laugardagur, 10. maí 2014

Listir: Öll eigum við Askhenazy


Askhenazy, við eigum hann öll.  Það er að segja við Íslendingar. Það er merkileg, þessi saga um útlendinga sem við eignum okkur, sem tengjast okkur á einhvern hátt og verða okkar.Eins og Vladimir gerði með sambandi sínu við hana Þórunni. Ein af ástarsögum aldarinnar.  Uppgangur nazista ýtti til okkar snillingum tónlistar eins og Urbanitch fjölskyldan sýnir okkur sem hefur verið í fréttum seinustu mánuði.  Róbert Abraham Ottóson ól upp tónlistarkynslóðir.  Flóttamenn frá fátækt og kúgun Austur-Evrópu kenndu ótal nemendum undirstöðu tónlistar um allt land.  Svona mætti lengi telja.  





Hann mætti í Hörpu í gær. Sem hann tók þátt í að reisa.  Léttur á fæti eins og endranær.  Hljóp  inn og út af sviðinu, stormaði meira að segja framhjá stúlkunni með blómavöndinn.  Sneri þó aftur til að taka á móti honum. Hljómsveitin var frábær í flutningi sínum á Rachmaninoff, Mussorgsky og Brahms.  Ólafur Kjartan hans Didda fiðlu brást okkur ekki, hann var svo dásamlega rússneskur í söng sínum.  Hann hefur þroskast í vinnu sinni í útlöndum.  Er öruggur, kraftmikill og frábær í túlkun sinni á Söngvunum og dönsunum um dauðann.  Hljómsveitin leiddi hann áfram undir stjórn meistarans.   Svo var Brahms númer eitt meiri háttar, bæði björt og hrein, svo djúp og sorgmædd. Allir þessir lagbútar, sem tengjast saman af samspili strengja, tréblástursleikara, horna, páku og málmblásara.  Salurinn skildi þessa snilld, allir fóru heim glaði og reifir.  Tón - list gefur manni svo mikið.  Maður hleður batteríin, þótt að það sé erfitt að koma sér upp og niður stiga með veik hné.  Lífið er gott. 

Askhenazy sýnir líka svo vel hvernig við þjóðirnar  í Evrópu tengjumst saman, það er saga seinustu aldar, saga Gyðinga, þjóða, menningar, lista, stjórnmála.  Það er enginn sem getur lifað aleinn, alls staðar eru þræðir sem tengja okkur. Draumurinn um einmanaleika um sérstöðu er svo óraunverulegur.  Við höfum fengið þetta fólk, tengst því, svo er það okkar. 

Askhenazy er okkar.  Það eiga margir fleiri eftir að koma. Sem við eignum okkur.  Listin á sér engin takmörk. Listin er eilíf. 


Engin ummæli:

Skrifa ummæli