miðvikudagur, 9. október 2013

Haustblús :Að gleyma Hruninu

Það er alltaf skrítin tilfinning við fyrsta snjó haustsins eða vetrarins.  Oft er það þannig að maður lítur út um gluggann og þá blasir við bylur oft í tiltölulega góðu veðri, þó ekki alltaf. Veröldin breytist í hvitan töfraheim. Sem oft stendur ansi stutt.  Svo er þetta líka ein  þáttaskilin enn í lífi manns.  Enn einn vetur sem stundum er erfiður stundum ekki.  Það fer eftir því hvernig manni líður hið innra.  Þá bætis líka við ástandið í kringum mann. 

Nú rifjar maður upp árið þegar allt gerðist.  Hrunhaustið, þegar við sátum límd klukkan fjögur fyrir framan sjónvarpið í vinnunni, á fullu kaupi.  Og hlustuðum og horfðum á manninn sem heldur að gamla fólkið hafi ekki orðið hrunsins vart.  Ég þekki gamalt fólk sem missti nær allt það hafði lagt fyrir til ellinnar.  Ég þekki marga sem hafa síðan barist við að halda húsi og fasteign.  Ég veit ekki um sjóndeildarhring Geirs Haarde, hann verður aldrei í augum mínum stórmenni.  Hann laug of mikið að okkur þetta árið, 2008.  Þegar hann brunaði um lönd og fullvissaði yfirvöld og fjármálamenn að það væri bara allt fínt með bankana á Íslandi!!! Á meðan samstarfsmaður hans Bjarni Benediktsson var búinn að selja hlutabréfin sín í byrjun ársins. Eflaust hafa það verið margir aðrir.  Ég veit ekki um Geir.  En ég er viss um að hann vissi betur en hann sagði okkur. Og stjórnmálamenn eiga aldrei, ég sagði aldrei að ljúga að okkur. Hvaða flokki eða fylkingu sem þeir tilheyra. 

Þessi vetur 2008-2009 var furðulegur, hann leið eins og draumur, kannski ekki martröð, en furðulegur draumur.  Fjöldafundir, átök, eldar á Austurvelli, steinkast í Aþingishúsrúðurnar,  almenningur að hrista til bíl forsætisráðherra, meðan hann hélt að kannski væri runnið upp sitt síðasta.  Piparúði í loftinu, byltingarræður hjá Herði, 
þetta var tími sem gleymist seint þeim sem upplifðu.  Sumir halda að við getum snúið aftur til lífsins eins og það var.  Þetta hafi bara verið slys.  Ansi dýrt slys.  Margir vilja gleyma því að útlendingar töpuðu hundruðum ef ekki þúsundum milljarða á starfsemi íslensku bankanna. Það er ekki nóg að segja að þeim hafi verið nær.  Okkar fólk hafði ekki þann siðræna grunn að stunda þessa tegund af fjármálum. Það eru margir sem vilja ekki viðurkenna það.  Á meðan er spurning hvort einhverjar breytingar verði.  Sérstaklega þegar sumir þeirra eru í æðstu stöðum samfélags okkar.  

Mér er ekki rótt.  Þess vegna er Haustblús í huga mér.  En eflaust mun þessi vetur ganga yfir hjá flestum. Flestir koma undan snjó heilir.   Ekki allir.  


Myndir :  Fyrsti snjór haustið 2013 EÓ 


















Engin ummæli:

Skrifa ummæli