þriðjudagur, 19. apríl 2016

Forsetinn: Hvað er til ráða?

Það virðist hafa komið mörgum á óvart að Forsetinn vill sitja áfram á Bessastöðum á kostnað okkar. 
Þeir aftur á móti sem hafa þekkt hann um áratugaskeið eru ekki hissa.  Hann veit betur en flestir allt, hann er hrokafullur og sjálfhverfur,  hann vill ekki hreyfa við stjórnarskránni, hann vill ekki hætta á þeim tímapunkti þegar við minnumst hans sem Forseta sem stuðlaði að því að
ríkisstjórn xB og xD tók völd undir stjórn óskabarnsins SDG, barnið sem brást vonum flestra.  Enn einu sinni kom í ljós hve lítill mannþekkjari Forsetinn er. Því fór sem fór. Enn einu sinni enn, hljómaði frá Bessastöðum, hvort Hún var spurð veit ég ekki. Mótmælendur voru ekki spurðir, Þjóðin var ekki spurð, hvort 6. tímabílið ætti að eiga sér stað, Forsetinn kallaði þá ekki á sinn fund út á Álftanes.  Hann tók bara á móti Framsóknarmönnum. Hann sat úti á túni með 99% þeirra og fékk svarið sem hann vildi. Þetta var ánægjulegur og stórbrotinn Þjóðfundur sagði Forsetinn á blaðamannafundi.     

Hvað er þá til ráða?  Það er að kjósa annan mann (karl eða konu) til valda.  Svo einfalt. Forsetinn hefur hrakið burtu nokkra frambjóðendur, sem telja sig illa svikna.  Ef þjóðin kýs hann áfram þá er ekkert við því að gera, þannig er lýðræðið, stór hluti íslensku þjóðarinnar veit einu sinni enn ekki sinn vitjunartíma.  Hann er búinn að vera í 20 ár og skapa sér traust.  Ef hann verður ekki kosinn, þá ætlar hann að óska sigurvegaranum til hamingju og fara í ævinlangt frí, glaður og reifur (segir hann). Og við sem höfum ekki kosið hann sjáum tækifæri til þess að fá meiri breytingar á beinbrotnum íslenskum þjóðarlíkama, stjórnarskrá, fjármálakerfi, ganga milli bols og höfuðs á siðleysi athafnamanna og embættismanna.  Við viljum fá glaða og einbeitta stjórn þjóðkjörinna fulltrúa í næstu kosningum.  Sem þurfa ekki að feta hvert spor með annað augað á Bessastöðum hitt á Aflandseyju.

Enda er enginn að standa vakt með þjóðinni.




  

Engin ummæli:

Skrifa ummæli