Nú er afmælisdagurinn orðinn einstaklingshátíðardagur á Fésbókinni. Í gær var minn dagur, 3. mars. Það var gaman að öllum afmæliskveðjunum í gær. Maður verður bljúgur og þakklátur. Þetta virðist vera siður sem á eftir að vera. Margt verra sem við gerum. Nú eru það
motturnar, í USA fara þeir eflaust bráðum að sýna mottur á öðrum stöðum líkamans, stjórnmálaforingjarnir.
En það er annað sem er okkur efst í huga, grimmd og sjálfhverfni tegundarinnar Homo Sapiens ........Það er svo stutt í það að stórir hlutar jarðarinnar verði óbyggilegir. Og við horfum á og hugsum eins og Lúðvík konungur, Apres moi, le Deluge (var það ekki svona). Eftirlifendur okkur, börn, barnabörn skipta þar engu máli. Allt sem skiptir máli er stundargróði, allt sem skiptir máli er ég, meðan aðrir flýja heimkynni sín í stríðum sem stærstu og ríkustu þjóðir heims komu af stað og geta ekki hætt. Það er of mikið í húfi fyrir svo marga frameiðendur, vopna, flugvéla, eiturs, skipa og svo framvegis. Svo oft fallast manni hendur, vonleysið tætir mann, þá varð þetta til:
Á JÖRÐU
okkar stund á jörðu okkar æviskeið
minning : Turner blindsól
Van Gogh himinn Hockney sveit
hlaðinn veggur kýr sem jórtra
einsamall bíll á ferð tré sem
dreymir regn og storm hlaupagarpar
á leið upp í móti hjartað hamast
vöðvarnir stynja æðarnar herpast
unaðsstundir minningar krot krotakrot
okkar stund ævistund það kvöldar
myrkur kvöl kvöldar
kveinraddir blóðgoggar brýndir
en
mig dreymir samt
Engin ummæli:
Skrifa ummæli