mánudagur, 31. október 2016

Blár: litur þjóðarinnar???

Er blár litur þjóðarinnar ? 
Kemur eitthvað annað til greina?
Haustrauður, steinrauður, blaðgrænn, grasgrænn?
Eigum við nokkuð að vera að rembast?
Eigum við ekki að láta þau um þetta, fólkið með peningana, sjóðina, úteyjareikningana?
Fólkið sem á okkur. 
Er ekki framundan fimbulvetur þar sem skaflarnir hylja voðaverk peningaaflanna, ætli baráttan gegn hávaxtastefnu verði ekki þá gleymd?  
Ætli spillingin verði ekki horfin út í hafsauga niður fyrir sjóndeildarhringinn? 
Allt einsog vera ber? 
Á Blámannalandi. 












Myndir: Greinarhöfundur

sunnudagur, 30. október 2016

30 prósent: Við eigum betra skilið

Heima tekið úr töskum, svo er kosið daginn eftir. Margir eru í losti, en ...við höfum ekki gert upp Hrunið, var það ekki Freki  karlinn sem seldi bréfin sín eftir að annar Frekur karl kom á fund í Alþingi og sagði frá slæmu útliti efnahags þjóðarinnar, kannski lentu þeir peningar á einhverri Tortólu, ég veit það ekki. Við eigum að hafa gleymt, öllu, og eigum að taka fagnandi á móti honum sem forsætisráðherra. Slátra lambinu. Lúta í auðmýkt.

En munum að 70 % hafa ekki fyrirgefið honum, enda hefur hann ekki viðurkennt neitt, kusu hann ekki, vilja ekki viðurkenna hann sem æðsta valdamanna þjóðarinnar. Andlit hans er ekki andlit okkar. Við eigum betur skilið. Flest erum við heiðarleg, sem betur fer.



Gleðigjafi dagsins: Mamma Megasar, sagði Egill Helgason  í Kiljunni.

föstudagur, 28. október 2016

Alls konar Tortóla: Spilling eða Jöfnuður.

Nýkominn til landsins eftir heila eilífð 11 daga í Berlín fyrir þessar mikilvægu kosningar,þá er merkilegt að sjá og heyra ummæli sumra frambjóðenda, sem útskýrir margt, sýnir í hnotskurn viðhorf til heimsins, þessi unga kona sem hefur orðið alræmd fyrir að spegla hugmyndaheim þar sem spilling er ekkert mál, allt er metið í krónum og auði og græðgi, hún er er dæmigerð fyrir kjósendur Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar sem velja sér spillingargossa til forystu. Samkvæmt könnunum hafa að vísu kjósendur xB refsað flokknum grimmilega en sama verður ekki sagt um xD. En spurningin er viljum við verða Spillingarþjóð áfram viljum við lifa þannig að maður skammast sín að vera Íslendingur, þar sem heilbrigðiskerfi, menntakerfi og velferð verða að lúta í lægra haldi fyrir auð hyggju, aldraðir, öryrkjar og ungt fólk verða fórnarlömb fátæktar. Atvinnurekendur og auðmenn dansa um landið í sæluvímu. Viljum við það.

Ég held að það sé nauðsyn­legt að stytta tím­ann sem við erum í skól­an­um. Við erum búin að stytta hann um eitt ár og ég held að við meg­um stytta hann um fleiri ár. Af því að heim­ur­inn er full­ur af fólki og pen­ing­um og alls kon­ar, en við eig­um ekk­ert nóg­an tíma. Og það er bæði gam­an að vera barn en það er líka gam­an að vera full­orðinn.



fimmtudagur, 27. október 2016

Yfirlýsingin: Byrjunin að sannri Velferðarstjórn

Var að líta yfir byrjunaryfirlýsingu formanna velferðarflokkanna.  Það sem er mögulegt það er að segja áður en kosningum er lokið og úrslitin  liggja ekki fyrir. Öll getum við andstæðingar sjálftökuliðs - og umbðsmanna auðhyggju fallist á þennan grunn. Engar yfirlýsingar gefnar út sem loka dyrum, engum hurðum skellt. Þannig verður náið og gott samstarf til. Við þörfnumst slíks til að fá sanna velferðarstjórn. 


er rétti tíminn til að ráðast í þau verk sem þjóðin kallar eftir, uppbyggingu innviða og skapa traustan og stöðugan grunn fyrir aukin lífsgæði. Það þarf nýja forgangsröðun og sýn á samfélagið. Til að varanlegur stöðugleiki komist á, verður að ástunda ábyrga efnahagsstjórn en jafnframt vinna að félagslegum stöðugleika. Að öðrum kosti næst ekki sátt í samfélaginu að loknum kosningum. Þörf er á betri vinnubrögðum sem byggjast á fagmennsku, samvinnu og gagnsæi. Vanda þarf til verka og innleiða kerfisbreytingar skref fyrir skref.

miðvikudagur, 26. október 2016

Umhverfið: Köttur út í mýri lepur olíu

Stærstu málin, sem erfitt er að ræða í æsikosningabaráttu. Hvað verður um afkomendur lokkar eftir 100 ár? Margt hefur þó breyst  og margt er viturlegra sagt en áður. Sumt ekki. SDG enn úti í túni austur á  Jökulsárhlíð. Seinasta verk núverandi stjórnar á að vera að brjóta landslög. Það er ekki í fyrsta sinn sem hann gerir það! XD er úti í mýri og spilar með reglurnar eins og venjulega, til að hampa hinum efnamestu sem eiga að auka eignir sínar um meira en 49 milljarða á næsta ári ef þeir fá að stjórna!

En spurningin er um framtíðina, hverjum treystum við best fyrir henni? Hver er umhverfisferill Bjarna Ben, Sigurðar Inga, Katrínar, Oddnýjar, Óttars, Birgittu, og kó? Spurningin og svarið er um traust á laugardaginn.


þriðjudagur, 25. október 2016

Spilling: Fram í bláan dauðann

Það er alltaf svo pínlegt þegar Sjálfstæðismenn ræða um spillingu og öfgaskoðanir, þar sem spillingagossar og andlýðræðissinnar þrífast sem aldrei fyrr, en eru samt orðnir örvæntingafullir á loka metrum, forystumenn gáfu 77 milljarða og reyndu að fela fram í bláan dauðann. Eina leiðin sem þeim hugkvæmdist er að koma í veg fyrir fréttaflutning, nota brögð fasista og einræðisherra. Allra bragða er beitt. Sveiattan!

Í umfjöllun Kastljóss í síðustu viku var greint frá vitnaskýrslu sem hefur að geyma nýjar vísbendingar um að Davíð og Geir hafi vitað fyrirfram að 77,5 milljarða lán Seðlabankans til Kaupþings myndi ekki fást endurgreitt. Sem kunnugt er tapaði ríkissjóður um 35 milljörðum á láninu. Þá var einnig greint frá því í Kastljósi að Sturla Pálsson, framkvæmdastjóri hjá Seðlabanka Íslands, hefði gengist við því að hafa brotið trúnað þegar hann upplýsti eiginkonu sína um aðgerðir Seðlabankans í aðdraganda setningar neyðarlaganna. (Stundin.is)

mánudagur, 24. október 2016

Kosningar: Það sem skiptir máli

Kvennafrídagurinn mikli í dag, kosningar nálgast, óró innra með mörgum, sumum sem eiga skilið hrun vegna spillingar og eigin hyggju, öðrum sem eru fórnarlömb fjölmiðlaóróa og vanhugsunar. 

Ég er í Berlín þar til daginn fyrir kosningar, ég sendi öllum róttæklingur hlýjar kveðjur. 
Hvet þá til að styðja friðar- og umhverfismál með því að styðja þá flokka sem bera fram slík mál. Ég á þó erfitt með að skilja þau öfl sem geta ekki gefið upp afstöðu til NATO, þrír flokkar sem ég er sammála í ýmsu. Ég á ennfremur erfitt með flokka sem styðja fjöldamorðin í Sýrlandi.

Það sem heimurinn þarfnast er friðarhugsun og barátta fyrir mannréttindum. Einnig á Íslandi. Við eigum að sinna þeim sem eiga erfitt hafa upplifað styrjaldir og hörmungar.
Þess vegna legg ég mitt litla fram með því að sitja í 20. Sæti á lista VG í Reykjavík norður. Margir eiga skilið betra líf og við getum öll komið því til leiðar. Stóra spurningin er um framtíð okkar á jörðinni. Líf barnanna okkar og afkomenda þeirra.