Sinfonían í gærkvöldi. Enn einir úrvals tónleikar, Beethoven og Prókofíeff, einn besti stjórnandi sem hefur komið hingað og verið hérna, Osmo Vänskä, við erum svo heppin. Svo er það Harpan að heyra verk aftur eftir að hafa heyrt það í Háskólabíó. Að byrja aftur á tónlistarsögunni með annan hljóm í eyrum.
Ég fékk skrána fyrir næsta vetur inn um póstlúguna í gær, margt spennandi. En sumt sem ekki er, furðulegt að sleppa. Engir Verdi tónleikar, 200 ára árstíð hans líka, ekki bara Wagner, sérstaklega þegar maður veit að með góðum söngvurum og fínum forleikjum væri hægt að selja 3-4 tónleika. Engir Britten tónleikar, eitt merkasta tónskáld seinustu aldar, 100 ára árstíð, dagskrárnefndin eitthvað úti að aka?
Margir hafa furðað sig á Grímunni í ár, margt skrítið, Makkbeð leikrit ársins, en hvorki Björn né Margrét, Ragnar Braga hefði auðvitað átt að fá sérstaka viðurkenningu sem nýr leikstjóri, en hann frekar en Þorleifur Örn eða Andrews sem leikstjóri ársins...... hálfgerður brandari. Nei ég skil ekki alltaf leikhúsheiminn enda algjör amatör á flestum sviðum.
Svo er hátíðin hans Víkings Heiðars framundan, sem var frábær í fyrra. Leitt að ég verð ekki í bænum þessa dagana. Langtum skemmtilegri og frumlegri hátíð en Listahátíð. Látið ykkur ekki vanta.
Ég er einn af þeim sem er forvitinn fyrir nýjungum, svo ég setti Spotify inn hjá mér. Einstaklega skemmtilegur tónlistarvefur. Ótrúlega mikið af góðri tónlist. Margt nýtt að uppgötva heilmikið af góðum djass, hef mikið hlustað á Ron Carter og ýmis afsprengi hans, sérstaklega með Eric Dolphy. Svo hef ég uppgötvað íslenska hljómsveit sem ég hef að mestu leitt hjá mér. Hjaltalín, diskurinn sem kom út fyrir jól; Enter 4. Hann er eini orði sagt magnaður. Sorglegur, frumlegur og spennandi. Útsetningarnar, stundum einfaldar stundum skrautlegar og margbrotnar.
Freyja og Harpa
Engin ummæli:
Skrifa ummæli