Álftanes, hefur aldeilis verið í fréttunum upp á síðkastið. Örnefnið Gálgahraun skartar nú táknrænni merkingu nútímans, baráttan við innantóma tæknihyggju prúðbúinna pólitíkusa og embættismanna. Þar sem lífið er strik á korti og pappírsbleðlum. Engin saga, engar minningar, engin fortíð. Þeir virðast eiga í vök að verjast um þessar mundir þrátt fyrir gorgeir og útúrsnúninga.
Það er fróðlegt og skrítin reynsla að lesa lýsingu Benedikts Gröndal í Dægradvöl á lífi fólks og barna á Álftanesi fyrir tæplega 200 árum. Bæði er það að skrásetjari var furðulega samsettur maður, dómar um fólk eru oft á tíðum harkalegir og neikvæðir, lífið var líka ekki auðvelt, allir þurftu að táka þátt í því að draga björg í bú; svo er hitt að næmi hans sem skálds og náttúruunnanda gefur manni sýn á ótal margt í lífi 19. aldar fólks.
Hann lýsir staðháttum og umhverfi í byrjun bókarinnar í þessum einstöku orðum þar sem stílsnilld og náttúrutilfinning ríkja:
„Garðahraun er partur af hinum stórkostlegu Reykjaneshraunum og eykur það landsfegurðina eigi lítið á sumrin, þar sem silfurgrár gamburmosi klæðir hvervetna hraunklettana, sumstaðar eins og stórir flákar, en sumstaðar í dældum og djúpsignum lautum, en í gjótunum vaxa ýms grös og jurtir og verða hávaxnar og sællegar, þar sem þær eru í skjóli fyrir öllum vindum og geta notið sólarinnar í næði: stórar brekkur með fagurgrænum laufaskurði bærast upi yfir fjólubláu lyfjagrasi og heiðgulum dvergasóleyjum; sumstaðar hallast einstaka jarðarber upp við grænan kúluvaxinn kodda, alvaxinn lífrauðu lambagrasi, en geldingahnapparnir eða gulltopparnir lúta fram yfir gjótubarmana, þar sem kóngulóin hefur dregið sínn smágjörva vef. Sumstaðar mæna undarlega vaxnir hraundrangar upp úr grastóm og mosabingjum; á forntroðnum götustígum minna máðar steinbárur á eldvelluna, sem hefur áður verið rennandi og gljúp - sólskríkjur, steindeplar og maríuerlur fljúga til og frá og tísta við og við, annars heyrist hér ekkert hljóð, nema niðurinn frá Hraunholtslæk, þar sem hann fellur út í Arnarnessvog."
Hér er hann auðvitað að lýsa hrauninu sem Hraunvinir hafa reynt að verja fyrir þrælum kerfis og auðmanna. Rúmum hundrað árum seinna átti annar listamaður oft leið um þennan stað. Hann hafði einnig þetta auga, þessa sýn. Að sjá fegurðina, formin, litina í hrjóstrugu landslaginu. Hann átti stóran þátt í því að móta sýn okkar á fegurð landsins. Að skynja hið dásamlega í hinu grófa og fráhrindandi. Það var Jóhannes Kjarval, við vorum minnt á þetta um daginn þegar verk hans af Gálgahrauni var selt á uppboði í baráttuvikunni.
Mikið var frjótt og menningarlegt mannlífið umhverfis Bessastaði á þessum tíma. þrátt fyrir fátækt og misjöfn kjör fólks. Þarna varð til íslenskan eins og við þekkjum hana, þarna var upphaf að flestum fræðigreinum og listum. Það var ótrúlegt hvað ungir karlar lögðu á sig til að læra tungumál og ýmis önnur fræði án skipulegrar menntunar. Þess væri óskandi að svona mannlíf væri þarna enn til staðar. Nú er sérgæzkan og eiginhagsmunir ríkjandi. Valdahroki og græðgi ráða ríkjum, því er fátt sem hægt er að varðveita fyrir slíkum kújónum.
Því miður.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli