miðvikudagur, 29. maí 2013

Örlög Króatíu-Serbanna: Hver ber ábyrgð?

Ansi verður maður sorgmæddur stundum yfir heiminum, gjörðum mannanna.  Nú eru það örlög Serbanna í  Króatíu á Íslandi sem renna mér til rifja.  Sem við sendum til baka í einkaflugvél með heilu herliði lögreglumanna og sérfræðinga.  Þar sem kostnaður virðist ekki skipta neinu máli, allt í einu er til ofgnótt fjár hjá ríkisvaldinu.

Mér er sama hverjir standa að þessu, embættismenn eða stjórnmálamenn.  Hvernig sem upp er staðið er þetta mál þeim öllum til skammar.  Maður bjóst svo sem við ýmsu af embættismönnum Útlendingastofnunar, en að starfsmenn ráðuneytis og ráðherra skuli hafa tekið undir þetta á þessum tímapunkti er þeim til minnkunar.
Ég veit svo sem ekki af hverju þetta fólk var að koma hingað á þessum tímapunkti, það er svo margt sem maður veit ekki um önnur lönd og þjóðir og manneskjur.  En að senda fólkið heim tveimur mánuðum fyrir það að Króatíu verður fullur aðili að ESB og eiga með tímanum að njóta fullra réttinda í EES. Það hlýt ég að kalla hneyksli.

Einhvers staðar sá ég vitnað í að Ísland væri að gefa skilaboð um það að ekki væri tekið á móti þeim sem hefðu vafasamar forsendur ef þær eru til í Flóttamannaheiminum. Ég veit það ekki.   Ég hlustaði á ágætan þátt í Speglinum um samskipti Króata og Serba í kvöld.  Mér er það minnisstætt að ég dvaldist í Svíþjóð 1994 - 1995 þar voru fréttir dag eftir dag af þessum átökum þegar Króatar ráku Serba úr landi það voru endalausar myndir af bílaröð Serbneskra flóttamanna þar sem komið var fram við þá eins og skepnur.   Seinna bjó ég í Húnavatnssýslu þegar hópur flóttamanna var boðinn velkominn á Blönduósi, þetta var yndislegt fólk og bauð bæjarbúum einu sinni í veislu þar sem boðið var upp á Baltneskan veislumat. Þetta var sama fólkið og leitar nú til Íslands.   

Svo ég leyfi mér að gagnrýna meðferð íslenskra yfirvalda, það er öruggt að þetta fólk fær ekki góðar móttökur í Króatíu þar sem unnið er stöðugt að aðgreiningu þjóðanna.  Að senda fjölskyldur til baka sem hafa selt allar eigu sínar til að komast hingað sérstaklega er grimmdarlegt á þessum tímapunkti. Mannlegi þátturinn er lítils metinn.   

Utanríkisráðuneytið sendi út yfirýsingu í tilefni af þessu máli í dag

Samningaviðræður standa yfir um aðild Króatíu að EES-samningnum

29.5.2013
Að gefnu tilefni vill utanríkisráðuneytið upplýsa að samningaviðræður standa yfir um aðild Króatíu að EES-samningnum.
Króatía verður ekki sjálfkrafa aðili að EES-samningnum við aðild að ESB hinn 1. júlí nk., heldur þarf að semja um skilmála og skilyrði fyrir aðild að EES.
Af þessu leiðir að EES-samningurinn mun ekki gilda um króatíska ríkisborgara fyrr en viðræðum er lokið og samningur um aðild að EES hefur tekið gildi. Þetta þýðir einnig að réttindi Íslendinga skv. EES samningnum gilda ekki gagnvart Króatíu fyrr en að því loknu.
Þess skal og getið að gera má ráð fyrir að samningurinn muni, í líkingu við fyrri samninga af sama tagi, innihalda ákvæði um heimild íslenskra stjórnvalda til að fresta tímabundið gildistöku regluverks EES um frjálsa för fólks. Slíkt ákvæði er einnig að finna í samningi Króatíu um aðild að ESB.
Gera má ráð fyrir að þessu ferli ljúki fyrir lok þessa árs.

Þessi yfirlýsing breytir ekki skoðunum mínum af atburðunum í dag.  Það er svo sem ekkert sem segir okkur að hundruðir Króata muni vilja flytja til Íslands, frekar en að fjöldi Búlgara og Rúmena áttu að streyma yfir Norður og Vestur Evrópu við inngöngu þeirra í ESB.  En tilkynning þessu gefur til kynna á hverju við eigum von á úr Utanríkisráðuneytinu á næstunni þegar Þjóðrembufólk hefur tekið völdin.  Það verður ansi mikill munur á afgreiðslu mála þar og var hjá vinstri stjórninni.  
Ég vil samt harma að þetta skuli hafa verið ein af seinustu ákvörðunum ráðherra vinstristjórnarinnar í í Innanríkisráðuneytinu. Það er sorglegt ef satt er. 


  


Engin ummæli:

Skrifa ummæli