fimmtudagur, 4. desember 2014

Nýr ráðherra, sama ríkisstjórn

Nú fer tilkynning um nýjan innanríkisráðherra sem eldur í sinu um netheima. 

Ólöf heitir hún Nordal.  Við vitum hver það er.  Sumir gamlir kunningjar og skólabræður
hrósa henni, þar er á ferðinni góð manneskja með hjartað á réttum stað.  Ekki efa ég það.

Spurningin er samt hvort stjórnmál núverandi ríkisstjórnar fjalli um manngæsku.  Slíkt hefur ekki verið áberandi í framkvæmd hennar á stefnumálum sínum.  Nema það sumir kalli það manngæsku að dreifa seðlum yfir landslýð án þess að hugsa um aðrar hliðar efnahagslífsins um leið. 

Nei, lesendur góðir, stefna núverandi ríkisstjórnar, fjallar um margt svo yfirgripsmeira.  Þar er á ferðinni hægri stjórn sem hyglar sínu fólki hvort sem er í stjóru eða smáu.  Færir fjármagn til hinna ríku og allsráðandi, frá hinum tekjuminni og valdalausu. Enginn auðlegðarskattur, minna veiðigjald, einhæfari framhaldsskóli, heilbrigðiskerfið lamað, RÚV í frjálsu falli, furðulegar breytingar á virðisaukaskatti, lækkun örorkubóta, breytingar á stjórn fiskveiða og miklar gjafir til útgerðarmanna. Allir samningar um umhverfismál í uppnámi.  Svo kóróna þeir allt með því að ætla ekki að leysa læknaverkfallið sem mun hafa ófyrirséðar afleiðingar um alla framtíð.  Þetta er það sem ríkisstjórnin er að framkvæma. 

Þvi skiptir í sjálfu sér ekki máli hver tekur við hvaða embætti í Ríkisstjórninni.  Það er ansi
ótrúlegt að það breyti einhverju. Stjórnmál nýfrjálshyggjunnar hafa ekki að gera með gæsku, þar er fjalla um hagsmuni.  Engin ríkisstjórn lýðveldisins hefur gengið jafn hatrammlega fram í sérgæsku  og stjórn Sigmundar Davíðs.  Stjórnmál dagsins í dag fjalla um það að reyna að hnekkja endalausum aðgerðum þeirra að breyta þjóðfélaginu til hins verra fyrir þorra fólks. 

Sú barátta á eftir að harðna. 

Engin ummæli:

Skrifa ummæli