sunnudagur, 29. nóvember 2015

Tvennir tónleikar, tveir klarinettuleikarar. Dásemd











Ég talaði um daginn hvað það væri margt sem boðið væri upp á í listum hjá okkur, hvort sem er í Reykjavík eða út um landsbyggðina. 

Í vikunni var okkur boðið upp á tvo öndvegistónleika.  Og á báðum tónleikunum voru tveir klarinettuleikarar sem létu hljóðfæri  sitt óma.  Það voru þau Einar Jóhannesson og Arngunnur Árnadóttir, þau eru meistarar bæði.

Á sunnudaginn var, hélt Kammermúsikklúbburin seinustu tónleika sína á árinu. Þar var boðið upp á góðan kokkteil, Beethoven, Brahms og óþekkta enska konu, óþekkta í mínum eyrum, Rebekka Clarke.

 Ásdís Valdimarsdóttir víóla, besti víóluleikari okkar, og Einar fluttu verk eftir hana sem hljómaði yndislega í mín eyru.  Þetta var 20. aldar kona sem var flottur spilari og samdi tónlist með sem er að koma nú fram í sviðsljósið á 21. öld, það var oft erfitt að vera kona í tónlistinni.

Svo fengum við að heyra einn af kvartettum Beethovens ópus 18 en hann samdi nokkra kvartetta í þessum ópus. Hann var flottur, svo kom rúsínan í pylsuendanum klarinettukvintett Brahms.  Þar fékk Einar Jóhannessson að sýna af hverju hann hefur verið konungur klarinettunnar á Íslandi í nokkra áratugi.  Og hinir spilararnir voru engir aukvisar.  Þetta var yndisleg tónlist.Svona tónar fá mig til að tárast. 

Seinna í vikunni var svo Sinfonían með tónleika undir stjórn hins unga Daníels Bjarnasonar sem er að verða afbragðs stjórnandi.  Þar voru spiluð tvö Debussy verk, fyrst Síðdegi skógarpúkans þar sem reynir aldeilis á klarinettu og nú er kominn nýr aðalleikari í sinfoníuna í stað Einars, Arngunnur og hún er mögnuð, spilaði Mozartkonsertinn fræga nýlega.  Tónleikarnir enduðu á La valze, verki Debussys, aldrei hefur það  hljómað flottar í mín eyru í túlkun hljómsveitarinnar og Daníels.  

Á milli fengum við að heyra Ligeti, Lontano eitt af hljómsveitarverkum hans, mér finnst alltaf merkilegt að hlusta á verk hans.  Kindentotenlieder Mahlers, eittt magnaðasta söngvaverki sögunnar og Ólafur Kjartan, sonur hans Didda fiðlu, hljómaði eins og sá sem valdið hefur.  Þótt hann ætti að vera með pest.  Svo var verk hljómsveitarstjórans, Collider í fyrsta sinn á Íslandi.  Hljómaði vel í fyrsta sinn.  

Svo lesendur góðir, tveir afbragðskonsertar á viku.  Er nokkuð hægt að ætlast til meira. Svo var það Sókrates í Borgarleikhúsinu í kvöld. Góð sýning trúða heimspeki og söngva.  Mæli með henni.

Í Íslandi er allt fullt af list og gleði.  Skálum fyrir því.  


Rebecca Clarke:   Prelude, allegro and pastorale f. víólu og klarínettu
Ludwig van Beethoven:   Strengjakvartett  í G-dúr op.18-2

Johannes Brahms:   Kvintett f. klarínettu og strengjakvartett í a-moll op.115
 Flytjendur:   Nicola Lolli, fiðla; Mark Reedman, fiðla; Ásdís Valdimarsdóttir, víóla;  Sigurgeir Agnarsson, selló; Einar Jóhannesson, klarínetta

  • Efnisskrá
    Claude Debussy
    Forleikur að Síðdegi skógarpúkans
    György Ligeti
    Lontano
    Daníel Bjarnason
    Collider
    Gustav Mahler
    Kindertotenlieder
    Claude Debussy
    La mer
  • Stjórnandi
    Daníel Bjarnason
  • Einsöngvari
    Ólafur Kjartan Sigurðarson