þriðjudagur, 20. maí 2014

Kosningar: Einstaklinghyggja og samvinna

Heimur einstaklingshyggjunnar, það er heimur okkar í dag.  Allir þurfa að hafa nákvæmlega sinn flokk með nákvæmlega sinni skoðun.  Ef eitthvað bjátar á, þá stofnar maður bara nýjan flokk!!!
! Allir virðast geta fengið meðmælendur til að skrifa undir. Svo framboðin verða fleiri, í stærri byggðarlögum. Og skoðanaskipti mun fjölbreyttari í breyttum heimi þegar net og fés gefa svo meiri tækifæri í umræður. 

Það er skrítið stjórnmálalandslag sem blasir við okkur.  Sumt furðulegt og um leið dapurlegt: 

Í Keflavík höfum við útfrymi úr tveim flokkum.
Í Kópavogi eru ótal framboð, og munurinn, ég veit ekki hver hann er.  Eflaust mikið af góðu fólki, misjafnlega vel klæddu, en að hægt sé að velja minn flokk  samkvæmt kynningum frambjóðenda og vefsíðna.  Ekki mögulegt.
Í Garðabæ og Seltjarnarnesi liggur við að það þurfi ekki að kjósa,  Einbýlishúsaeigendur og fyrrverandi einbýlishúsaeigendur kjósa xD.  Og ekkert þref. 
Og Sjálfstæðisflokkurinn í Hafnarfirði er strax farinn í pukurviðræður við einn af nýju flokkunum, gömlu og góðu vinnubrögðin. 

Við erum með 2 stór ný framboð, það er sem bjóða fram á mörgum stöðum.  Bjarta framtíð og Pírata.
Þeir vilja auðvitað skilja sig  frá „gömlu flokkunum",  vera ekki eins.  Tekst það að vissu leyti.

 BF er í stíl og hugsunum ekkert svo frábrugðinn frjálslyndum vinstri mönnum í öðrum flokkum, í mínum augum er hann hentugur auglýsingastofuflokkur, myndarlegt fólk, miðaldra, 30-50 ára, svolítið töff, vilja vera jákvæð, ekki í þrasinu eins og gamla liðið, sem margir af þeim hafa að vísu
starfað með og eru vinir og kunningjar. Þó sýnist mér vera mikið af fólki sem hefur ekki komið nálægt pólitík áður.  En í Reykjavík er BF auðvitað arftaki Besta Flokksins svo þar er kominn þekkingarbanki.  Að ákveðnu leyti eru það Guðmundur Steingrímsson og Jón Gnarr sem hafa mótað stíl og áherslur BF (með góðri hjálp Dags E.!!)  Og orð oddvita þeirra um Reykjavík er svona þessi stíll í hnotskurn: 

Reykjavik er frábær, hún er glaði, gáfaði og skemmtilegi dvergurinn í hópi höfuðborga. Reykjavik er borg tækifæranna. Útlendingar eru vitlausir í Reykjavík. Íslendingar kölluðu Reykjavík lengi vel sollinn, borg óttans og eitthvað þaðan af verra. Þetta hefur breyst. Reykjavík er ekki lengur forboðna borgin, hún er borgin okkar. Flestir þeir sem búa í Reykjavík eru stoltir af borginni sinni. Ef þú ert staddur í útlöndum, þá segirðu með stolti að þú sért frá Reykjavík. Alveg eins og þú játar því stoltur að Björk sé frá Íslandi.

Píratar, hafa margvíslega sérstöðu, yngra fólk að langmestu leyti, leggja áherslu á Beint lýðræði og gegnsæi á sem flestum sviðum, pólitísk reynsla ekki mikil, enda hefur komið í  ljós með starfi Besta flokksins í Reykjavík, að hún er ansi ofmetin.  Aðalmál þeirra í sveitastjórnarmálum er þess vegna beint lýðræði og aðkoma fólks að stjórn sveitarfélaga: En stefnan sem heild enn ómótuð, eins og kafteinn þeirra sagði í viðtali: 

Í raun ekki margar sem ég hef ekki heyrt aðra nefna í málefnastarfinu innan Pírata í Reykjavík. Píratamál eru almennt séð mín mál og öfugt – það er bara einfaldlega þannig. Svo dæmi sé tekið sá ég strax fyrir mér þegar ég fór að velta þessum málum fyrir mér að kerfi á borð við Betri Reykjavík mætti tengja betur við það sem fram fer innan stjórnsýslunnar sjálfrar svo þetta sé raunverulegt aðhald borgarbúa gagnvart henni en ekki borgarbúar í einu horni og stjórnsýslan í öðru. Þetta hef ég síðan heyrt fleiri en einn Pírata fyrir utan mig tala um.
Við erum svo auðvitað að þessu fyrst og fremst til að hrista upp í kerfinu – sem og stjórnmálamenningunni. Forgangsatriðið er að laga kerfið sjálft og þrýsta á aðra að hjálpa til við slíkar lagfærslur og það er eiginlega eins ósértækt málefni og hugsast getur.
Hins vegar hef ég til dæmis sérstakan áhuga á málefnum fólks sem stjórnmálastéttin vill því miður oft gleyma af því það er ekki endilega hlaupið að því að fá atkvæði eða vinsældir út á að verja tíma í slík mál. Þá á ég við til dæmis utangarðsfólk, fíkla, hina geðsjúku og aðra sem sæta því miður enn oft fordómum og búa við bág kjör. Þetta eru vissulega erfið mál og án efa engar töfralausnir í boði á þeim en mig langar samt til að reyna mitt allra besta og tel þetta mjög Píratalegan málaflokk.

Ég byrjaði að tala um einstaklingshyggju nútímans, ég er ansi hræddur að þessi sundrung fólks sem hefur oft sömu grunnsjónarmið, geti leitt til þess að xD geti deilt og drottnað með því að taka einhverja af þessum flokkum upp á arma sína.  Auðvitað með því skilyrði að stefna þeirra
LÆKKUM SKATTA sé alltaf fremst.
Það er merkilegt hversu Sjálfstæðisflokkurinn hefur lokast inn í þessari hugsun, meðan stjórnmálaumræða annars staðar í heiminum fjallar um allt annað, misskiptingu auðs og valda.
Mér finnst það líka dálítið sorglegt að mikið af þessu yngra fólki sem flykkist í þessa nýju flokka skuli ekki geta sameinast í stórum velferðar vinstri flokki sem er opinn, lýðræðislegur og mannvinalegur.  En kannski er slíkur flokkur liðin tíð, við lifum tíma þar sem pólitískir hrossakauparar geta leikið sér að kjósendum með loforðaflaumi og loddaraskap, eins og dæmin sanna.  En um leið eru blikur á lofti að yngra fólk hverfi í æ ríkara mæli frá xD það er gamla liðið sem heldur honum uppi ( og einbýlishúsaeigendur !!).  Við sjáum hvað setur ........    


Engin ummæli:

Skrifa ummæli