föstudagur, 14. febrúar 2014

Forsætisráðherra úr jafnvægi

Ræða ársins, tímamótaræða, þar var  forsætisráðherra á ferð sem er ekki í jafnvægi.  Sem á erfitt.  Ef hann á eitthvað órætt
við Seðlabankastjóra, af hverju ræðir hann ekki við hann undir 4 augu í stjórnarráði eða Seðlabanka? Af hverju einangrar hann sig í turni með jáliði?  

Ræður á Viðskiptaþingi fara víða, erlendis vita menn hvað er sagt í ræðum þar. Á þingið mættu útlendingar sem fengu ræðu forsætisráðherra þýdda fyrir sig jafnóðum. Ætli það hafi aukið áhuga þeirra á fjárfestingum?  Er það að selja landið, að stunda heiðarleg viðskipti?   Varla. 

Sigmundur gagnrýndi í ræðu sinni bæði Seðlabankann og Samtök atvinnulífsins, en hann sagði furðulegt að samtökin væru að styðja við átakið „veljum íslenskt“ og á sama tíma að ráðast í herferð gegn innlendum framleiðendum sem séu að reyna að efla innlenda framleiðslu. Sigmundur svaraði svo yfirskrift fundarins um hvort Ísland væri opið fyrir viðskiptum á þann veg að Ísland væri opið, en ekki til sölu.

Það er ekki að efla innlenda framleiðslu með að loka sig frá alþjóðaviðskiptum.  Segja fólki hvað það á að borða.  Ákveð matseðilinn á hverju heimili. 

„Ég veit að menn töldu rétt að sýna þolinmæði á síðasta kjörtímabili og þorðu jafnvel ekki að gagnrýna stjórnvöld af ótta við að lenda á svörtum lista, en það gagnar ekki að fá útrás fyrir það núna þegar losnar um og komin er ríkisstjórn sem skilur þarfir atvinnulífs og hefur sýnt að hún er tilbúin til að taka slagi og fá yfir sig nokkrar gusur til að rétta stöðu atvinnulífsins,“ sagði Sigmundur og bætti við að það væri ósk ríkisstjórnarinnar að atvinnulífinu vegni sem best.

Jamm, hann hefur líklega kynnst einhverjum sem skilja ekki þarfir atvinnulífsins og vilja að því vegni sem verst.  Þar gengur maður sem aldrei hefur unnið innan þess.   Nema hann hafi unnið fyrir einkahlutafélagið GSSG. 


Sigmundur beindi svo orðum sínum að Samtökum atvinnulífsins og sagði að í kjölfar þess að hann hefði bent á að innlend fjárfesting hefði ákveðna kosti framyfir þá erlendu, þá hefði forstöðumaður úr samtökunum gagnrýnt þá hugmynd og unnið gegn hagsmunum lands og þjóðar. Sagði hann þetta mjög skaðlegt út á við og sagði að samtökin ættu að skoða það að nýta fjármagn sitt betur til uppbyggilegra ábendinga eða spara félagsmönnum sínum fé og setja á fót bloggsíðu í stað þess að halda úti fullu starfi.

Þarna fer maður sem þolir ekki gagnrýni né hreinskiptar umræður.  Allt á að gerast bak við lokaðar dyr með jábræðrum og systrum.  

Í lok erindisins fór Sigmundur yfir stefnu stjórnvalda varðandi Evrópusambandsaðild og sagði að Ísland væri ekki á leið í sambandið og að vonir manna til þess að viðræður ættu sér stað í alvöru meðan utanríkisstefna ríkisstjórnarinnar væri andsnúin aðild væru ekki raunsæjar.

Svo mörg voru þau orð, lofaði hann ekki þjóðaratkvæðagreiðslu um áframhaldandi viðræður, ætlar hann þá ekki koma með tillögu um lok þeirra, eins og Viðskiptaráð hefur bent á.  Eða er það eitthvað sem ríkisstjórnin treystir sér ekki í?   

Yfirskrift Viðskiptaþings þetta árið var opið fyrir viðskipti? (e. Open for business?) og sagði Sigmundur að þeirri spurningu væri auðvelt að svara. Sagði hann að Ísland væri sannarlega opið fyrir viðskipti, en að búðin væri ekki til sölu. (e. Yes, Iceland is open for business, but the store is not for sale.)

Eiginlega man ég ekki heimskulegri lokaorð á ræðu valdamanns.  Karl með lokaða heimssýn, sem hefur aldrei komist út úr framsóknarfjósinu, mokar flórinn daginn út og inn. Hefur dvalist í öðrum löndum og Háskólastofnunum með lokuð augu. Sem vantar
alla yfirsýn, hefur bara upp á að bjóða þröngsýni.  Engin reisn, engin djörfung.  Allt vekur ótta, allir eru óvinir nema jáfólkið.  

Engin ummæli:

Skrifa ummæli