þriðjudagur, 5. maí 2015

Sigmundur Davíð: Sjálfum sér samkvæmur?

Nú tíðkast tertuát hin meiri.  Á Alþingi.  Ætli næsta stig verði ekki tertukast a la Laurel og Hardy, eða Chaplin.  Ekki ætla ég að blanda mér í þau mál en horfa frekar á það sem skiptir meira máli. Það er hvernig á að leysa kjara og verkfallsmálin og hvernig ríkisstjórnin ætli eða ætli ekki að koma að þeim málum. 

Það er gaman að rifja upp ummæli Forsætisráðherra í Áramótagrein  sinni í Morgunblaðinu:


Það er og á að vera markmið stjórnmálamanna að vinna að því að veita þjóð sinni það öryggi og velferð sem allir þrá og þó að stjórnmálabarátta virðist oft illvíg þá er það engu að síður svo að flestir sem taka þátt í stjórnmálastarfi vinna að sameiginlegu markmiði. Því að auka hagsæld og hamingju þjóðarinnar.

Við getum öll tekið undir þetta, svo bætti hann við ummælum um Kjarasamninga sem hann vissi að voru yfirvofandi í stærri skala en hér hafa átt sér stað um margra ára skeið:

 Kjarasamningar sem voru undirritaðir í lok ársins voru hugsaðir sem grundvöllur stöðugleika svo að hægt yrði að auka kaupmátt og bæta lífskjör jafnt og þétt næstu árin. Það þurfa aðilar vinnumarkaðarins og stjórnvöld að gera í sameiningu og í þeirri vinnu þarf að huga sérstaklega að kjörum þeirra lægstlaunuðu og því að millitekjuhópar njóti ávinningsins af betri tíð eftir þær miklu fórnir sem sá hópur var látinn færa á síðast liðnum árum.

Þetta var í loka desember en nú í þessari viku er komið annað hljóð í strokkinn.  Á Súkkulaðitertumeðperumdaginn. Á hinu háa Alþingi.

 Forsætisráðherra sagði að það væri ekki ríkisstjórnin sem sæti við samningaborðið og hún ætli sér ekki að kasta eldivið á verðbólgubálið. Náist samningar muni hún hins vegar koma að málum. „Þannig að verðbólgu samningar bitna fyrst og fremst á þeim sem hafa lökustu kjörin og það að koma í veg fyrir verðbólgusamninga er fyrst og fremst til þess fallið að verja hag verja stöðu þeirra sem hafa lökust kjör í samfélaginu og það er fráleitt af stjórnarandstöðunni að gera lítið úr því vegna þess að um það snýst þetta, að verja stöðu þeirra sem hafa lökust kjörin í landinu,“ sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra.

Það þurfa aðilar vinnumarkaðarins og stjórnvöld að gera í sameiningu, sagði hann í desember, en nú er ríkisstjórnin ekki með sæti við samningaborðið, líklega hefur hún ekkert að gera með ríkisstarfsmenn.  Og millitekjuhópar eru allt í einu úr sögunni.  Það er ekki Sigmundar besta hlið að vera sjálfum sér samkvæmur.   Spurningin er hvort hann er yfirleitt maður til að leiða þjóðina og stjórnina á þessum erfiðu tímum.  

Engin ummæli:

Skrifa ummæli