laxness fékk verðlaunin fyrir hálfri öld.  Þótt karpað væri um það sem oft verður.   Ég hef fengið margar innspýtingar í andans veröld með því að lesa þá höfunda sem hafa verið verðlaunaðir, get ég nefnt þar portúgalski snillingurinn Saramagos eða kínverski meistarinn Gao Xingjian sem ekki hefur verið þýddur á íslensku.  Bækur hans Fjall andanna og Biblía einsamrar manneskju kveiktu í mér á sínum tíma.  Fyrir nokkrum áratugum var það Isaac Bashevis Singer, gyðingurinn víðfrægi, en ég bjó í Svíþjóð þegar hann fékk verðlaunin, og hitti hann þá í bókabúð þar sem hann áritaði bækur háaldraður.  Það var merkilegt að hitta hann.  Hjörtur Pálsson þýddi nokkrar bækur hans ef ég man rétt.

    Svo nú hef ég tækifæri til að lesa nýjan meistara Svetlönu, ég er búinn að fá eina bók inn á heimilið. Rafbækurnar berast fljótar heim til manns en prentbækurnar gerðu áður fyrr.  Ekki sakar að hún kemur við kaunin á valdamönnum, hefur þurft að dveljast erlendist öðru hverju út af skrifum sínum.  Hún er beittur penni, berst gegn óréttlæti og stríðsátökum.  Svo við á þessu heimili eigum veislu framundan.