föstudagur, 6. júní 2014

Björt framtíð? Allt er betra en Íhaldið.

Spurningin er :  Er Björt Framtíð björt framtíð?  Ber hún nafnið með rentu?   Og vaxtavöxtum?  Ég veit það ekki, mér þótti svolítið bjart yfir flokknum til að byrja með öðru vísi nálgun á átökum stjórnmálanna. En líklega eru hveitibrauðsdagarnir liðnir.  Svona lýsti ég BF fyrr í vor:  

BF er í stíl og hugsunum ekkert svo frábrugðinn frjálslyndum vinstri mönnum í öðrum flokkum, í mínum augum er hann hentugur auglýsingastofuflokkur, myndarlegt fólk, miðaldra, 30-50 ára, svolítið töff, vilja vera jákvæð, ekki í þrasinu eins og gamla liðið, sem margir af þeim hafa að vísu
starfað með og eru vinir og kunningjar. Þó sýnist mér vera mikið af fólki sem hefur ekki komið nálægt pólitík áður.  En í Reykjavík er BF auðvitað arftaki Besta Flokksins svo þar er kominn þekkingarbanki.  Að ákveðnu leyti eru það Guðmundur Steingrímsson og Jón Gnarr sem hafa mótað stíl og áherslur BF (með góðri hjálp Dags E.!!) 

og fulltrúar flokkanna sem fengu ekki að vera með í Hafnarfirði eru 
sárir:  

Var þjóðstjórn bara „show“?


Þetta er málið, þetta er hættan á fleiri og fleiri flokkum.  Hverjir fá að vera með og hverjir ekki.  Og samkvæmt skilgreiningu BF eru þeir svo sjálfsagt fórnarlamb til aðláta xD spila með sig.  Lítil reynsla nema í Reykjavík.  Orð oddvita þeirra í Hafnarfirði um allir með, voru týpískur nýpólitískur frasi.  OG  xD beið á meðan fyrir utan hurðina.Með glott á vör, sigurglampa í augum.  Því þeir vilja ekki vera með í svona.  Hlutverk þeirra er að ríkja stjórna, útdeila gæðum til hinna útvöldu. Völda þeirra heita Peningar Aurar Hlutabréf Ágóði.   

Svo BF er leiksoppur xD, þeir geta ekki farið með hinum, hinir eru kaós.  Reykjavík var bara undantekning og heppni af því að Jón
Gnarr var á staðnum með marga vini sína sem höfðu starfað saman í listum.  Það verður svolítið skrýtið í næstu alþingiskosningum ef sama munstrið birtist.  xB og BF eru ljúfir fyrir xD að renna niður. Deila og drottna.  Þetta fólk hefur aldrei heyrt orðtakið:  Allt er betra en íhaldið.  Ó nei.  

miðvikudagur, 4. júní 2014

Trúðarnir tveir fara í veiðiferð


Boðið í veisluna, ætla að vera í henni, þó ekki. Skrýtnir boðsgestir a tarna.......  

Alltaf gleðja þeir okkur les deus clownes...........  Jóhanna tekur þá í nefið og þeir koma sem gubb út um munninn á henni.  Veltast um í klósettskálinni þangað til þeim er sturtað niður. Þessir meistarar siðfræðinnar.   Ástmegir orðhengilsháttar.  Grínarar ómarktækni.

Þeim var boðið að veiða en ætla bara að opna sjówið........... taka nokkra kollhnísa og brettur, veiðimönnum og löxum til ómældrar gleði .......

Svo kemur Jón Gnarr 
og gerir narr 




þriðjudagur, 3. júní 2014

Eftir kosningar: Hvað er heim, spurði ég?

Allir eru eitthvað dömm eftir kosningar helgina.  Það er eins og fólk hafi búist við einhverju öðru.  Við erum búin að gleyma því hversu Íslendingar eru íhaldssöm þjóð og púkó upp til hópa. Þegar eitthvað skemmtilegt og ótrúlegt gerist eins og valdatíð Jóns Gnarr sýndi þá höldum við að við lifum nýja tíma. Nei lesendur góðir næstu daga á eftir er allt þetta gamla skriðið upp úr ræsinu.

Davíð prumpar yfir landsmenn
Jón Bjarnason skrifar umESB á miðsíðu Moggans (hvar annars staðar)!?
Ármann bæjarstjóri rekur hníf í bak Birkis, ef það er pláss fyrir fleiri.
Hér á Stykkishólmi er kommbakk Sturlu allir eru glaðir en það eru nú aðallega útlendingar sem maður sér, túrismatíðin er byrjuð. Það skrjáfar í seðlum.
Lásuð þið rasistagreinina eftir norðlensku konuna í Mogganum í dag? Farðu heim sagði hún við íslenska manninn. Hvar er heim, spurði ég.

Já lesendur við erum dömm. Það setur að okkur óhug.  Allt er við það sama. Eða hvað?




föstudagur, 30. maí 2014

Latibær hverfur úrlandi og sveitirnar tæmast..

Það er sorglegt að missa jafnstórt fyrirtæki og Latabæ úr landi.  En svona er fyrirtækjarekstur, fyrirtækin seld erlendum samsteypum og þá er það þeirra að ákveða stað fyrir starfsemina.  Ég minni í þessu sambandi á deCode sem auðvitað er þrælútlent fyrirtæki þótt talað sé um annað hérlendis.  

Latibær er um leið dæmi um hvað hugmyndaríkir einstaklingar geta komið til leiðar, og Magnús Scheving er ansi lunkinn í því, það var gaman og líf í tuskunum þegar hann kom að Húnavöllum og fékk nemendurna hvern einasta að taka með sér heilsuhreyfingrprógram.  Hann vissi hvað hann var að gera í samskiptum við ungt fólk.  

En það er sorglegt að sjá tugi ef ekki hundruðir tæknimanna missa vinnuna sína.  Eflaust fara einhverjir með til útlanda og við getum misst þá fyrir fullt og allt.  Þarna eru gríðarlega útsjónarsamir tæknimenn eins og þættirnir bera vott um.  Svona er alþjóðaheimur tæknivinnu, fólk leitar þangað sem vinnan er.  Þetta sjáum við í öðrum atvinnugreinum, nú seinast í fiskiðnaðinum hjá okkur.  Spurningin um að flytja heilt þorp með störfunum. 

Við höfum séð svona kraftaverk eins og Latabæ líka gerast í tölvuiðnaðinum.  Seinast Quizup, sem er bráðskemmtilegur spurningaleikur fyrir fólk á öllum aldri.  Ég skora á eldra fólk sem á Ipad að prófa leikinn!!!   Maður er aldrei of ungur til að leika sér!!!.  

Við eigum eflaust eftir að sjá fleiri svona listskemmtiþætti og iðnað á Íslandi.  En maður verður samt sorgbitinn yfir hverfulleika atvinnulífsins.  Þar sem rótleysi og farandvinna eru einkennin.  Ég sé æ oftar íslensk nöfn birtast í tæknigerðarlistum á sjónvarps- og kvikmyndastörfum í lok myndanna.  

Já lesandi góður:  Skáldið sagði

Reikult er rótlaust þangið,
rekst það um víðan sjá.
Straumar og votir vindar
velkja því til og frá.

Fuglar flugu yfir hafið

 með fögnuði og vængjagný,
- hurfu út í himinblámann
hratt eins og vindlétt ský.

Þangið, sem horfði á hópinn,
var hnipið allan þann dag.
Bylgjan, sem bar það uppi,
var blóðug um sólarlag.



                                                       

 Mikið er þetta fallegt ljóð.  Vonandi fáum við ekki endalausa tóma bæi, hverfi og þorp í framtíðinni.  Vonandi koma fram hugmyndir og hugmyndafræðingar sem bjóða fólki upp á eitthvað annað.  En það eru ekki bara útlendingar sem tæma sveitirnar af fólki við bústörf.  Það eru líka íslenskir auðmenn og yfirstétt.  Ég var í Fljótshlíðinni seinustu helgi þar var mér sagt að hefðu verið 64 mjólkurbú fyrir 50 árum nú eru þau 4.  Það eru ríkir Reykvíkingar sem hreiðra um sig á jörðum sveitarinnar.  Í héraði sem gæti verið eitt af ríkustu mjólkurframleiðsluhéruðum landsins.  

Einhvers staðar handan við hafið eru landar okkar hnípnir,  það er eitthvað til sem heitir ættjarðarást.  Það er til söknuður sem nær að innstu hjartarótum.  Það eru margir sem vildu vera annars staðar.  Íslendingar í útlöndum og nýbúar á Íslandi.  Þannig er heimurinn í dag. 

Ég óska svo lesendum mínum góðrar kosningahelgar.  Og umfram allt kjósið rétt.  

Í október síðastliðnum lauk tökum á seinni þáttaröðinni og hvarf þá meirihluti þeirra 160 verktaka sem störfuðu við framleiðsluna til annarra verkefna en 40 unnu við eftirvinnsluna og luku störfum í apríl síðastliðnum. Hér á landi verður 20 ára afmælissýning Latabæjar í Þjóðleikhúsinu en hátt í 70 manns munu starfa að uppsetningunni.

fimmtudagur, 29. maí 2014

Uppstigning: Heimska í hæstu hæðum

Nú er komið í ljós, frá hinum rekna 2. manni á lista xB, að Moskubröltið var skipulagt úr innsta kjarna
flokksins. Þar ríkir ekki virðing fyrir stjórnaskrá né mannréttindum.  Við sem höfum bent á það seinasta árið að xB sé að breytast í öfgahægriflokk virðumst hafa rétt fyrir okkur.  Ansi eru það sorgleg örlög flokksins.  Hann afi minn sem elskaði Jónas frá Hriflu meira en nokkuð annað hefði nú ekki orðið glaður.  

Hér segir frá frásögn Guðrúnar Bryndísar í Kvennablaðinu: 

Lengi hefur staðið til að fulltrúar Framsóknarflokksins sem kæmust í borgarstjórn beittu sér gegn byggingu mosku í Reykjavík, ef marka má orð Guðrúnar Bryndísar Karlsdóttur. Guðrún skipaði fyrr á árinu annað sæti á framboðslista Framsóknarflokksins í borginni en í pistli sem hún birti á vefsíðu Kvennablaðsins lýsir hún upplifun sinni af starfi innan flokksins.

Lýsing hennar á samskiptum við aðra flokksfélaga er óneitanlega áhugaverð en hún segir meðal annars að brýnt hafi verið fyrir henni að verkefni borgarfulltrúa flokksins ætti að vera að koma í veg fyrir að moska risi í Reykjavík. Þetta bendir til þess að nýleg ummæli oddvita flokksins um að afturkalla eigi lóð til múslima séu ekki eins tilfallandi og gefið hefur verið til kynna opinberlega.

Þá vekur hún athygli á því að Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir hafi gengt mikilvægum störfum innan flokksins og setur spurningarmerki við það hvernig frambjóðendur voru valdir á lista eftir að Sveinbjörg var valin oddviti.

Guðrún Bryndís Karlsdóttir skipaði annað sæti á framboðslista Framsóknarflokksins í Reykjavík fyrr á þessu ári. Röð atburðarása leiddu til þess að hún datt út af listanum. Óskar Bergsson, fyrrum oddviti Framsóknar, steig til hliðar og að lokum var ákveðið að Sveinbjörg Birna myndi skipa efsta sæti Lista Framsóknar og flugvallarvina í Reykjavík.

„Ég kveð hér með Framsóknarflokkinn með virktum og tek ekki sæti á lista hans, enda hefur þess ekki verið óskað,“ sagði Guðrún Bryndís í pistli sem birtist þann 29. apríl.

Frædd um kristin gildi flokksins

Í nýju greininni segir Guðrún meðal annars frá því hvernig Benedikt Þór Gústafsson, þáverandi formaður kjörnefndar flokksins, á að hafa kallað hana á sinn fund í kjölfar þess að hún tilkynnti fjölmiðlum um afstöðu sinnar til trúmála og það hún væri ekki fermd. Tilgangur fundsins á að hafa verið sá að fræða Guðrúnu „um kristin gildi flokksins og að verkefni þeirra sem kæmust í borgarstjórn væri að koma í veg fyrir að moska risi í Reykjavík.“

Hún skrifar:
Ástæðurnar sem Benedikt tíundaði voru m.a. að Ísland væri eitt þeirra landa sem væri nokkurn veginn laust við íslam, stærð safnaðarins réttlæti ekki bygginguna og að áformin um byggingu hefðu þann tilgang einan að fjölga áhangendum íslam.

Fleira fræddi Benedikt mig um, svo sem það að fjármögnun byggingarinnar kæmi frá olíugróða ríkra múslima sem hefðu byggt moskur í nágrannaríkjunum og að reynslan þar hefði skilað sér í mikilli fjölgun múslima sem væru nú að taka völdin. Félagslegu áhrifin væru hverfi múslima sem þægju styrki frá skattgreiðendum, þar sem lög landsins næðu ekki yfir slíkt. Brátt myndu ganga í gildi sharialög þar sem refsingin væri að hendur væru höggnar af fólki og það grýtt.Leit að fólki með rétta hugarfariðGuðrún segir einnig að henni þyki óvenjulegt að ekki hafi verið auglýst eftir fólki í framboð eftir að tekið var til á framboðslistanum eftir afsögn Óskars. Heldur hafi Sveinbjörg haft samband við hana og beðið um hjálp við að finna sex konur í efstu sæti listans gegn því að barist yrði fyrir því að Guðrún héldi sæti sínu.

Kannski var það vegna þess að það þurfti að finna fólk með rétta hugarfarið?Er ekki auglýst eftir frambjóðendum hjá stjórnmálaflokkum? Er vaninn að flokksforysta og þingmenn leiti með logandi ljósi að einstaklingum sem eru tilbúnir að leggja nafn sitt og heiður að veði til að flytja boðskapinn burtséð frá vilja margra innan flokksins?Flugvöllurinn og útrýmingarbúðir
Frásögn Bryndísar af samskiptum sínum við Ólaf F. Magnússon, fyrrverandi borgarstjóra Reykjavíkur, vekja einnig athygli en hún skrifar:

Þegar Óskar Bergsson var horfinn af vettvangi hófust undarleg samskipti milli mín og Ólafs F. Magnússonar. Hann kenndi mér lausnina á því hvernig mætti ná manni inn – galdurinn væri að vera með einsmálsstefnu sem væri FLUGVÖLLURINN!Flugvöllurinn hefur aðdráttarafl og út á hann hafði Ólafur sjálfur fengið um 10% atkvæða með stuðningi hagsmunahóps flugvallarins.Ólafur F. skrifaði langar stuðningsyfirlýsingar við mig á Facebook og dásamaði konu í oddvitasæti – því það er svo góð söluvara. Það sem var öllu furðulegra var að í hita leiksins læddust með athugasemdir hans um að útrýmingarbúðir gyðinga væru sögufölsun. (feitletrun mín)


Og ungi maðurinn Benedikt  svarar fyrir sig: 


Ég harma yfirlýsingu Guðrúnar Bryndísar sem birtist í Kvennablaðinu þann 28. maí sl. þar sem hún er ósönn. Eini tveggja manna fundur okkar átti sér stað þegar mér var falið að fara yfir þá stöðu sem komin var upp eftir að Óskar Bergson hafði stigið til hliðar vegna stöðu framboðsins í skoðanakönnunum og að vænta mætti uppstokkunar á framboðslistanum. Ég tek það fram að ég hef aldrei verið formaður né varaformaður kjörstjórnar eins og haldið er fram.

Ég hef ekki stutt þann málflutning sem nú er viðhafður um afturköllun lóðar múslima eða annara trúfélaga hér á landi. Þvert á móti hef ég andmælt þessum málflutningi við félaga okkar innan Framsóknarflokksins. Ég hafði samband við þingflokksformann Framsóknarflokksins og tók undir hennar sjónarmið auk þess sem ég lýsti andstöðu minni við aðra framámenn flokksins. Ég er kristinn maður og harma þá umræðu sem hefur skapast um fordóma gagnvart öðrum trúarbrögðum. Sú umræða á ekkert skylt við stefnu Framsóknarflokksins.

Blaðamaður Morgunblaðsins átti við mig samtal um daginn og spurði mig hvort fjallað hafi verið um málið í kosningastjórn eða hvort stæði til að fjalla um það. Ég kvað svo ekki vera, né hafi málið ekki verið sett á dagskrá sannleikanum samkvæmt. Eftir á að hyggja hefði ég átt að gera blaðamanninum skýra grein fyrir minni afstöðu og lýsa andúð minni á allri mismunun og fordómum í garð mismunandi trúfélaga. Ég sé mjög mikið eftir því nú að hafa ekki gert það en á þeim tíma taldi ég að mínar prívat skoðanir ættu enga aðkomu að málinu.
Já lesendur góðir það hefur orðið uppstigning í Framsókn  til heimsku í hæstu hæðum.  Það er sorglegt.  


SDG: Svo stjórnmálamenn eiga skilið að komast langt

Enn einu sinni sanna Framsóknarmenn hversu öflugir þeir eru í Reykjavík.  Hinn öflugi foringi þeirr Sigmundur Davíð sá sér trúarlegan þátt á borði.  Fyrrir mörgum árum notuðu þeir
skákborðið hans Fischers, hvar er það núna.  Nú eru það Moskur.  Ég er viss um að xB fær 15%.  Þeir eiga það skilið klókindi og fléttur eru þeirra aðall.  Það er líka gott að fá nýtt afburða kvendi um borð í skútuna.  Svo segir Sigmundur á kosningakvöldi að hann sé fylgjandi stjórnarskránni. 

Svona stjórnmálamenn eiga skilið að komast langt og þjóðin á þá skilið.  Til hamingju Ísland, sagði hún.  Þið vitið hver. 


miðvikudagur, 28. maí 2014

Tvö bréf: Hvern ætlar þú að kjósa?

Kosningar nálgast, ansi daufar, þrátt fyrir mörg framboð.  En merkilegar um margt.  Ef fer sem horfir er xD búið að vera , í bili.  Algjör Hrunadans.  Það verða hreinsanir á eftir.  Munurinn á Reykjavík og nágrannabyggðum er ótrúlegur.Svipur fyrrum forystumanna frosinn og kaldur. Annar flokkur xB á erfitt með að ákveða hvort hann sé hægri öfgaflokkur eða ekki.  Ýmislegt skrítið kemur upp í nýjum flokkum eða framboðum.  Eðlilegt kannski út frá reynsluleysi og hraða sem þarf að koma saman framboði eða fá meðmælendur.  Mér finnst eðlilegt ef einhver brot verða að biðjast afsökunar, það er enginn minni maður af því.  Annars eru menn hrokadindlar sem kemur ekki til mála að styðja.  Segi ég. 

Við fáum sífellt fleiri og fleiri flokka og flokkslíki.  Margir telja það sýni lýðræði og stjórnmálaáhuga. Á sama tíma eru aðrir að segja að það sé enginn áhugi á stjórnmálum. Gott er að hafa marga valkosti. En þá vantar það sem á að fylgja slíku margflokka kerfi, betra kosningakerfi, þar sem maður getur valið fólk úr mörgum flokkum. Gott fólk er víða til og kominn er tími til að maður geti valið úr fleira en einum flokki.  Þá færi maður að skoða nánar það fólk sem er í framboði.  Ekki bara flokka, sem oft hafa misjafnt fólk.


Ég fékk bréf í gær.  Tvö bréf um kosningar og stuðning.  Halldór Halldórsson var annar.  Það er alltaf gaman og fróðlegt að lesa bréf frá flokki sem maður hefur aldrei kosið.  Flokki sem hefur aðrar grunnforsendur en ég.  Þar er lætt inn orðum og setningum sem eru á sinn hátt lævís:   

fólkið á að hafa val, það á að vera alúð, virðing, mannhelgi. 
hófsamar álögur eiga að fara saman við ráðdeild.
hjá andstæðingum eru hærri álögur og um leið lakari þjónusta.
andstæðingar láta líð hirðuleysi, órækt og veggjakrot!!!!  Þetta er ekki gott fólk.  Fólk sem framkvæmir gæluverkefni.  Einu og það sé einhver synd að hafa sérstök verkefni til að leggja áherslu á.  
aftur kemur fólk á að hafa val, valfrelsi borgaranna. Allt á að geta verið framkvæmt fyrir lægri útsvar og skatta.
Stöðugleiki og öryggi.  Þetta allt hér að ofan hefur auðvitað ekki verið til staðar seinustu 4 árin.  Samt hefur kerfið starfað snurðulaust, óvenjulítið hefur verið um harða árekstra milli flokka og manna.  Samt er þetta tíminn eftir hrun!!!!!  Ég held að Halldór nái ekki til mín, því miður Halldór með kærri kveðju.  

Ég fékk líka bréf frá Vinstri Grænum sem undirritað er af þremur öndvegismanneskjum sem hafa lagt ýmislegt til okkar samfélags.  Bréfið er nú held ég, ekki skrifað af  þeim.  Þar eru stjórnmálin í Reykjavík sett í samhengi við landsmálapólitík.  Þarna ríkir hörð vinstri og umhverfisstefna og áhersla lögð á hvað Vinstri Græn vilja gera. Minnt á daður ríkisstjórnar við útgerð og hátekjumenn. Minnt á svikin loforð.  
Svo er það hvað VG vill í Reykjavík, barátta gegn fátækt, leikskólar og grunnskólar án gjaldtöku.  bættur hagur aldraðra og öryrkja.  Flokkurinn er umhverfis - og kvenfrelsishreyfing.  Vinstri grænum er óhætt að treysta!!!!  
Svo mörg voru þau orð, það eru margir aðrir flokkar sem eru á svipuðu róli.  Sem eru vinstri flokkar án þess að vera vinstri flokkar.  Og hafa marga góða einstaklinga.  Sem gagnrýndu á sínum tíma margt hjá vinstristjórninni sálugu.  Oft með réttu, en með tímanum hefur maður þó séð hversu miklu hún áorkaði við ótrúlega erfiðar aðstæður.  Svo líklega liggur leið mín með VG í ár.  Ég á erfitt að skilja forystufólk í VG sem ætlar að kjósa aðra flokka eða hvetur til þess í ár.  Mér finnst það sárt.  Það er ráðist á lista VG úr ýmsum áttum.  Kvenfrelsi er allt í einu voðalegt.   Skeleggar konur eru vafasamar.  En ég held að það yrði til góðs að fá VG í meirihluta í Reykjavík.  Þá væri haldinn vörður um málefni sem oft hverfa í pólítísku valdaþrugli.  

Svo lesendur góðir, niðurstaða mína af þessum skrifum er:   Breytum kosningakerfinu á næstunni, kjósum fólk/flokk sem við getum treyst.  Sendið HH samúðarkveðju.  Látið ekki kosningar setja allt á annan enda í heilabúinu.  Það koma kosningar eftir þessar (vonandi).  Standið vörð gegn hægriöfgaöflum.   Berjumst fyrir friði.  Lifum friðsamlega.  Látum náttúruna njóta vafans.  

Mynd: Sterk stoð í Laugardalnum (EÓ)