laugardagur, 23. janúar 2016

Rísum upp með Kára: Endurreisum Heilbrigðiskerfið

Kári Stefánsson er merkur maður, hann fer ekki troðnar slóðir, stundum er hann eins og gamall húðarjálkur sem enginn getur ráðið við, dómskerfið skelfur undan þessum furðufugli. Stundum er hann eins og sá sem þekkinguna, góðsemina  og valdið hefur. Þá stöndum við mörg með honum.  Þá erum við blind fyrir veikleikum hans.  Nú er hann minn maður.  Undirskriftasöfnunin sem hann hefur hafið til eflingar Heilbrigðiskerfinu á Íslandi.  Ég hef

kynnst biðlistunum og margir kunningjar mínir, ég beið í 9 mánuði eftir að komast í hnéskiptaaðgerð á hægra hné.  Nú hef ég beðið í 15 mánuði eftir að vinstra hnéð mitt verði tekið fyrir.  Ætli ég sé ekki búinn að missa á þriðja ár af lífi mínu vegna biðlista af mínum 68 árum. Þegar maður er kominn á þennan aldur er hvert ár dýrmætt.  

Mínir dýrðardagar eru að ganga skógarslóða eða stíga á fjöll.  Það hef ég ekki getað í 4 ár.  Ég er ekki einn um það.  Tæp 6000 manns eru á biðlistum og margir hafa beðið ansi lengi.  Með margs kyns kröm, frá hjörtum í hné.  Því styð ég og skrifa undir í Endurreisn heilbrigðiskerfisins.  Það er kominn tími til að rísa upp gegn blindum stjórnmálaforkólfum.  Sem meta úrelta hugmyndafræði meira en líf samborgara sinna.  Skrifið þið líka undir.  

ENDURREISUM HEILBRIGÐISKERFIÐ

Heilbrigðiskerfi er einn af hornsteinum nútímasamfélags og sýnir vilja þess til þess að hlúa að þeim sem eru sjúkir og meiddir. Gott heilbrigðiskerfi endurspeglar sjálfsagða samhygð en lélegt heilbrigðiskerfi  óásættanlegan kulda gagnvart þeim sem eru hjálpar þurfi. Það er okkar mat að á síðasta aldarfjórðungi hafi stjórnvöld vannært íslenskt heilbrigðiskerfi, að  því marki að það sé ekki lengur þess megnugt að sinna hlutverki sínu sem skyldi.
Það hefur ekki fylgt framþróun í læknisfræði, hvorki hvað snertir notkun á tækjabúnaði né bestu lyfjum og helstu stofnanir þess eru hýstar á þann veg að það kemur í veg fyrir að hægt sé að veita nægilega mikla og góða þjónustu. Hnignun heilbrigðiskerfisins hefur að mestu leyti verið óháð því hvaða stjórnmálaflokkar hafa verið  við völd vegna þess að hún hefur verið stöðug og samfelld.
Íslendingar eyða því sem nemur 8.7% af vergri landsframleiðslu í heilbrigðismál og er það langt undir meðaltali á Norðurlöndum. Það er mat þeirra sem gerst þekkja til að við þurfum að eyða allt að 11% af vergri landsframleiðslu í heilbrigðismál vegna þess að við erum fá og dreifð sem gerir þjónustuna dýrari en meðal stærri og þéttbýlli þjóða. Þar sem kjörnir fulltrúar þjóðarinnar um aldarfjórðungsskeið hafa ekki haft að því frumkvæði að fjármagna heilbrigðiskerfið eins og skyldi, ætlum við undirrituð að taka frumkvæðið með eftirfarandi kröfu.
Kári Stefánsson

VIÐ UNDIRRITUÐ KREFJUMST ÞESS AÐ ALÞINGI VERJI ÁRLEGA 11% AF VERGRI LANDSFRAMLEIÐSLU TIL REKSTURS HEILBRIGÐISKERFISINS.

 

föstudagur, 22. janúar 2016

Austurbakki: Er vilji ráðherra vilji fólksins?

Boð sem ekki er hægt að hafna?   Hvað kostar það okkur?  Eru þetta vinnubrögð sem eru í samræmi við okkar hugmyndir um gegnsæ og lýðræðisleg vinnubrögð? Þessi málsgrein hér að neðan með stóra letrinu er dálítið spúkí. Auðvitað þurfa notendur alltaf að hafa puttana í
húsnæði sem þeir eiga að nota. En það er fleira að gæta, skipulag, umferð, umhverfi, saga og hefðir. Svo hélt ég að skipulagsvöldin væru hjá Reykjavíkurborg það er kannski aukaatriði. En hvað á leigusamningur að vera langur.  Við höfum sorgleg dæmi um það hjá opinberum stofnunum.  Þar sem þeir eru óuppsegjanlegir.  

Um leið hefur Landstólpi boðist til að taka hönnun bygginga á reitnum til endurskoðunar í samráði við forsætisráðuneytið með það að markmiði að þær falli að þörfum ráðuneyta Stjórnarráðsins. 

Það er kannski gott fyrir xD að formaður xB sé að leika sér í húsaleik á meðan xD selur banka vinum sínum og einkavæðir heilbrigðiskerfið og menntakerfið án þess að nokkur trufli.  Frosti getur sagt eitthvað en hann hefur ekki ráðherravöldin.
Við erum mörg sem getum tekið undir að gott væri að breyta hugmyndum á þessu svæði fyrir norðan Lækjartorg og suður Lækjargötu.  Það er fagaðila að fjalla um það og yfirvalda borgarinnar að setja byggingarmagn sem hentar viðkvæmu umhverfi  sem er sérstakt um margt, timburhús ekki í stærra laginu.  Og við erum mörg sem viljum heildarblæ yfir þetta svæði.  En það þýðir ekki að æðsti ráðherrann vaði áfram eins og fíll í glerhúsi. Í anda forvera úr öðrum ríkjum sem höfðu mikinn áhuga á skipulagsmálum. Við nefnum engin nöfn.  Það er samvinna allra aðila sem gildir.  

Landstólpar þróunarfélag býður Stjórnarráðinu aðkomu að Austurbakka 2

21.1.2016
  • Samkomulagið var undirritað af Stefáni Thors Húsameistara ríkisins og Gísla Steinari Gíslasyni fyrir hönd Landstólpa þróunarfélags
    Samkomulagið var undirritað af Stefáni Thors Húsameistara ríkisins og Gísla Steinari Gíslasyni fyrir hönd Landstólpa þróunarfélags
Landstólpar þróunarfélag ehf. hefur haft frumkvæði að því að bjóða Stjórnarráði Íslands að leigja allt skrifstofuhúsnæði á reit 2 á lóðinni Austurbakka 2 í Reykjavík en hugmyndir þar að lútandi voru fyrst kynntar árið 2014. Áætluð stærð rýmis miðað við núverandi hönnunarforsendur er um 6.400 fermetrar.
Um leið hefur Landstólpi boðist til að taka hönnun bygginga á reitnum til endurskoðunar í samráði við forsætisráðuneytið með það að markmiði að þær falli að þörfum ráðuneyta Stjórnarráðsins.
Í yfirlýsingu sem Landstólpar þróunarfélag ehf. og forsætisráðuneytið hafa undirritað kemur fram að aðilar málsins skuli stefna að samkomulagi um drög að hönnun og byggingarmagni sem miða að þörfum ráðuneyta Stjórnarráðsins sem leigutaka og jafnframt verði unnin drög að leigusamningi milli Stjórnarráðs Íslands f.h. ríkissjóðs og Landstólpa þróunarfélags ehf. vegna skrifstofuhúsnæðisins.
Ofangreindir aðilar stefna að því að niðurstaða liggi fyrir eigi síðar en 12. febrúar nk.
( feitletrun mín)



fimmtudagur, 21. janúar 2016

Njála og Fyrirgefning

Var í Borgarleikhúsinu í gærkvöldi. Njála, afburðarsýning en ekki fullkomin frekar en önnur mannanna verk. Frábær leikhópur, mörg ný nöfn sem maður þarf að læra, þegar maður er búinn að sjá 3-4 kynslóðir leikara í leikhúsum og maður eldist þá þarf maður að læra ný andlit. Valur Freyr, Hjörtur Jóhann, Björn Stefánsson, Vala Kristín, Þuríður Blær; nóg að læra.  Svo
eldri snillingar, Jóhann, Unnur Ösp, Sigrún Edda, og kostulegur Njáll hjá Brynhildi Guðjóns,  svo var Atli Freyr mættur þarna í hlutverki Hilmars Guðjónssonar!  Dansararnir sem eru leikarar og leikararnir eru dansarar eins og þau hafi aldrei gert annað, sem nær hámarki í dansatriðinu  með Kristnihaldið/Púpu gjörninginn.  Líkamlegt atgervi leikara nú til daga þarf að vera ótrúlegt.  Þeir sem eldast eiga í erfiðleikum, en Jóhann tekur það nú flott með Presley atriðinu.

 Í hinu skemmtilega virðingarleysi verða svo mörg smáatriði skemmtileg í huganum, ég hlæ með sjálfum mér.  Stairways to heaven á dönsku, Sigrúnu Eddu hent út af sviðinu í fyrsta sinn, samband við salinn, rappkaflinn í veislunni.  Þó er virðingin fyrir þessu ógnarverki íslenskrar menningar alltaf til staðar.  Setningarnar renna upp úr leikurunum eins og þetta sé tungumálið okkar í dag. Sumu er sleppt ég saknaði Björns í Mörk.  Ljóðin fá að njóta sín.  Þarna er virðingin.  Svo ég orði þetta virðing og virðingarleysi skapa þenna einstæða atburð. Það var staðið upp í lokin og klappað og hrópað. 

Ég læt sumt fara í taugarnar á mér í hinu nýja leikhúsi.  Bjórdósir þær eru alls staðar ég sá sýningu í Berlín þar voru þær, í Þjóðleikhúsinu eru þær, í Borgarleikhúsinu.  Allt draslið sem myndast þegar leikararnir ganga berserksgang í bardagaátökum.  Vinsældatónlist sem þarf alltaf að vera til staðar, Brennið þið vitar í Njálu?  Af hverju ekki Skarphéðinn í brennunni eftir Hannes Hafstein með flottu lagi Helga Helgasonar tónskálds? 


Svo var það einu sinni, að Helgi var að leggja skífur á barnaskólann, sem þá var, seinna símstöð og nú lögreglustöð, að ein skífan hraut úr hendi hans og datt niður á götuna. Þegar hann heyrði brothljóðið, datt honum í hug: „Buldi við brestur og brotnaði þekjan.“ Hann tók nagla og skífu og rissaði upp lagið, svo að hann skyldi ekki gleyma því“ (Morgunblaðið, 8.sept.1943).

Í þessu verki er eitt lykilorðið Fyrirgefning, fyrirbrigði sem við þekkjum öll.  Þarna er það spurningin um hefnd, hvenær verður maður að drepa, hvernig getur maður lýst  ofbeldi?  Er hægt að fyrirgefa, hvað gerðu Forníslendingar?  Það var hægt að borga, vega, senda í útlegð.  Hvað gerum við í dag? Mér var á sýningunni hugsað til þessa út frá umræðunni um unga manninn sem er búinn að taka út refsinguna.  Við höfum fangelsi til þess.  Í Ameríku bíða ættingjar hins myrta eftir aftökunni, auga fyrir auga tönn fyrir tönn. Og fagna þegar dómnum er fullnægt.  Það er erfitt að standa frammi fyrir svona aðstæðum.  Allir hafa lent í aðstæðum þar sem spurning er um fyrirgefningu.  Þó það sé ekki morð.  Njáll er maðurinn sem virðist geta fyrirgefið þó hann sé ansi útsmoginn í ráðum sínum og hans uppeldissonur Höskuldur Hvítanessgoði enn frekar sem frekar lætur lífið en að drepa.  En þeir sem drepa verða drepnir, sér Njáll fyrir sér, hann reynir en getur ekki stöðvað atburðarásina, hefndin er Kára tengdarsonar hans sem eltir brennuvargana víða um heim.   

Erum við eitthvað komin lengra í dag, við horfum úr íslenskri fjarlægð á heiminn.  Þar sem morð og styrjaldir geysa þar sem hinir saklausu verða oftast fórnarlömb.  Hvernig á að stöðva hringrásina? Það er stutt í villimannseðlið.  Ég get ekki gefið svörin. Öll eigum við samt að reyna að vera mennsk.  

þriðjudagur, 19. janúar 2016

Alþingi: Eiturörvar á fyrsta degi!

Spenna, Alþingi brunar af stað.  Stóryfirlýsingar á fyrsta degi. Birgitta lætur Forsætisráðherrann fá það óþvegið:
„Svo mikil er ást Framsóknarflokksins á hinu beina lýðræði að það á að setja himinháa þröskulda sem gera lýðræðið nánast ómögulegt og á sama tíma leggja til að taka málskotsréttinn af forseta. Síðan er alveg ljóst að hæstv. forsætisráðherra stóð með beinum hætti í vegi fyrir því að það væri hægt að
klára þetta mál þannig að við gætum farið í þjóðaratkvæðagreiðslu samhliða forsetakosningum,“ sagði Birgitta á Alþingi í dag
eru það Framsóknarmenn sem vilja enga hreyfingu á stjórnarskránni? Ætli það sé ein fléttan komin frá Bessastöðum?

Og Sigmundur stingur Bjarna með títuprjónum, fyrst var það Frosti sem sendi ískaldar kveðjur til Asíufarans sem vill frekar eyða fé í Asíu í samgöngubætur en á Íslandi!
„Það liggur ekkert á að selja bankann fyrr en menn eru ásáttur um að það sé æskilegt fyrir eigandann,“ sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi í morgun um sölu á hlut ríkisins í Landsbankanum.

Sigmundur minnti á að heimild væri til staðar til að selja bankanum og bætti við að það væri í höndum Bankasýslu ríkisins að sjá um söluna. „Ég efast ekki um að bankasýslan muni meta það hvenær og með hvaða hætti æskilegt kann að vera að selja hluti í bankanum,“ sagði hann.(stafsetningarvillur í boði Visir.is) eins og ríkisstjórnin hafi ekkert með það að gera!


Ætli  Stjórnin lafi út árið?  Ætli einhverjar vörður vísi veginn!


mánudagur, 18. janúar 2016

Bílafasismi er orðið

Bílafasistar vaða uppi, komast í feitt á Grensásveginum. Hvers eigum við að gjalda ? Við sem höfum kosið að  nota ódýrari valkost og umhverfisvænni.  Þeir sem vilja að börnin þeirra séu stöðugt í lífshættu í umferðinni. Það er eins og að rífa augað úr sumum  ef minnst er á reiðhjól eða gangandi vegfarendur. Þeir vilja frekar fórna börnum sínum á altari bílismans.

Bílafasismi er orðið. Ég hrósa ekki alltaf skipulagsmálum meirihlutans og smekk en þessa götu hjóla ég oft um og þar má breyta og bæta. Ég meina það.


laugardagur, 16. janúar 2016

Rithöfundar:Letingi á ríkisjötu

Ætli forsetakosningar séu byrjaðar það mætti halda þegar maður sér skrif ofsaíhalds liðsins gegn hugsanlegum frambjóðanda sem er friðarsinni, umhverfissinni og félagslega þenkjandi. Það er allt gert til þess að hindra framgang hans. Nú er það níð um letingjann á ríkisjötunni sem þiggur milljónir af bláfátækri alþýðu.

Já það er allt reynt, líklega er þetta byrjunin á einni sóðalegustu kosningabaráttu lýðveldisins. Allt verður gert til að koma í veg fyrir að frjálslyndur umhverfis sinni setjist að á Bessastöðum.

Sama má segja um aðra stjórnarmenn þó þeir hafi ekki verið orðaðir við forsetaframboð.  Þau myndu öll sóma sér vel á Bessastöðum. Þau Kristín Helga Gunnarsdóttir, formaður, Jón Kalman Stefánsson, Hallgrímur Helgason, meðstjórnandi, Vilborg Davíðsdóttir, meðstjórnandi. Öll fengu þau líka laun áður en þau komust í stjórn! Hvernig stendur á því?

föstudagur, 15. janúar 2016

Kennitöluflakk.: Gætum Meðalhófs segir SA!!!


Kona mín hló svo mikið yfir tölvunni sinni í gærmorgun.  Ég var auðvitað forvitinn hvað gat verið svona skemmtilegt? Jú það var svo skemmtileg frétt frá Samtökum atvinnulífsins í Fréttablaðinu með þessari flottu fyrirsögn:

Varlega sé farið í baráttu gegn kennitöluflakki

Já þetta var eitthvað til að fara sérstaklega varlega gegn:  

 Samtök atvinnulífsins vilja að stjórnvöld gæti meðalhófs í baráttu sinni við kennitöluflakk. Í frétt á
vef samtakanna kemur fram að þetta sé afar mikilvægt og þó svo að „um sé að ræða mikinn löst í atvinnulífinu sem nauðsynlegt er að sporna við af festu, verður að hafa í huga að
um er að ræða fámennan hóp rekstraraðila sem vísvitandi brjóta gegn lögum og reglum.“
Þar segir jafnframt að það að herða á regluverkinu í baráttunni við aðila sem sýna af sér einbeittan brotavilja sé ekki til árangurs fallið og „mun aðeins bitna á þeim yfirgnæfandi meirihluta atvinnurekenda sem standa heiðarlega að sínum rekstri.“

Svo mörg orð voru það.  Meðalhóf er fallegt orð, á þá að loka augunum að einhverju leyti? Á að láta þá vera sem sýna einbeittan brotavilja?   Er það hlutverk yfirvalda?  Það er ýmislegt skrítið hugsað innan veggja SA!   

 Þar segir að stjórnvöld verði að beita öðrum aðferðum við að ná til þeirra sem brjóta lög og standa ekki skil á sköttum og gjöldum en takmarka möguleika fólks til að stofna til eigin reksturs, til dæmis herða á refsiákvæðum þegar rekstraraðilar verða uppvísir að skipulögðum undanskotum líkt og með kennitölu­flakki. Það sé grundvallarréttur einstaklinga að sjá sér og sínum farborða, leita sér atvinnu og stofna til reksturs í því skyni. Þessi réttur sé staðfestur í stjórnarskrá Íslands.

Nú á ég varla orð .......  er ekki sjálfsagt að takmarka möguleika þeirra að fara í eigin rekstur sem hafa brotið lög, skila ekki lögbundnum sköttum og gjöldum?  Er það hlutverk Samtaka atvinnulífsins að halda hlífiskildi yfir glæpamönnum? 

Alþýðusamband Íslands gerði gangskör fyrir nokkrum árum að rannsaka kennitöluflakk.  Þar kom í ljós að: 

Árið 2012 voru á Íslandi skráð 31 þúsund fyrirtæki með takmarkaða ábyrgð og fer þeim fjölgandi. Takmörkuð ábyrgð vísar til þess að sá/þeir sem að félaginu standa taka ekki á sig aðra skuldbindingu en þá að greiða tiltekna fjárhæð við stofnun félagsins. Að öðru leyti eru þær skuldbindingar sem gerðar eru í nafni félagsins á ábyrgð þess, ekki eigendanna. Dæmi eru um að einn og sami einstaklingurinn hafi farið með 29 félög í gjaldþrot á sjö ára tímabili.
Samkvæmt gögnum Creditinfo skiluðu einungis 22% félaga ársreikningi á réttum tíma árið 2011. Mikil fylgni er á milli þess að skila ekki ársreikningi og að vera í vanskilum því 72% þeirra fyrirtækja, sem ekki hafa skilað ársreikningi 2011, eru á vanskilaskrá.

 Það er eflaust hægt að segja að þessi gögn séu of gömul sem vitnað er til.  En við höfum ótal dæmi um notkun þessa flakks en það er skilgreint: 

Í sinni einföldustu mynd má lýsa kennitöluflakki sem skipulagðri aðgerð einstaklinga þar sem verðmæti eru tekin út úr einu félagi (hf./ehf.) og sett í annað félag en skuldir og aðrar skuldbindingar skildar eftir og félagið síðan sett í þrot. Mörg dæmi eru um keðju slíkra gjörninga vegna sama rekstursins þar sem sömu einstaklingar eru í forsvari. Fullyrða má að þetta athæfi kosti íslenskt samfélag tugi  milljarða króna á ári. 

ASÍ kom með tillögur í 16 liðum sem gætu hjálpað í sambandi við kennitöluflakk. Þarna tapar samfélagið tugum milljarða króna og ekki veitir af í samneysluna.  Er það hlutverk SA að vera varðhundur fyrir þá sem leika sér að illa skipulögðu kerfi?   Væri ekki nær að Samtök Atvinnuvega berðust gegna glæpsamlegri starfsemi í fyrirtækjarekstri?  Kveddu Alþingi að setja eðlilegan lagaramma um þennan málaflokk.  Spyr einfaldur bloggari í öngum sínum.  

Hér er skýrsla ASÍ :

http://www.asi.is/media/2702/Kennitoeluflakk-01102013.pdf