föstudagur, 10. apríl 2015

Mútur: Einhverjir aðrir en við

Við erum bestir við erum ósnertanlegir við þurfum ekki að hlusta á alþjóðlegar stofnanir sem við erum aðilar að. OECD fleygir blautri tusku framan í okkur,

Ekkert í gangi til að stöðva mútugreiðslur

Fréttin í RUV í kvöld var sorgleg, tveir þættir af 17 teknir til greina annað ekki gert: 

. Í henni segir að vinnuhópurinn hafi árið 2010 sett fram 17 punkta aðgerðaplan fyrir Ísland í baráttunni gegn mútugreiðslum til erlendra embættismanna. Tveimur árum síðar hafi einungis verið búið að hleypa tveimur þeirra í framkvæmd. Síðan þá hafi lítið sem ekkert gerst utan hvað sett hafi verið á laggirnar ráðherranefnd.

Það veldur vinnuhópnum sérstaklega vonbrigðum að ekkert hafi verið gert til að berjast gegn mútugreiðslum til embættismanna hjá stofnunum erlendra ríkja. Þá þykir vinnuhópnum alvarlegt að ekki hafi enn verið sett lög sem verndi uppljóstrara í einkageiranum en eftir hrun var mikið talað um nauðsyn þess að slíkir uppljóstrarar nytu verndar.
Vinnuhópurinn bendir á íslensk stjórnvöld hafi í tvígang hunsað bréfasendingar frá formanni hópsins. Stjórnvöldum er gefinn frestur fram í október til að bæta ráð sitt, að öðrum kosti muni vinnuhópurinn íhuga aðgerðir gegn íslenska ríkinu.


Er það furða að almenningi virðist spilling vera vaðandi upp.  Við teljum alltaf að við séum yfir alþjóðalög hafin.  Mútur heita eitthvað annað en mútur hjá okkur, gjafir, vinargreiði.  Svo við höldum áfram á sama róli, gefum ríkisfyrirtæki, sleppum útboðum, látum vini og kunningja sitja fyrir.  Ráðherrar þurfa ekki að gefa upp rétt tengslanet sitt.  Samskipti við einkafyrirtæki oftast á gráu svæði.  

 

miðvikudagur, 8. apríl 2015

Skeytingarlaus Ríkisstjórn: Er á meðan er

Verkföllin hafin, lítið að gerast.  Allt verður svo vandræðalegt hjá herrunum, eða eigum við að segja skeytingarlaust?  Þeim er alveg sama,  Fjári á Flórida, af hverju birtir hann ekki myndir á Fésinu eða jafnvel á ráðuneytissíðunni.  Það gæti aukið vinsældirnar!!! Hvar er Heilsi? Er hann líka í útlöndum. Þetta eru páskar segja þeir auðvitað, hvað annað ?  Það væri kannski hægt að
fyrirgefa þeim ef þeir væru að ganga Píslargötuna í Jerúsalem eða á leiðinni til Santiago de Compostela. En þeir hefðu hvorki hugmyndaflug né trúarhita til slíks. 

Og Forsi hvar er hann?  Lætur sig bara hverfa svona einn tveir og þrír.  Það eru engar stórfréttir úr hans ráðuneyti, fjölgun lendingrstaða í millilandaflugi, jú Frosti afhendi skýrslun sína þessa einsmannsskýrslu, eða var það In defence skýrsla?  Ef til vill er Forsi að þýða hana á ylhýra móðurmálið?   Varla er hann að velta fyrir sér hvernig eigi að leysa kjaramálin, hann sagði um daginn að það ætti að hækka laun hinna láglaunuðu en hvað þýðir það?  Ekki er hann að velta fyrir sér langtímalausn að gera okkur samkeppnishæfa miðað við aðrar þjóðir í kringum okkur. Varla.  

Hann gæti sett upp starfshóp á Kvíabryggju með gömlum x B urum  til að skoða málin.  Of snjallt. Það er andinn að njóta stólanna meðan kostur er og hygla vinum, ættingjum og flokksfélögum. Fengið þriggja manna þingflokkinn til að koma með tillögur, allt leikur í höndum þeirra í augnablikinu.  Enn snjallara. 
Ekkert var gert um páskana, enginn vann í kerfinu nema Félagsdómur. Það er enginn andi enginn hugur.  Er á meðan er.  

þriðjudagur, 7. apríl 2015

Tileinkað MÞJ



Tantra
                                                         
 Fyrir daga Hamborgarabúllunnar
Smárabíós Hundraðogeins Hrunsins
Arabavorsins LadyGaGa Jónínu Ben Eirar

Önnur veröld aðrir hljómar aðrar  víddir
 Tónabíó Lídó Sælkerinn
Naustloftið  Bæjarbíó Hafnarfjarðarstrætó
Glaumbær  Tjarnarbúð Askur
Klúbburinn  Hótel Borg Hádegisbarinn
Alþýðubrauðgerðin (hugsaðu þér Alþýðu)
 Kjötbúðin Borg Ríkið á Lindargötu Ingasjoppa á
Bústaðavegi Sprúttið í leigubíl á góðum dekkjum

Tónlist gleymskunnar eyrnakonfekt  hughrif
Esjugarrinn tætist í gegnum frakkann lakkskórnir engin vörn
hretinu, strætóarnir löngu hættir að ganga
göngutúrarnir frostbítandi  og máninn glottir
sem aldrei fyrr eldrauður af vímu
og  greddu

 Stjörnubíó Skalli Geitháls
(ekki má gleyma honum)
Vesturver  Bókabúð Braga
Faco Hlégarður  Tröð KRON
Þórsmörk  Húsafell
Trúbrot Óðmenn Rúnar
á kaðlinum  Diddi spilar á
haustrommu blús feitur safaríkur
Maggi  Finnur  Rikki Óli
(munið þið Rikka?)
Guðmundur Ingólfs og Forseti
Alþingis  á efri hæðinni verðandi Forseti
Íslands á næturklúbbi við Grensásveg 

Tónaskali hins liðna
svo litfagur  glitfagur
jakki sem flýgur í sveiflu
nælonskyrta sem límist
við skrokk pils upp á
miðju læri  sveifla í
mjöðmum  miðstöð lífsins
miðstöð girndar  endastöð
fullnægingar


Síld og fiskur  Togaraafgreiðslan
Ólabúð  Stúdentakjallarinn
(stundaðar lyftingar)
Tjarnargata 20  Eimskip

Búrfell  Grammið (þvílík ósvífni)
Neil Young  Van Dyke Parks (hvur er það)
Lennon og Dylan Barrett og Hendrix,
hljómar sem tæta grip sem trylla  
Kinks í Austurbæjarbíó Lindon Kwesi
Johnson í Sigtúni  Megas í Tjarnarbíó
Patti í NASA NASA NASA NASA
Djazz Coltrane  Miles  Mingus Monk  Dolphy
Djuke Satchmo  Ella Billie í himnaríki
stjörnurnar færast nær og nær
augun splundrast í milljón geisla

 Tónatíð  tónalíf  tónastríð
tónaveröld  tónadraumar
skapaðu þinn eigin tónalista
syngdu hann í leikskólanum
syngdu hann í baði  syngdu hann
á Esjugöngu syngdu hann á Austurvelli
syngdu hann í handjárnum syngdu hann
á Bessastöðum  syngdu hann í Þjóðarbókhlöðunni.

 Þeir geta breytt nútíðinni
Þeir geta rústað framtíðinni
Þeir breyta ekki fortíðinni
 Okkar


mánudagur, 6. apríl 2015

Birgitta: Að dúlla eða kjúlla .....

Fréttin pólitíska um Páskana, flokkurinn sem margir ætla að kjósa, samt er það flokkur sem tekur ekki afstöðu.  Sjóræningjar án Sjóræningjaskips, fjársjóðs, tréplanka. Johnny Depp án
Keith Richard.  John Silver án Páfagauks. 

Ástæðan :  Sögð vera að þeir geti ekki kynnt sér allt, sitja ekki í  öllum nefndum, allt svo sem satt og rétt. Það væri hægt að fá fleiri félaga til að lesa yfir og kynna sér málin.  Eða eru þeir kannski ekki til, sérfræðingar í ákveðnum málum í flokknum?  Þetta er ekki nógu gott Birgíta, eða var það Byrgíta, eða Birgýta. Það getur verið hættulegt að dúlla við Davíð, margir hafa breyst í kjúlla við það. 

„Það er kominn tími á að breyta þessum vinnubrögðum en það er ekki eitthvað sem við getum gert nema með upplýstari almenning um það hvernig hlutirnir ganga fyrir sig og nú höfum við Morgunblaðinu til að þakka að hafa vakið athygli á vinnubrögðum okkar sem síðan hefur orðið tækifæri fyrir okkur til að kynna fyrir ykkur hvernig þingið virkar í raun og veru,“ skrifar Birgitta. „Takk Davíð Oddson, þú ert dúlla.“

laugardagur, 4. apríl 2015

Uppistandarinn Sigmundur Davíð

Uppistandarinn Sigmundur Davíð birtist í fjölmiðlum og setur allt á endann. 
Það er ekki bara eitt, nei það er spítali sem búið er að undirbúa í 20 ár á allt í einu að færs sig á milli hverfa.  Númer tvö byggja á nýtt vinnuhúsnæði Alþingis eftir gamalli teikningu Guðjóns
Samúelssonar þess góða drengs.   Ætli hann bylti sér ekki í gröfinni, hann fylgist eflaust með vinnubrögðum arkitekta (ansi misgóð) og Forsætisráðherra (aldrei annað en hörmung). 

Hvernig á nýtt sjúkrahús að komast fyrir á þessum útvarpsbletti?   
Hvernig á hús Guðjóns að rúmast í Miðbænum?  
Er einhver möguleiki á áframhaldandi stuðleikfimi Sigmundar Davíðs í Stjórnarráðshúsinu. 

Það virðist ganga vel hjá ríkisstjórninni, nema hvað, Framsóknarmenn stunda gleðipopp, lofa hærri launum, betra lífi og minni sköttum.  Frosti fer í nefnd á vegum SDG hrekur hina nefndarmennina í burt og skila eigin áliti, á ensku.  Svo sérfræðingar landsins skilji hann. 

Á meðan notar Sjálfstæðisflokkurinn tækifærið og eykur einkavinavæðingu í bönkum og fyrirtækjum, og breiðir betur úr sér í ríkisbákninu, allir dómarar og Seðlabankamenn í xD. 

En áfram streyma Elliðaárnar, kanínurnar leika um völl, og  Birgir Ármannsson og Sigríður Andersen taka sér stöðu við hlið Vigdísar Hauksdóttur og kó. Skyldi Uppistandaranum ekki leiðast að láta hlæja að sér?


fimmtudagur, 2. apríl 2015

1. apríl veröld Sigmundar Davíðs og Bjarna

1. apríl alla daga ársins.  Þannig upplifa margir, þar á meðal ég, íslensku veröldina um þessar mundir.  Fyrirsagnir fjölmiðla í gær voru þannig, allar á einn veg. Við lifum í gabbveröld, kvabbveröld. Lífið er nú þannig svo allt lífð okkar speglar það. Við eigum forsætisráðherra sem er orðinn helsti uppistandari landsins, formann fjárlaganefndar sem notar
handrukkunaraðferðina við fund á háskólakennurum, fjármálaráðherra sem úthlutar eignum ríkisins til ættingja og allir horfa á og segja jahá. Þingmenn sem vilja skammta aðgang að viðtölum við sér með lagasetningu.  Alltaf kemur eitthvað nýtt á hverjum degi alltaf kemur það manni á óvart. Ríkisstjórn sem gerir flest gegn vilja þjóðarinnar. Og heldur ótrauð áfram. Ætli tilbeiðsluhúsið verði ekki fyrir unnendur ríkisstjórnarinnar.  Þeir komast allir fyrir í þvísa húsi.   

Útilokar ekki Hringbraut en segir lausnamiðað fólk hljóta að skoða alla möguleika

Segir kenningu Frosta hafa verið hafnað fyrir átta áratugum

 Nýtt Alþingishús eftir teikningu Guðjóns Samúelssonar

„Fortíðinni sýnd virðing og draumar fyrri kynslóðar uppfylltir í þágu framtíðarkynslóða“

 Æskulýðsrannsóknir án útboðs

Forsætisráðherra vill þjóðarsátt

 Fórnuðu úlfalda og gefa kjötið

 Ísland stofnaðili að banka í Asíu

Að koma sér í úlfakreppu
Stærstu mál ríkisstjórnarinnar eftir áramót eru lögð fram í kapphlaupi við tímann. Ljóst er að fram undan eru átakavikur á Alþingi. Strax farið að ræða um sumarþing. Ríkisstjórnin náði ekki að afgreiða frumvö

Gagn­rýnt að skýrsla sé á ensku

 Til­beiðslu­hús á Nón­hæð

miðvikudagur, 1. apríl 2015

Fjalla Eyvindur og Halla : Meðmæli

Sáum aðra sýningu á þessari nýju útgáfu af þessu erfiða sígilda verki. 
Þetta verk sem í augum okkar setti Jóhann Sigurjónsson inn meðal hinna stóru Norðurlandaskálda leikritunararinnar, en er öllum gleymt nema okkur, Eyjaskeggjunum í norðri. 
Ég sá þetta stykki fyrir tæpum 50 árum í Iðnó með Helgu Bachman og Helga Skúlasyni. Í minningunni var það dimmt og drungalegt.  Enda verk Jóhanns það að mörgu leyti.Útilegurómantík með dapurlegum endi. 

Leikstjórinn og handritsútsetjari, Stefan Metz, hefur farið aðra leið, í fyrrihlutanum er brugðið upp skemmtilegri og spennandi sveitalífsmynd. Spurningin er hvort upp komist um Kára, strokufangann í dulargervi, sem á í ástarævintýri með húsmóður sinni, sem hefur framast við giftingu upp á við, og öðlast sjálfstæði með því að verða ekkja.  Kona með bein í nefinu.  Ást þeirra verður heit og æsandi. Umhverfis þau er allt hið hefðbundna sveitafólk íslenskrar sveitar. Hreppstjórinn, sýslumaðurinn, vinnukonur og menn.  Öllu lýst eins og því hafi aldrei verið lýst áður. Baðstofulíf, réttir, glíma, leitir.   Sakleysi og hreinleiki. En auðvitað eru skuggar sem koma æ meira í ljós.  

Það sem lyftir þessari sýningu eru hinir prýðilegu leikarar, Steinn Ármann var yfirstéttalegur sem Hreppstjórinn, dýrlegur í glímuatriðinu.  Pálmi Gestsson átti yndislegt atriði sem sögumaður.  Og parið, Nína Dögg og Stefán Hallur voru flott, við hlið þeirra var Siggi Sigurjóns, maður gleymir því oft í ímynd hans sem grínara, hversu glimrandi leikari hann er, sem hann sýnir í atriðinu með Nínu Dögg í seinni hlutanum.  Hið einfalda umhverfi með ísklettinn í baksýn skapar stemmninguna og hljóðmyndir og úrvinnsla hins einfalda stefs Elvars Geirs auka við andrúmsloftið sem verður æ dimmara. 

Að mínu mati tókst að gera þetta verk nærtækara manni með léttleika í upphafi sem gengur svo yfir í hin óhjákvæmilegu endalok. Það væri gaman að sjá verkin sem hafa ekki sést frá því á fyrrihluta seinustu aldar.  Ég hef séð Galdra-Loft, önnur aldrei.

Ég mæli með þessari sýningu.  Hún er betri en launaðir gagnrýnendur fjölmiðla hafa sagt.