Valdamenn og skáld: Skuggamyndir og orðsnilld.
Nú er orrahríð áramótaræðnanna að mestu þögnuð. Sáttavilji tvíbúranna á Bessastöðum og í Stjórnarráðinu ofræddur að mestu enda var viljinn varla Þjóð(ar)vilji. Svo við flest okkar höfum snúið okkar að þarfara verki að lesa bækur,hlusta á tónlist og hitta fólk, vini og ættingja og ræða nútíð fortíð og framtíð.
Tvær bækur urðu fyrst á vegi mínum eftir jól og aðra hef ég klárað og hin er langt komin. Það eru Skuggasund Arnaldar og Fiskarnir hans Jóns Kalmans. Það er skemmtilegt og merkilegt hversu þeir eru frjóir að fást við árekstra fortíðar og nútíðar, það er uppruni okkar Íslendinga
og þróun seinustu öldina. Þar verður ekki komist hjá því að samskipti við útlendinga verði stór þáttur sögu og atburða.
Arnaldur fæst við glæpi úr seinni heimsstyrjöldinni þar sem samspil Íslendinga og Ameríkana eru lykillinn. Þegar upp er staðið þá kemur margt manni á óvart. Það er ekkert sem er einfalt, það eru engir algóðir eða alvondir, samt verða glæpir, mönnum verður á, lífið býður upp á freistingar, þeir sterku nota sér aðstöðu sína gagnvart hinum veiku, sem að sjálfsögðu verða fórnarlömb. Útlendingar eru ekki skúrkar út á það að vera útlendingar, þeir rekast hingað vegna hinna stóru strauma sögunnar, heimsstyrjöld og kalt stríð. Út úr mistrinu sjáum við loks sögu þar sem flestir upplifa harmleik og verða aldrei samir.
Jón Kalman fléttar saman á listfenginn hátt atburði frá æskuárum sínum og um leið fléttar hann saman líf fjöskyldu í heila öld. Fólk sem býr í sjávarþorpi og flyst síðan í nágrenni stórbæjarins, þar sem samskipti við ameríska herinn móta allt mannlíf og byggja upp lífsmynstur sem er ólíkt öllu öðru hér á landi. Í sjávarþorpinu eru það náttúruöflin sem ráða miklu, snjóflóð, sjósókn, vinátta, ættarbönd.
Einhvern veginn varð mér hugsað til valdamanna okkar í núinu í samskiptum við útlönd og útlendinga. Við sjáum skuggamynd þeirra á sjónvarpsskjánum, annað hvort þá sjálfa eða eftirhermur. Við hlustum á orðflæði þeirra, þar sem þeir búa til heim til að þóknast valdagræðgi sinni , einræðisherrar langt út í heimi verða allt í einu þeir sem við eigum að faðma að okkur og hafa mest samskipti við. Hinir fátæku, hinir stóru skarar stríðshrjáðra og hungraðara eiga ekkert inni hjá okkur, við eigum frekar að skera niður aðstoð til þeirra en að auka skatta og álögur á hina ofurríku. Skammsýnin ræður ríkjum, náttúra okkar og sjávarlíf er eitthvað til að leika með og eyða.
Hversu skáldin eru djúpsærri en stjórnmálamennirnir. Þar sem mannvirðing og húminismi ráða ríkjum, ungt fólk stígur feilspor sem reynast dýrkeypt, hjá stjórnmálamönnum er það afturámóti, skammvinnur gróði eða valdafíkn, allt verður þetta skiljanlegt og lifandi, hvetur okkur til að taka afstöðu.
Hjá báðum þessum höfundum er leiftrandi frásagnarlist, þó gjörólík. Arnaldur með sinn massíva stíl og fléttur. Jón Kalman með sína logandi orðakúnst og samsetningu sem fékk mig til að tárast á stundum. Það er ótrúlegt að við skulum eiga milli 5 og 10 bækur í þessum gæðaflokki fyrir ein jól. Og við flykkjumst í búðir og söfn til að meðtaka þessa snilld. Ég á enn nokkrar bækur sem ég á eftir að liggja yfir, Guðmund Andra, Vigdísi Gríms, Þórunni Erlu.
Svo eru margar athyglisverðar ljóðabækur sem vert væri að glugga í. Ég vil þar benda á nýja ljóðabók Berglindar Gunnarsdóttur og ljóðaþýðingar Jóns Kalmans.
Já, lesandi góður, það er margt að lifa fyrir, jafnvel þótt manni verði stundum þungt fyrir brjósti þegar maður upplifir hroða valdamanna í hvunndeginu. Ég hef hvorki stílgáfu né tíma til að lýsa þessum bókum og tíma. En vonandi fæ ég þig til að leggja sjálfur í að glugga í þeim og meðtaka. Góðar stundir.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli