miðvikudagur, 3. júlí 2013

Snowden: Leiksýning heimsveldanna

Það er dýrkeypt að koma við kaunin á Valdamönnum þessa heims, sérstaklega þeim sem stjórna Heimsveldum.  Það hefur Edward Snowden fengið að reyna seinustu vikurnar.   Þeir sem sýna fram á hræsni og yfirdrepsskap stórmenna eins og Obama eða Pútín eiga ekki sjö dagana sæla. Það þekkjum við úr fréttum heimsins.  Líklega eiga Obama og Pútín sömu hagsmuna að gæta, að við eigum  ekki að vita um vinnubrögð undirsáta þeirra hvort sem um er að ræða upplýsingasöfnun sem er í hróplegu ósamræmi við allt sem þeir boða eða fangelsisdóma yfir fólki sem reynir að koma skoðunum sínum á framfæri í lokuðum alræðisríkjum.   

Leiksýning Pútíns á flugvellinum er senn á enda.  Snowden ber bónleiður að ýmsum dyrum.  Einu dyrnar sem virðast ætlast að opnast fyrir honum eru fangelsisdyr Frelsisríkisins í vestri þar sem við sjáum hvernig Bradley Manning er meðhöndlaður.   Jafnvel Evrópusambandið sem hefur fengið fréttir um gegndarlausar njósnir Bandaríkjamanna á valdastofnunum þess lyftir ekki lillaputta.  Enginn má styggja Heimsveldið í vestri hvernig sem það hegðar sér.  Það er um að gera að bugta sig og beygja.  

Það er varla við því að búast að íslenska ríkisstjórnin sýni þá djörfung að leika sama leik og Davíð Oddsson gerði um árið.  Að taka á móti manni úr dýragildru sem getur ekki hreyft sig.  Varla skorar Forseti vor á forsætisráðherrann að sýna einstakt hugrekki og koma því til leiðar að karlinn sem hefur opnað Pandórubox siðlausra njósna Heimsveldisins fái ríkisfang hér á landi. Við höfum heyrt og séð aðgerðir Kínverja, nú eru það vinir okkar í vestrinu. Boðberar frelsis og lýðræðis.

Ó nei, við erum of litlir of aumir, enginn í ríkisstjórninni man orð Jóns Sigurðssonar Vér mótmælum allir þegar yfirgangsherrar vilja valta yfir lög og reglur.   

Ó nei, þjóð mín góð.  Þannig er lífið á Ísalandi árið 2013. Að bugta og beygja. 

 

Engin ummæli:

Skrifa ummæli