föstudagur, 24. janúar 2014

Víkingur Heiðar sló í gegn, enn og aftur.

Það eru ekki margir listamenn sem komast í þann hóp að verða ástsælir, listamenn sem flestir þekkja og meta. Þar eru
nokkrir, ekki margir þó í klassíkinni.  Sigrún Eðvalds, Bryndís Halla, Garðar Cortes, Jón Nordal, Atli Heimir. Megas, Maggi Eiríks, Gunnar Þórðar, Siggi Flosa og Bubbi í hryntónlistinni.  Við höfum séð einn flytjast upp og bætast við þann hóp.  Víkingur Heiðar Ólafsson. Þrátt fyrir ungan aldur.   Hann sannaði það enn og aftur í gærkvöldi.  Það eru ekki margir klassískir listamenn íslenskir sem fylla Hörpuna tvisvar.  

Hann hefur náð frábærri leikni á píanó, hann er einlægur, allt að því vandræðalegur á sviðinu, gengur inn með hendurnar í vösum.  En þegar hann er sestur við píanóið er einbeitingin algjör, hann fylgist með hljómsveitinni og stjóranum, sveiflar höfðinu eftir taktinum.  Hann er engum líkur.  

Þannig var það í gærkvöldi í Píanókonsert númer 1 eftir Brahms. Þetta er firnaerfitt verk að spila.  En það er svo fallegt og kraftmikið fyrir okkur áhorfendur.  Streymir fram eins og stjórfljót með litlum þverám.  Annar þátturinn var svo fallegur, maður var hrærður. 

Hljómsveitin var líka fín, öll verk vel flutt.  Schubert sjötta sinfonían, létt og leiftrandi, Enesco, algjört þjóðlagapopp.  Það var mikil gleði og kátína hjá hljómsveitagestum eftir tónleikana. Þarna voru ráðherrar, þingmenn, embættismenn, kennarar, tónlistarmenn, rithöfundar, eftirlaunaþegar, svo eitthvað sé talið.  
 Það er ekki létt verka að klífa á toppinn. 


Víkingur sló í gegn, enn og aftur. 

Engin ummæli:

Skrifa ummæli