laugardagur, 25. maí 2013

Matrixþjóðin: Sorg og silfurglýja

Og þau fengu það sem þau vildu,þessi volaða þjóð.  Ár þar sem virkjanirnar glömpuðu í sólskininu.  Og fólkið horfði á þessi undur.  Verksmiðjur sem virtust endalausar, það var haldin hlaupakeppni einu sinni á ári þar sem allir starfsmenn gátu sýnt getu sína og öðlast frama og frægð innan þessa fyrirtækis.   Valdamenn sem gengu um í svörtum jakkafötum og hvítum skyrtum með Matrix sólgleraugu.  Ein og ein kona reyndi að keppa við þá í svartri drakt og hvítri blúndublússu en sú barátta var vonlaus.  Þeir fóru bara með þýskar endursagnir og konan huldist svörtu Helguvíkurgrjóti.  

Já, þessi þjóð,mín þjóð, hún fékk það sem hún vildi.  Valdamenninir glottu, enginn sá hörðu augun undir sólgleraugunum, og lækkuðu skattana og hækkuðu ellílífeyrinn og lífið var dásamlegt sem aldrei fyrr. Allir töldu silfrið og keyptu hlutabréf í Hamingjusjóðnum. En smátt og smátt hvarf allt sjónum.  Fjöllin, bláblómabreiðurnar, mosadyngjurnar sáust ekki. Árnar streymdu um brúnar og gruggugar og fiskar flutu á land og tóku seinasta andvarpið. Landið var hulið sorg og silfurglýju, enginn kom sér lengur til fjalla og allir sungu La Complainte de Mackie. Aðsóknin í Héraðsskólana var sem aldrei fyrr, nemendur sátu hljóðir með spjaldtölvurnar þar sem ræður valdamannanna voru endurteknar aftur og aftur. Og ferðafólkið kom á risaskipum og fylgdist með í sjónaukum hvað gerðist og undraðist. 

 

fimmtudagur, 23. maí 2013

Fyrsti dagur Gullstrandarstjórnarinnar


Fimmtudagur: Vorrigning, ljúf og mild. Á fyrsta degi nýrrar stjórnar, stjórnar sem ætlar að gera margt en veit ekki hvaðan peningar eiga að koma. Þess vegna endalausar nefndir ansi margt óljóst ...... En við vonum að ekki rúlli allt til andsk. En við andstæðingar munum stunda andstöðu gegn umhverfisfjendum sem ætla að rúlla umhverfisráðneyti ofan í skurð ..... Það verður fróðlegt að fylgjast með hlutskipti láglaunafólks næstu árin. Sérstaklega þegar lækka á skatta sem þýða yfirleitt lækkun hátekjuskatta eða auknar álögur í gjöldum á hinn almenna þegn.


þriðjudagur, 21. maí 2013

Gleðjumst

Það er að sumra.  Lífið er ekki svo ömurlegt.
Við hjónin eyddum 11 dögum í að sjá um barnabörn meðan foreldrarnir stunduðu vinnu í útlöndum. Fluttum í 101 það var ævintýraleg. Samt höfðum við ekki tíma til að fara á krá.  Fengum okkur einu sinni skyndibita ágætan.  Svo var það bara að sjá um mat fyrir unga fólkið og koma þeirri yngstu í skólann.  Hlusta á tónlistaræfingar og unglinga að skemmta sér.  Fórum á sinfoníu á fimmtudag. Dásamlegt.  
 
Það var skemmtilegt en lýjandi.  Okkur þykir vænt um börnin þetta eru svo fínir krakkar, en við erum að eldast. Stundum erum við þreytt.  En við erum líka dugleg.   

Við borðuðum hollan mat í kvöld með ættingjum okkar. Grænmetisrétt a la BG með perum og mygluðum osti. Og eitthvað gott með, rauðvín.   


Lífið er ekki svo ........