fimmtudagur, 19. febrúar 2015

Styrmir Gunnarsson: Óbragð í munninum

Ein furðulegasta bók seinni ára er bók Styrmis Gunnarssonar.  Eiginlega ætlaði ég ekki að lesa þessa bók, en hún blasti við mér á bókasafninu og ég stóðst ekki freistinguna.  

 Bókin er sögð fjalla um Kaldastríðið og Vináttu sem nær út yfir stjórnmálaerjur. Í köldu stríði Vinátta og barátta á átakatímum.  Vináttu áhrifafólks frá barnaskóla til gamals aldurs.Fólks sem varð ráðherrar, þingmenn, áhrifamenn á listasviði, útgáfu.   Bekkurinn hans Skeggja, kennarans sem birtist allt í einu í öðru ljósi fyrir rúmu ári, barnaníðingurinn sem réðst á
minnimáttar í bekkjum að sögn, en ekki í bók Styrmis.  Hann er að fjalla um annað. Sjálfan sig, maður með silfurtungu, sem kemst áfram þrátt fyrir fjölskyldu með vafasama fortíð (nazistar) og tengist inn í aðra með vafasama nútíð (róttæklingar). 

Þessi lýsing á samskiptum þessara vina verður aldrei sérlega djúp.  Sumt svolítið vandræðalegt eins og skot Styrmis í Bryndísi Schram sem kemur fyrir oft í bókinni.  En einhvern veginn speglar þessi hópur eitthvað sjúklegt. Sérstaklega eftir að lesa réttlætingu Styrmis á hlutverki sínu sem njósnara og milligöngumanns uppljóstrara í Sósíalistafélagi Reykjavíkur, Æskulýðsfylkingunni og seinna Alþýðubandalaginu.  Þetta er ansi ótrúlegt hugsa ég fyrir marga að sjá fyrir sér Styrmi keyrandi á leynilega staði með seðlabúnt í vasanum að hitta fyrir sér mann sem er orðinn afhuga sósíalistum á Íslandi en heldur áfram að starfa og mæta á fundi ár eftir ár.  Eitthvað er þetta ótrúverðugt, ég hef grun um að höfundur hafi fært þetta í stílinn til að fela hin raunverulega heimildamann sinn.  Ef þetta er eins og hann lýsir væri trúlega hægt að finna hann út frá frásögn um stjórnmálanámskeið á bls. 121. Þetta er ansi John Le Carré líkt.   Og réttlætingin um þetta tímabil sem stríð þar sem Styrmir er fótgönguliði að eigin sögn, þar sem tilgangurinn helgar meðalið, að hálfnjósna um vini sína og kunningja. En um leið og bjóða þeim á hina helgu skrifstofu og aðstöðu Morgunblaðsins í mat, líklega á kostnað blaðsins, sitja með þeim að sumbli næturlangt, og hafa bara einu sinni samviskubit, skilur eftir óbragð í hálsinum á mér.  

Það sem gerir þó þessa bók ansi áhugaverða fyrir mig eru skýrslurnar um fundi sósíalista á þessum tíma. Ég var unglingur á þessum tíma, með áhuga á pólitík, og heyrði oft af þessum fundum hjá kunningjum mínum og vinum á þeim árum.  Þarna var hafin þessi barátta harðlínusósíalista og þeirra sem vildu stóran vinstriflokk þar sem fólk sameinaðist um ákveðin málefni til að ná meiri áhrifum í íslensku samfélagi. Fjallað er um SÍA skýrslurnar, samskipti við Hannibal og hans lið.  Um það hvernig Einar Olgeirsson og Brynjólfur Bjarnason missa hugmyndalegt forystuhlutverk sitt smám saman.  Þjóðernissinnar og praktískir athafnamenn taka völdin. Harðlína einkennir smám saman aðeins Æskulýðsfylkinguna og sérvitringa í SR.  Margt kannast ég við frá 9. áratugnum þegar ég var virkur í Alþýðubandalaginu og Herstöðvaandstæðingum.  Heift og skítkast.  Sem flæmdi með tímanum marga frá vinstri stjórnmálum.

Í köldu stríði skilur eftir sig skrítna tilfinningu, það eru engin stórtíðindi í henni,  upplýsingar hafa áður komið fram um eftirlit og njósnir um vinstri menn af hálfu yfirvalda, hér á landi og annarstaðar.   Þarna er sagt frá einu eða nokkrum dæmum um net Eyjólfs Konráðs, sem virðist hafa verið nokkurs konar könguló Bandaríkjamanna sem spann vef til að ná frekari
upplýsingum en lögregla og nokkurs konar leyniþjónusta gerði.  Þar sem komið var í veg fyrir frekari þekkingu  með því að brenna gögn fyrir nokkrum áratugum á ólöglegan hátt. En stóra spurningin er um manninn sem skrifaði bókina.  Hann virkar á mig ansi óhugnanlegur.  Eflaust sjarmerandi maður sem á gott með að umgangast fólk, ég hef aldrei hitt hann, hefur kunnað að nýta sér veikleika annarra, í mínum augum ansi siðblindur.  Aðrir hafa eflaust aðra skoðun á því.    
   
Myndir: Höfundur Kalt stríð I,II


Engin ummæli:

Skrifa ummæli