sunnudagur, 31. janúar 2016

Billy Elliot og íslenska leiklistarvorið


  

Fórum á Billy Elliot í gærkvöldi (laugardaginn 30. janúar) , það var frábær skemmtun.  Það er gaman að sjá hversu leikhúsin eru orðin fjölskylduskemmtun. Þar sem heilu fjölskyldurnar mæta, fra 5 ára til níræðs.  Hve íslensku leikhúsin eru búin að ná valdi á þessum stóru sýningum þar sem reynir á tæknikunnáttu, listfengi í leik, tónlist, leiksviðs og búningagerð.  Nú eru bæði Billy Elliot og Hrói Höttur sem er stóru fjölskyldusýningarnar og Lína langsokkur eru búin að ganga í mörg ár stórgóð sýning til að koma yngri kynslóðinni á bragðið.  Sá 5 ára í minni fjölskyldu sat bergnuminn allan tímann í gærkvöldi, fylgdist með öllu, skyldi líka allt, áttar sig á þegar móðir Billys birtist í hugsun stráksins.  Ekkert mál. Ótrúlegt að sjá hversu hægt er að þjálfa upp krakka og ungt fólk.  Strákurinn sem lék Billy, þvílík færni í dansi, fimleikum og leik.  Studdur af eðalleikurum umhverfis sig, Jóhann, Sigrún Edda, Halldór, ásamt yngri fólki sem ég kann ekki nafnið á,  og síðast en ekki síst Halldóra Geirharðsdóttir

Líklega erum við mesta leikhúsþjóð heims um þessar mundir (eins og Sigmundur Davíð myndi segja) .  Leiksýningar gefa ekkert eftir sýningum í nágrannalöndum okkar.  Ég hef séð nokkrar sýningar í Þýskalandi og Svíþjóð.  Okkar eru ekkert síðri.  Bæði með tilliti til tækni og listfengis.  Útrás leiksviðsmanna er í fullum gangi.  Þetta er eitt af því sem Framsóknarmenn og Sjálfstæðismenn vilja skera niður með listamannalaununum.  Greinar sem skaffa þúsundum atvinnu.  Það á ekki að styrkja listir af hinu opinbera. Allir eiga að fara inn í Þungaiðnaðar verksmiðjurnar þar sem boðið er upp á billegt rafmagn á kostnað okkar svo að útlendir auðhringir getir notað okkur. Það kom mér á óvart hversu sýningin var pólitísk og íslenskir ráðamenn gætu tekið til sín ýmislegt sem fjallað er um í þessri sýningu.  Þannig er Ísland í dag.

Takk fyrir mig í vetur, ég vildi komast á fleiri sýningar en maður getur ekki allt á ellilaunum.

Mynd:  Af netsíðu Borgarleikhússin Sigrún Edda Björnsdóttir og Sölvi Víggósson Dýrfjörð, einn af þremur sem leikur Billy.

laugardagur, 30. janúar 2016

Kvikmyndir: Tveir meistarar kveðja Scola og Rivette

Tveir meistarar kvöddu heiminn seinustu vikuna:  Ítalski leikstjórinn Ettore Scola og Jacques Rivette sá franski, báðir á níræðisaldri.
Pictures & Photos from C'eravamo tanto amati (1974) PosterScola var nokkurs konar arftaki neórealismans ítalska, hann lærði hjá Vittorio de Sica, og blandaði allan sinn feril saman þróuninni í ítölsku þjóðfélagi við kaldhæðni og drama.  Margar af myndum hans urðu mjög vinsælar á Ítalíu en nokkrar náðu útbreiðslu um heiminn.  Sérstaklega Við sem elskuðum hvert annað svo mikið, þar sem fjallað er um þróun landsins frá seinni heimsstyrjöldinni  og fram til áttunda áratugs seinustu aldar með því að segja frá þremur vinum og örlögum þeirra í í blíðu og stríðu.  Mig minnir að hún hafi verið sýnd hér heima á sínum tíma. Ég sá hana í Svíþjóð á námsárum mínum, hún er klassíker, húmanístisk og kaldhæðin.   Önnur mynd sem náði heimsútbreiðslu var Einstakur dagur með Marcello Mastrioanni  og Sophia Loren, gífurlega góð mynd, þar sem lýst er einum einstökum degi í lífi húsmóður og samkynhneigðs manns sem eru heima í háhýsi meðan allir eru farnir til að taka á móti Hitler sem var í heimsókn hjá Mussolini 1938, ef ég man rétt.  Nóttin í Varennes var sýnd sem mánudagsmynd í Háskólabío, gerð í Frakklandi um flótta Lúðvíks XVI í frönsku stjórnarbyltingunni. Scola var hættur fyrir nokkkrum árum í kvikmyndum en sneri til baka í hitteðfyrra og grði heimildarmynd um Federico Fellini kollega sinn.  





Rivette var alltaf fyrir elítukvikmyndahópinn, hann var einn af hugmyndahöfundum Nýbylgjunnar frönsku og var í gegnum kvikmyndatímaritið Cahier de Cinema gífurlegur áhrifavaldur að endurmeta Hollywoodleikstjóra sem höfðu ekki vakið verkðskuldaða athygli og fékk vini sína François Truffaut, Jean-Luc Godard, Éric Rohmer, Claude Chabrol til að fara sjálfir að gera og stjórna myndum. Fyrstu myndir hans voru sýndar hérna heima í kvikmyndaklúbbum og sjónvarpi: Paris nous appartient, París tilheyrir okkur,  L'amour fou, La religieuse og Céline et Julie vont en bateau. Eina mynd hans sem náði mikilli útbreiðslu var La religieuse , Nunnan, sem var bönnuð í Frakklandi og varð skandall ársins. En það var sem ritstjóri Cahiers og hugmyndafræðingur sem hans verður minnst.  Við minnumst þeirra með hlýju.

La nuit de Varennes Poster