þriðjudagur, 28. maí 2013

Þrjár ræður Vigdísar Hauksdóttur á Alþingi


Ég þekki ekki Vígdísi Hauksdóttur og það er ekkert vafamál að það hefur verið mikið bloggað um hana seinustu árin.  Ef til vill ekki að ástæðulausu, hún hefur skemmt mörgum og glatt með sínu sérstaka málfari.  Og ræður hennar á Alþingi hafa verið snaggaralegar og heiftúðugar. Svo það er engin furða þótt hún fái ýmis andsvör.  Svo ég leyfi mér að efast um að hún hafi verið meira lögð í einelti en aðrir þingmenn af fjölmiðlaheimi.  Ég leyfi mér líka að efast um að Jón Bjarnason hafi verið einhver sérstök skotskífa. Þeir sem fara fram á opinberum vettvangi mega búast við að fá orðahríð á sig þannig eru fjölmiðlar í dag.  


Hér eru þrjár ræður sem ég tók bara af handahófi af vef Alþingis, þar getið þið séð málflutning Þingkonunnar ef þið hafið gleymt honum eða aldrei hlustað á Alþingisumræður í sjónvarpinu.  Vigdís er einstök þótt hún sé vart einelt.  Og hún ætti nú að vita að í Blogg og Feisheimum eru alltaf einhverjir falskir nafnar.  Ég hef ýtt tveimur eða þremur út hjá mér á Fésinu. Það er alltaf ömurlegt fólk sem þorir ekki að koma fram undir nafni, alveg burtséð frá stjórnmálaskoðunum.  


Virðulegi forseti. Enn er verið að ræða rammaáætlun ríkisstjórnarinnar. Ég hef verið að kíkja aðeins inn á fréttamiðlana í kvöld og skoða viðbrögð við Kastljósinu þar sem Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, og hæstv. ráðherra Steingrímur J. Sigfússon tókust heiftarlega á. Sá fyrrnefndi sakar ríkisstjórnina um svikin loforð og ekki er hægt annað en að taka undir það. Þeir hjá ASÍ segjast ekki ætla að fara í fimmta sinn og semja við þessa ríkisstjórn. Þeir eru einfaldlega búnir að gefast upp og ætla, eins og ég sá einhvers staðar haft orðrétt eftir Gylfa, bara að þreyja þorrann þar sem stutt sé til kosninga. Þetta er ótrúlegur áfellisdómur yfir ríkisstjórninni. Ég spyr eins og hv. þm. Árni Páll Árnason: Hvers eigum við að gjalda að búa í þessu landi með slíka ógnarstjórn yfir okkur?
Þegar litið er inn á heimasíðu Stjórnarráðsins má sjá yfirlýsingu frá ríkisstjórninni í löngu máli þar sem andmæli gegn því sem kom fram í auglýsingu ASÍ í Fréttablaðinu í morgun eru sett í barnalegan búning. ASÍ telur að það loforð að rammaáætlun skyldi afgreidd í samræmi við tillögur sérfræðinganefndar hafi ekki verið efnt og við í stjórnarandstöðunni erum sammála því. En þá kemur svarið frá ráðuneytinu, með leyfi forseta:
„Fullyrðingin er röng enda ekkert sagt um að rammaáætlun skuli afgreiða í samræmi við tillögu sérfræðinganefndar, heldur áréttað það markmið að afgreiða málið sem fyrst í viðeigandi ferli. Rammaáætlun er nú föst í málþófi stjórnarandstöðunnar í seinni umræðu á Alþingi, sem þegar hefur staðið í fjóra daga.“
Maður hálfskammast sín fyrir þær upplýsingar sem birtast þarna, á vefsíðunni stjornarrad.is, að yfirlýsingar af þessum toga skuli koma frá stjórnvöldum. Hvað halda erlendir aðilar um þá stjórn sem situr í landinu? Ég segi ekki annað. Þetta skjal á vef Stjórnarráðsins er allt þannig upp byggt, það er alltaf einhverjum öðrum að kenna. Bestu rökin komu frá hæstv. ráðherra Steingrími J. Sigfússyni í dag þegar hann gaf út eina af sínum mörgu yfirlýsingum varðandi andstöðu ASÍ við ríkisstjórnina — ASÍ er búið að segja ríkisstjórninni upp, við skulum bara tala hreint út. Hann sagði að það væri jafnvel vegna erfiðs ástands á mörkuðum í Evrópusambandinu að ekki hefði gengið betur í íslensku efnahagslífi. Svo standa Vinstri grænir fyrir því að hjá Evrópusambandinu liggur aðildarumsókn frá Íslandi. Eru þversagnirnar nú ekki orðnar ansi margar, virðulegi forseti, í máli hæstv. ráðherra Steingríms J. Sigfússonar?
Þeir sem sáu Kastljósið í kvöld sáu hinn gamla Steingrím birtast á ný steytandi hnefann, brigsla mönnum um lygar, bara vegna þess að hann finnur að málið er að fjara út. Það var athyglisvert. Það er ekkert grín að fá 1/3 þjóðarinnar upp á móti sér. Eins og ég hef farið yfir í ræðum í dag telja félagsmenn ASÍ yfir 100 þús. manns. Þetta er fjöldahreyfing, virðulegi forseti, og þetta spyrst út í hreyfingunni. Það hefur fengið mikla umræðu í dag að ASÍ sé búið að segja ríkisstjórninni upp, eins og við þingmenn Framsóknarflokksins höfum gert fyrir löngu. En ríkisstjórnin ætlar að hanga fram að kosningum, hún sleppir ekki völdum, hún hangir á þrjóskunni einni saman. Þegar nánast er búið að keyra efnahagslífið í þrot eins og þessi ríkisstjórn hefur gert — hún stuðlar ekki að uppbyggingu og atvinnusköpun eða kemur til hjálpar heimilunum — þá á sú ríkisstjórn ekki marga daga eftir. Að öllum líkindum og vonandi fara kosningarnar þannig (Forseti hringir.) að þessir flokkar fara ekki aftur í ríkisstjórn.

Virðulegi forseti. Í dag eru að gerast merkilegir hlutir í þinginu þar sem Alþingi Íslendinga á að vera sjálfstætt frá framkvæmdarvaldinu. Hér stígur á stokk hæstv. ráðherra Steingrímur J. Sigfússon og tuktar þingmenn til. Hann hefði alveg eins getað sagt: Nú má ég, nú er ég í ríkisstjórn, nú skuluð þið haga ykkur vel.
Það er maðurinn sem á Íslandsmet í málþófi í þinginu, hann sat svo lengi í stjórnarandstöðu.
Mér er minnisstætt það sem gerðist hér í beinni útsendingu haustið 2008. Ég ætla ekki að rifja það upp fyrir hæstv. ráðherra Steingrím J. Sigfússon er hann gekk fram hjá þessu ræðupúlti. Hvers lags dónaskapur er hér á ferðinni? Ég spyr: Hefur ráðherra leyfi til að koma í þingsal og tukta þingmenn til, tukta þá til hlýðni? Þvílíkur hroki og sjálfshól sem birtist í því þegar hæstv. ráðherra segir að nú liggi fyrir þinginu allra besta fjárlagafrumvarpið í fimm ár.
Virðulegi forseti. Ég tel að nú séu málin komin á ranga braut og ég tel að málin séu líka komin á ranga braut þegar hv. þm. Margrét Tryggvadóttir segist ekki ráða við vinnuna sína. Ég segi: Þeim þingmönnum sem ráða ekki við vinnuna sína ber skilyrðislaust að segja starfi sínu lausu og kalla inn varamann (Gripið fram í: Þú ert að …) eða þá að hvetja til þess að hér verði boðað til kosninga, (Gripið fram í.) t.d. með því að taka höndum saman við aðra stjórnarandstöðuþingmenn og lýsa yfir vantrausti á þessa ríkisstjórn. Þingmenn eru að gefast upp á ríkisstjórninni. Þjóðin er búin að gefast upp á ríkisstjórninni.
Ég tel orðið tímabært að hér verði boðað til kosninga úr því að framkvæmdarvaldið sýnir hér sitt rétta andlit (Forseti hringir.) og skammar þingmenn fyrir það eitt að nota málfrelsi sitt.


Virðulegi forseti. Ég ætlaði að tala um annað mál en úr því að hv. þm. Mörður Árnason tók það að sér að vera í hlutverki auglýsingadömu í upphafi fundar fyrir Framsóknarflokkinn verð ég að tala um það og þakka fyrir.
Þingmaðurinn sagði að framsóknarmenn vildu ekki auðlindaákvæði í stjórnarskrá en ég veit að hann og fleiri samfylkingarmenn eru sérfræðingar í kosningastefnuskrám og stefnuskrám Framsóknarflokksins til margra ára, jafnvel áratuga. Ef þingmaðurinn hefði kynnt sér þær í alvöru vissi hann að það er búið að vera á stefnuskrá framsóknarmanna mjög lengi. Við höfum ætíð talað fyrir því að breyta stjórnarskránni og setja auðlindaákvæði inn í hana. (Gripið fram í: Nú?) [Kliður í þingsal.]
Það er með þingmanninn eins og fleiri góða þingmenn hér inni, það er talað eins og enginn sé morgundagurinn. Svo virðist sem þingmenn þeirra flokka sem verða fyrir náttúrulegri fækkun á þingi og munu ekki koma aftur að afstöðnum kosningum ætli að halda málþófi sínu sjálfir fram að kosningum. Það er fagnaðarefni að þeir ætli að halda í starfið svo lengi.
Sannleikurinn er sá að frá upphafi þessa kjörtímabils hefur Framsóknarflokkurinn lýst sig reiðubúinn að koma að samstarfi (ÁI: Já, í upphafi.) við vinnu stjórnarskrárinnar, og allt þetta kjörtímabil, að setja auðlindaákvæði inn í stjórnarskrána. (Gripið fram í.) Nú er starfstími þingsins liðinn. Í janúar lögðum við fram formlega beiðni um að ríkisstjórnarflokkarnir mundu ganga til samstarfs við okkur framsóknarmenn þannig að þetta brýna hagsmunamál fengi framgang fyrir kosningar. Við því varð ríkisstjórnin ekki og við sitjum uppi með þetta klúður í dag. En það er ekki þar með sagt að við ætlum að kokgleypa auðlindaákvæði Vinstri grænna og Samfylkingarinnar. Við viljum setja inn auðlindaákvæði sem tryggir rétt þjóðarinnar gegn ásókn (Forseti hringir.) erlendra aðila í nýtingarrétt auðlindanna. Hér fór allt af hjörunum í síðustu viku hjá þingmönnum Vinstri grænna þegar við (Gripið fram í.) bentum á það (Forseti hringir.) og vildum að það yrði tryggt.
Næsta ræða

mánudagur, 27. maí 2013

Skipulag í Reykjavík: Gróði og græðgi


Það er sorglegt hversu yfirvöldum okkar gengur illa að fóta sig í samskiptum við verktaka og fasteignabraskara.   Það er eins og þeir verði alltaf að undirlægjum þegar þeir hitta þetta fólk og gullkálfahugsanaháttur virðist einn ráða ríkjum. Fólk sem vill auðvitað græða á framkvæmdum sínum, skapa sér auð og fá sem mest út úr lóðum sem þeir hafa keypt eða komið sér upp.  Endalaust þurfum við borgarbúar að vera í stríði við þessi yfirvöld okkar þegar þau hafa enn einu sinni hneigt sig í duftið og skilið alla fegurðar eða fagurfræðitilfinningu eftir ég veit ekki hvar. 

Við höfum auðvitað stóra dæmið núna baráttuna um Miðbæðinn þar sem ennþá á að troða ofan á okkur borgarbúunum og þrengja að þessu litla svæði.  Og ekkert dugar, listamenn mótmæla, við sendum inn mótmæli.  Þá er ekkert að marka það af því að bréfin eru eins.   Svo eru smærri dæmi út um allan bæ.  Meðfram höfninni á að troða háhýsum þótt við borgararnir viljum fá lágreista byggð þar sem við getum rölt um á góðviðrisdögum og notið umhverfisfegurðar borgarinnar. Alls staðar þar sem er smáreitur á alltaf að koma einhvers konar skrímsli í húsmynd.  Sem fær mann til að undrast.  

Ég rölti fyrir nokkrum dögum um Þingholtin, og mikið er gaman að sjá hversu íbúarnir virðast smekklegri en yfirvöldin.  Alltaf bætast við í flóruna hús sem einu sinni voru í niðurníðslu eða farin að láta á sjá en núna blasa við fallegar framkvæmdir þar sem uppruninn fær að njóta sín.  Það er eitthvað sem borgarfulltrúar, borgarstarfsmenn og arkitektar virðast ekki geta hugsað sér.  Það er gullið sem á að ráða ríkjum í borginni okkar. Það er hámark gróða og græðgi sem á að ríkja.    

Og sama virðist ætla að verða hjá nýju ríkisstjórninni í umhverfismálum svo þykist Forsætisráðherann ætla að sjá um skipulagsmálin!!!!!  







Sjáið hversu margt er fallegt hérn, smádæmi, en svo voga yfirvöld sér að leyfa einhvern hræðilegan kofa við hliðina á á húsi með sórmerka sögu í Þingholtsstrætinu (fyrirgerið myndgæðin).   Myndir höfundur.

laugardagur, 25. maí 2013

Matrixþjóðin: Sorg og silfurglýja

Og þau fengu það sem þau vildu,þessi volaða þjóð.  Ár þar sem virkjanirnar glömpuðu í sólskininu.  Og fólkið horfði á þessi undur.  Verksmiðjur sem virtust endalausar, það var haldin hlaupakeppni einu sinni á ári þar sem allir starfsmenn gátu sýnt getu sína og öðlast frama og frægð innan þessa fyrirtækis.   Valdamenn sem gengu um í svörtum jakkafötum og hvítum skyrtum með Matrix sólgleraugu.  Ein og ein kona reyndi að keppa við þá í svartri drakt og hvítri blúndublússu en sú barátta var vonlaus.  Þeir fóru bara með þýskar endursagnir og konan huldist svörtu Helguvíkurgrjóti.  

Já, þessi þjóð,mín þjóð, hún fékk það sem hún vildi.  Valdamenninir glottu, enginn sá hörðu augun undir sólgleraugunum, og lækkuðu skattana og hækkuðu ellílífeyrinn og lífið var dásamlegt sem aldrei fyrr. Allir töldu silfrið og keyptu hlutabréf í Hamingjusjóðnum. En smátt og smátt hvarf allt sjónum.  Fjöllin, bláblómabreiðurnar, mosadyngjurnar sáust ekki. Árnar streymdu um brúnar og gruggugar og fiskar flutu á land og tóku seinasta andvarpið. Landið var hulið sorg og silfurglýju, enginn kom sér lengur til fjalla og allir sungu La Complainte de Mackie. Aðsóknin í Héraðsskólana var sem aldrei fyrr, nemendur sátu hljóðir með spjaldtölvurnar þar sem ræður valdamannanna voru endurteknar aftur og aftur. Og ferðafólkið kom á risaskipum og fylgdist með í sjónaukum hvað gerðist og undraðist. 

 

fimmtudagur, 23. maí 2013

Fyrsti dagur Gullstrandarstjórnarinnar


Fimmtudagur: Vorrigning, ljúf og mild. Á fyrsta degi nýrrar stjórnar, stjórnar sem ætlar að gera margt en veit ekki hvaðan peningar eiga að koma. Þess vegna endalausar nefndir ansi margt óljóst ...... En við vonum að ekki rúlli allt til andsk. En við andstæðingar munum stunda andstöðu gegn umhverfisfjendum sem ætla að rúlla umhverfisráðneyti ofan í skurð ..... Það verður fróðlegt að fylgjast með hlutskipti láglaunafólks næstu árin. Sérstaklega þegar lækka á skatta sem þýða yfirleitt lækkun hátekjuskatta eða auknar álögur í gjöldum á hinn almenna þegn.


þriðjudagur, 21. maí 2013

Gleðjumst

Það er að sumra.  Lífið er ekki svo ömurlegt.
Við hjónin eyddum 11 dögum í að sjá um barnabörn meðan foreldrarnir stunduðu vinnu í útlöndum. Fluttum í 101 það var ævintýraleg. Samt höfðum við ekki tíma til að fara á krá.  Fengum okkur einu sinni skyndibita ágætan.  Svo var það bara að sjá um mat fyrir unga fólkið og koma þeirri yngstu í skólann.  Hlusta á tónlistaræfingar og unglinga að skemmta sér.  Fórum á sinfoníu á fimmtudag. Dásamlegt.  
 
Það var skemmtilegt en lýjandi.  Okkur þykir vænt um börnin þetta eru svo fínir krakkar, en við erum að eldast. Stundum erum við þreytt.  En við erum líka dugleg.   

Við borðuðum hollan mat í kvöld með ættingjum okkar. Grænmetisrétt a la BG með perum og mygluðum osti. Og eitthvað gott með, rauðvín.   


Lífið er ekki svo ........