föstudagur, 14. ágúst 2015

Það er enginn hlutlaus nema hóran ....

Nú eru allir reiðir, Gunnar Bragi átti að vita allt, og gera meira.  
Við áttum að vera stikkfrí, við erum svo litlir, litlir eiga að fá frí, enginn tekur mark á þeim. 
Og allir eru öskuillir, sumir vilja senda Forsetann strax af stað.  Aðrir hóta af flýja land.
 Líklega fengi maður ekki að sækja um það að vera pólitískur flóttamaður frá Íslandi. Við höfum það of gott, þótt við gætum búið við erfiðleika um sinn. 

Kunnur maður sagði eitt sinn þetta:  „Það að láta sig dreyma um að við íslendingar getum alltaf verið stikk-frí í heiminum, það er alger ímyndun. Þetta þýðir það aðeins að maður afsalar sér réttinum til að taka afstöðu. Það er enginn hlutlaus nema hóran. Og eins og ástand heimsmálanna er í dag væri algert glapræði að fara að segja sig úr NATO."

Margir eru sammála honum um þetta, en ekki ég, Eflaust er erfitt að vera hlutlaus, ég hef aldrei verið hlutlaus.  Og ég veit ekki hvað það hefur að gera með hóruna.  Þetta er skrítin líking.  Ég held að hóran sé sjaldan hlutlaus.  Hún/HANN  sér þessi afstyrmi fyrir framan sig sem vilja kaupa blíðu.  Þeir geta barið hana/hann  ef þeim sýnist, þeir geta dælt í hana/hann  peningum ef þeir vilja.  Margar eru myrtar, þær eru í þessu sambandi oftast í lokuðu herbergi.  Þiggja pening sem oftast hórumangari hirðir mest af.  Það hefur lítið að gera með hlutleysi. 

Það skiptir svo sem ekki máli hvernig við tókum þessa afstöðu með ESB/NATO, hvað á að gera þegar hinn stóri ætlar að níðast á þeim minni?  Eigum við að horfa á, er ekki eðlilegt að safnast saman og segja nei?  Það var gert í þetta skiptið, það verður margt erfiðara, nú bitnar það á okkur.  Það sýnir okkur ef til vill að viðskipti snúast um meira en vörur og fjármagn, þau snúast meira um að drottna.  Lærdómurinn er að við þessir litlu eigum að halda saman, reyna að styrkja hvert annað, eðli hinna stóru er að gleypa.  

 


Engin ummæli:

Skrifa ummæli