Nú er við höfum fengið dóm Landsréttar í Stóra Glitnismálinu þá er spurningin hvernig íslenskir stjórnmálamenn ætla að höndla veruleika Engeyjarættarinnar. Ætla þeir að láta eins og ekkert sé? Viðurkenna Bjarna Benediktsson sem mesta valdamann þjóðarinnar, hvað sem hann hefur gert af sér, fara með honum í ríkisstjórn láta hann stjórna fjármálum þjóðarinnar? Horfast í augu við hann á hverjum degi og brosa blítt. Gleyma sölu sjóðsbréfa, þurrka kúlulán úr minninu, líta framhjá peningaþvætti á fjarlægum eyjum. Og enn eru ekki öll kurl komin til grafar.
Í viku sem hefur ekki verið hliðhollt embættismönnum og regluverki þjóðarinnar, þá er það ekki ríkisstjórninni til framdráttar að skipa dæmdan fyrrum hrunforsætisráðherra fulltrúa okkar í Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Hagfræðingnum sem vissi ekkert um Hagfræði.
Bjarni losaði sig út úr Sjóði 9 í hruninu
Umfjöllun fjölmiðlanna hófst 6. október 2017 með ítarlegum fréttaskýringum um viðskipti Bjarna Benediktssonar, þáverandi forsætisráðherra, og fjölskyldu hans í kringum bankahrunið 2008.
Kom meðal annars fram að Bjarni Benediktsson hefði selt allar eignir sínar í Sjóði 9 hjá Glitni dagana 2. til 6. október 2008 og að faðir hans hefði verið leystur undan sjálfskuldarábyrgð hjá bankanum skömmu fyrir hrun.
Stundin fjallaði svo ítarlega um kaup Engeyinga á Olíufélaginu árið 2006 og hvernig yfirtakan var að miklu leyti fjármögnuð með kúlulánum.
Fram kom að Bjarni hefði verið losaður undan 50 milljóna kúluláni sem hann hafði tekið persónulega hjá Glitni og skuldin færð yfir á skuldsett eignarhaldsfélag föður hans, Hafsilfur ehf., sem síðan var slitið eftir hrun. Slitastjórn Glitnis tók málið til sérstakrar skoðunar enda fannst engin fundargerð þar sem skuldskeytingin var leyfð.