sunnudagur, 24. apríl 2016

Bernie Sanders og Helgi Hrafn.

Stóru tíðindin í forkosningum fyrir forsetakosningarnar í Bandaríkjunum hafa verið tvö:  Eitt er framgangur Bernie Sanders sem hefur komið fram róttækari stefnuskrá en áður hefur þekkst í þvísa landi.  Annað er hrun hinna hefðbundnu flokka, demókrata og repúblikana, sem
hafa ekki lengur það ofurvald sem þeir hafa haft.  Þannig að jaðarframbjóðendur Sanders og Trump, hafa hrist upp í valdaelítunni.  Lífið er allt í einu á öðrum nótum en áður hefur tíðkast.

Eins og Bernie segir: „Í Bandaríkjunum er ein lægsta kjörsókn allra ríkja í heiminum,“ sagði Sanders. „Okkur hefur tekist vel að ná til ungs fólks en í síðustu kosningum, árið 2014, tóku 80 prósent af þeim teljast undir fátæktarmörkum ekki þátt í kosningunum.“

Sanders segir að ef það takist að fá fátæka til þess að taka þátt í kosningum myndi það gjörbreyta hinu pólitíska landslagi.

„Ef okkur tekst að auka kjörsókn fátækra og ungs fólks, ef við náum 75 prósent kjörsókn í þessum hópum, munum við gjörbreyta Bandaríkjunum,“ sagði Sanders.

Í þessu fyrirmyndarlýðræðisríkis er kosningaþátttaka orðin langt undir öllu sem eðlilegt er.  Langt undir helmingur kjósenda sem kemur sér á kjörstað.  Mörg fylkin gera það eins erfitt og mögulegt er fyrir kjósendur að greiða
atkvæði.  Fólk þarf að skrá sig til að taka þátt í kosningum.  Fátækir sjá engan tilgang að taka þátt, það eru hinir ríku sem ráða ríkjum og ekkert fær breytt því. Loddarar eins og Trump og Heimsendaprédikarar hrista upp í fólki og rugla það svo það sér engan mun á því sem er heiðarlegt, sanngjarnt og eðlilegt.  Hinir auðugu þurfa að borga æ  lægri skatta,  að koma sér þaki yfir höfuðið er lúxus, og menntun verður sífellt dýrari, það er ekki fyrir hina efnaminni að komast í góða Háskóla sem skiptir máli í nútímaþjóðfélagi. 

Mér var hugsað til þessara orða Sanders þegar ég las ummæli Helga Hrafns í sambandi við skatta, hann sagði að Píratar hefuðu enga stefnu varðandi háa eða lága skatta: 

Helgi Hrafn Gunnarsson þingmaður Pírata segir það ekki vera stefnu Pírata að hækka skatta á þá launahærri í samfélaginu en það sé heldur ekki stefna flokksins að gera það ekki.

Stefna Pírata fjallar frekar um mál sem skipta alla máli: 

„…heldur til þess að setja fókus á undirliggjandi grundvallaratriðin í samfélaginu sem krefjast athygli bæði vinstra- og hægrifólks, og það er nauðsyn lýðræðisumbóta, vernd og útvíkkun borgararéttinda og þar fram eftir götunum,“
sagði Helgi Hrafn. Hann bætti við að stærri spurningar lægju fyrir í stjórnmálum heldur en hvaða flokkar ætli að gefa hinum eða þessum hópum mikla peninga;
Miklu áhugaverðari umræða heldur en hvort hitt eða þetta þrepið eigi að vera prómílum hærra eða lægra, er hversu auðvelt það er fyrir fólk að reikna það út; hversu vel það veit hvert skattarnir fari og hversu mikið það hafi að segja um hvert skattfé fari,
sagði Helgi Hrafn og bætti við:
„Þess vegna finnst mér ekki einu sinni meika sens að vera með sérstaka stefnu um það hvort það eigi að hækka eða lækka hitt eða þetta skattþrepið. Það hljóta að vera hin pólitísku markmið sem skipta máli og þá ber að færa upplýsingar og ákvarðanavald nær fólkinu, frekar en að fara í einhverja loforðasamkeppni um hver ætli að bjóða þessum eða hinum hópnum meiri peninga.“
Frekar eru þessar skoðanir Helga Hrafnis umhugsunarverðar, hvað er það sem hrjáir þau samfélög sem við getum borið okkur saman við?  Til hvers eiga stjórnmálaflokkar að færa sig nær fólkinu?  Er það ekki til að breyta því að örlítill hópur ríkismanna ráði orðið öllu í skjóli auðs og nota aðferðir eins og að fela fé sitt á fjarlægum eylöndum svo þeir þurfi ekki að taka þátt í samneyslu okkar. Eigum við að bíða og horfa á það sama gerast eins og í Bandaríkjunum, þar sem kosningar eru fyrir yfir og millistétt,  þar sem hinir snauðu fyllast örvæntingu og hatri og sjá ekkert framundan nema lokaðan heim í gettóum hinna fátæku. Eru ekki stóru spurningarnar skipting fjármagnsins og tiltrú fólks á stjórnmálamönnum og valdastofnunum?

Verða ekki stjórnmálamenn að tala skýrt um breytingu á samfélögum okkar þar sem allir leggja fram sitt af mörkum til að skapa líf sem býður upp á meiri jöfnuð en tíðkast í dag, með heilbrigðis, félags og skólakerfi fyrir alla? Ekki að eyða umræðunni  í óljósa hagfræði og hugmyndafræði.  Það þarf að ræða um peninga, það þarf að ræða frið, velferð og heiðarleika . Það þarf að ræða um samfélag fyrir alla. Þar sem allir eru þátttakendur og skapandi.  


Engin ummæli:

Skrifa ummæli