Ég get nú ekki sagt að samband mitt við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn sé náið. En mér brá þegar ég heyrði hádegisfréttirnar í dag. Það blasti við að nú hafði AGS komist í blogg mín seinustu árin. Ekki nóg með það heldur voru nýju tillögur þeirra aldeilis stolnar, en það sama hvaðan gott kemur:
„Þar er skuldugum ríkjum ráðlagt að auka skattheimtu af hátekjufólki og alþjóðlegum stórfyrirtækjum enda hafi skattbyrði þessara aðila lést umtalsvert undanfarna þrjá áratugi. Í skýrslunni segir að hærri skattar á tekjuhæstu þjóðfélagshópana myndu auka jöfnuð í samfélögum og gera þorra almennings auðveldara að sætta sig við aðhald í ríkisfjármálum. AGS telur að ef skattheimta á hátekjufólki yrði færð í það horf sem hún var á níunda áratugnum myndu skatttekjurnar aukast um sem nemur 0,25 prósentum af landsframleiðslu iðnríkjanna."
Já, lesendur góðir, Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur aldeilis leitað ráða hjá mér og er það nú bara gott, ég er ekki alveg viss um að forsendurnar í huga okkar séu alltaf þær sömu, en það er annað mál. En það er öruggt að samband okkar virðist eiga eftir að verða nánara í framtíðinni. Svo er spurningin hvort dökkbláa ríkisstjórnin okkar vilji koma inn í það nána samband. Við sjáum til með það. Hvort hún taki meira mark á Indefence eða AGS.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli