mánudagur, 28. apríl 2014

Prýðissýning: Furðulegt háttalag hunds ......

Það er erfitt að lýsa sjúkdómum.  Ég tala nú ekki um andlega sjúkdóma sem lengst af var ekkert vitað um hvað væri.  Eins og Einhverfa. Þar sem einstaklingur virðist ekki ná sambandi við umheiminn, hann lifir í sínu innra, mótar sér veröld þar sem erfitt er að nálgast. Það hlýtur að vera gífurlega erfitt fyrir foreldra að upplifa
þennan sjúkdóm, að geta ekki komist í gegnum þennan múr sem heilinn hefur mótað sér.  Í hinni snjöllu sögu Mark Haddons Furðulegt háttalag hunds um nótt er fengist við þetta. Að móta listaverk úr þessum efniviði.  Ég varð ofsahrifinn af þessari bók þegar hún kom út fyrir nokkrum árum. Það tókst að lýsa Einhverfunni á svo mannlegan og hlýlegan hátt.  Og nú er komið leikritið, Simon nokkur Stephens, hefur gert leikritsgerð.  Eiginlega átti ég erfitt að ímynda mér hvernig það væri hægt.  En sjá, ég fór í Borgarleikhúsið og sá þessa sýningu.  Hún er alveg afbragð.  

Hvers vegna? Jú, Borgarleikhúsið býr yfir listamönnum sem geta komið þessu til skila.  Það eru ekki bara leikarar, heldur líka sviðs, ljóð, mynd, og hreyfingarmeistarar sem starfa í þessu leikhúsi.  Undir öflugri stjórn Hilmars Jónssonar verður þessi áhrifaríka sýning til.  Og á bak við sér maður handbragð leikhússtjórans Magnúsar Geirs Þórðarsonar, hann er svo naskur að koma saman fjölbreyttri dagskrá.  Sem hefur skilað sér í stöðugt meiri aðsókn.  Hann hefur verið óhræddur að leggja í vandasöm stykki sem ná til breiðs hóps áhorfenda. Og gar ég lít yfir salinn í Borgarleikhúsinu í gærkvöldi, þá hefur hann víkkað út hinn hefbundna áhorfendahóp leikhúsa, í húsinu var fólk á öllum aldri, þetta var sýning sem náði til allra.  Ung, ný stjarna fer með aðallhlutverkið og fer á kostum, Þorvaldur Davíð Kristjánsson. Hann er Kristófer fyrir augum okkar, með furðulegheit sín, köstin, gáfurnar, allt gert með leikgleði og kunnáttu.  Leikhópurinn er mjög góður, mér finnst Bergur Þór vera orðinn einn albesti leikari okkar, hann kann allt, er einn besti gamanleikari okkar, trúður, svo lýsir hann aumkunarverðu lífi föðurins snilldarlega.   Þessi sýning yrði ekkert ef ekki væri hugmyndaauðgin á umgjörðinn, þar sem tölvur, lýsing og leikmunir mynda þessa veröld.  Oft greip maður andann á lofti yfir fegurðinni og útsjónarseminni .

Svo sýningin fór framúr björtustu vonum mínum.  Maður sá líka hversu áhorfendurnir nutu sýningarinnar. Og viðbótin í lokin, stærðfræðikennsla var dásamleg. Það er gott að fólk þyrpist í leikhús.  Í tveimur minni sölunum eru íslensk verk sýnda sama sunnudagskvöldið. Alls staðar fullt af fólki.  Mig langar að sjá þær. Svo er Arthur Miller og Auður Ava í Þjóðleikhúsinu mig langar að sjá þær.   Svo er fjöldi leikhópa í Tjarnarbíó og fleiri stöðum.  
Því skýtur skökku við að loka eigi á allt leiklistarlíf á Akureyri, eina atvinnuleikhúsinu utan Reykjavíkursvæðisins.  Mér finnst að yfirvöld þar eigi að hugsa sig um áður en það verður.  Það væri ansi stór slys.  




Engin ummæli:

Skrifa ummæli