Hvað er að ske, sagði skáldið. Og það er ýmislegt að ske í dag. Nýfrjálshyggjusamtök halda upp á Hrunið mikla: Þegar rykið er sest. Bankahrunið að fimm árum liðnum. Dýpri skilningur, ný sjónarhorn. Auðvitað verður að halda upp á merka atburði, og heldst túlka atburðina á nýtt. Já þetta verður spennandi að fara ofan í djúpið og virða fyrir sér orsakir hrunsins. Útvaldir túlkendur nýfrjálshyggjunnar munu leiða okkur í allan sannleik um það sem gerðist. Það var bóla og ofurfjárfestingar Banka. Þar komu við sögu engir stjórnmálamenn, engir starfsmenn ríkisstofnana eins og Seðlabankans og FME. Ó nei, Við fáum einn fulltrúa bankakerfisins sem greindi fyrir okkur í nokkur ár hvað væri að gerast. Ásgeir Jónsson. Hann greindi svo vel að sannleikurinn var sjaldan þar á ferð. Við fáum uppáhaldið okkar Stefaníu Óskarsdóttur sem fræðir okkur stöðugt um gang stjórnmálanna hérlendis. Og Ásta Möller fyrrum alþingiskona, núverandi starfsmaður Háskólans kynnir herlegheitin. Og svo eru auðvitað erlendir sérfræðingar frá valinkunnum stofnunum. Svo er þessi dýrðarsamkoma haldin í Háskóla Íslands. En, lesendur góðir, ekki á vegum háskólans eins og margir kynnu að halda.
Það er stofnun, RNH, Rannsóknarsetur um nýsköpun og hagvöxt, sem boðar til veislunnar:
„Tilgangur RNH er að rannsaka, hvað örvi og hindri nýsköpun og hagvöxt. Í rannsóknum stofnunarinnar er sérstaklega beint sjónum að því, hvernig menn geti með sjálfsprottinni samvinnu, viðskiptum í stað valdboðs, fullnægt þörfum sínum og bætt kjörin." Þeir sem skipa trúnaðarstöður hjá þessu merka setri eru:
Rannsóknarráð: Dr. Ragnar Árnason hagfræðiprófessor, formaður, dr. Hannes H. Gissurarsonstjórnmálafræðiprófessor, dr. Birgir Þór Runólfsson hagfræðidósent. Hannes Hólmsteinn er forstöðumaður rannsókna og ritstjóri rita frá RNH. Hér er ræða, sem hann hélt í febrúar 2012 um verkefnin framundan. Þeir Birgir Þór og Hannes Hólmsteinn blogga báðir reglulega.
Stjórn: Gísli Hauksson, formaður, Jónas Sigurgeirsson, Jónmundur Guðmarsson. Framkvæmdastjóri: Jónas Sigurgeirsson
Hann er þáttur í samstarfsverkefni viðAECR, Evrópusamtök íhaldsmanna og umbótasinna, um „Evrópu, Ísland og framtíð kapítalismans“.
Svo mörg voru þau orð. Svo lýkur herleigheitunum auðvitað með góðum málsverði og hátíðargesti. Frelsiskvöldverður RNH, auðvitað hlaut Frelsið eitthvað að koma við sögu, þeir sem eiga frelsið mega nota það og misnota. Og hver haldið þið að sé aðalræðumaður? Getið. Getið aftur. Auðvitað maðurinn sem gaf bönkunum nokkra milljarða eða voru það ekki nokkur hundruð í aðdraganda Hrunsins. Maðurinn sem hefur stöðugt verið að stunda kattarþvott á síðum Morgunblaðsins. Með aðstoð síns ágæta samherja og boðbera Hannesar Hólmsteins. Svo liggur á að lýsa því sem háttvirtur Ritstjóri ætlar að segja frá að í fréttatilkynningu þarf að kynna sakleysi hans:
„Ísland er að verða óþægilega skuldsett erlendis,“ sagði Davíð á fundi Viðskiptaráðs 6. nóvember 2007, ári fyrir bankahrunið. „Allt getur þetta farið vel, en við erum örugglega við ytri mörk þess, sem fært er að búa við til lengri tíma.“ Í frægum sjónvarpsþætti 7. október 2008 varðaði Davíð leiðina út úr ógöngum Íslendinga, sem væri að þjóðnýta og reka áfram hinn innlenda hluta bankakerfisins, en gera upp hinn erlenda hluta, selja eignir og greiða skuldir. Þessum ráðum var fylgt, en hann þó hrakinn úr stöðu seðlabankastjóra. Í ræðu sinni mun Davíð rifja upp hina örlagaríku daga í október 2008, meðal annars boðskap sinn í sjónvarpsþættinum.
Og auðvitað mun fyrrverandi Seðlabankastjórinn segja hnyttnar sögur, hann mun ekkert minnast á ummæli sín frægu um Forsætisráðherrann á ögurstundu, vin sinn, við fáum auðvitað þessu einu sönnu túlkun á þessum atburðum, sem hægt er að lesa í Staksteinum og Reykjavíkurbréfi þar sem siðfræði blaðamennskunnar er löngu horfin út fyrir sjónarrönd.
Auðvitað er uppselt á þennan dýrlega kvöldverð. Og allir fara brosandi heim fullir af fullvissu um sannleikann, þennan eina sanna. En ætli þá dreymi ekki búsáhaldahljómsveitina miklu, ætli þá dreymi ekki elda á Austurvelli. Ætli þá dreymi ekki andlit fólksins í landinu sem færast æ nær þeim. Ætli þeir vakni nokkuð upp af martröðinni öskrandi???
Engin ummæli:
Skrifa ummæli