Lokið við tvær bækur í vikunni: Sæmd Guðmundar Andra Thorsson og Andköf Ragnars Jónassonar.
Sæmd: Þessi litla bók er svo hlýleg, húmanístisk og hjartahreinsandi (flott orð !). Rithöfundar þurfa ekki að skrifa langar bækur til að skrifa góð verk. Til þess að skapa yl innra með okkur lesendum. Svo er um Sæmd. Hugmyndin, sögufrægir einstaklingar berjast um
grundvallarsjónarmið. Meirihlutinn hefur að sjálfsögðu rangt fyrir sér, og margir eru þrælar síns umhverfis og tíma. Draumsýn um fullkominn skóla og umhverfi, eina og hún speglast í höfði Björns M. Olsen, hlýtur alltaf að steita á skeri. Sá breiskasti rís upp og hefur sigur. Fórnarlambið, þjófurinn, lifir áfram lífi sínu, en er hann skaðaður ævilangt? Er það þessi atburður sem skapar með honum fangavist einsemdarinnar? Og Harðstjórinn (var hann harðstjóri í raunlífinu?) lifir áfram í skugga þess sem samtímamenn hans töluðu ekki um, vinurinn inn á gafli, presturinn öðru hverju í heimsókn, hin góðborgaralega slikja hvílir yfir öllu. En Harðstjórinn getur kastað steinum í aðra.
Sumum finnst erfitt að lesa sögulegan róman þar sem tíminn og persónurnar farast á mis. Tíminn vill ei tengja sig við mig. Eflaust passar ekki allt í samskiptum þeirra starfsfélaga. En það gerir ekki til, finnst, mér, þetta verður nokkurs konar allegoría. Einfalt brot fær okkur til að hugleiða réttlæti og ranglæti, glæp og refsingu. Allt þetta yrði vafalaust ómerkilegt ef það væri ekki stíll Guðmundar Andra sem lyftir öllu á hærra plan. Fær okkur lesendur til að dilla sér í rúminu. Þannig var um mig. Kaflinn um ferð Benedikts Gröndal suður á Álftanes fékk mig til að taka andköf. Ísþokan fólkið hugleiðingar uppreisnarmannsins, allt varð þetta að töfrum í stílnum. Stuttar og hnitmiðaðar mannlýsingarnar,lýsingin á Reykjavík, myndin af kennurunum á kennarastofunni, fólk og umhverfi Fórnarlambsins í sveitinni. Hús Benedikts. Dapurleg örlög og líf Íslendinga á þessum harðindatímum 19. aldar. Þessi bók snart mig.
Ég lauk líka við reyfara Ragnars Jónassonar. Ég hef lesið allar bækur hans, þetta er góð afþreying eins og maður myndi segja um glæpakvikmynd í meðallagi. Spennandi en vantar meira hold á beinin, staðarvaldið skemmtilegt, þegar ég bjó í Húnavatnssýslu fór ég nokkur skipti norður í Kálfshamarsvík, það er merkilegt að koma þangað sem hundruðir manna sóttu vertíð forðum. Vitinn er þar og stuðlabergið, ekki eins stórbrotið og lýst er í bókinni. En fléttan var ágæt og ýmislegt gekk á í vetrarveðri. En það hefðu getað verið meiri lýsingar á umhverfinu og fólkinu sem gerðu sakamálasöguna stórbrotnari. En þá er ég líklega að biðja um annars konar bók. Og þó sumum höfundum tekst að hefja glæpasöguna á hærra plan, Arnaldi tekst það í nýju bókinni sinni. Hið harmræna verður svo sárt hjá honum. Hann nær þessum tóni. Ragnar nær honum ekki. En bækur hans og persónur bjóða upp á afþreyingu á síðkvöldum, meðan maður sofnar. Ég les hann áfram örugglega. Hvort það séu meðmæli, ég veit það ekki.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli