föstudagur, 1. apríl 2016

Hringekja spillingar 3: Mannúð ríka fólksins

Gaman gaman þær skríða fram úr fylgsnum sínum, þið vitð hverjar, verurnar með halann. 
Þessar sem borga alltaf skattana sína og eru heiðarlegar, meira að segja í skattaskjólum eru þær ærlegar og trúar íslenskum yfirvöldum.  Datt nokkrum annað í hug!

Ég las með athygli grein Indriða H. Þorlákssonar um Skattaskjól og aflandsfélög í Kjarnanum.  Þar rekur hann uppruna og tilgang slíkra félaga.  Greinin er bítandi og hæðin á sinn þurra hátt.  Og rekur allt til baka sem íslensk valdastétt hefur látið hafa eftir sér seinustu daga, með rökum og upplýsingum.   Þar sem glæpir verða allt í einu að heiðarleika, gott ef ekki

mannúðarstarfsemi, líklega er íslensk valdastétt sú eina í heiminum sem er að halda uppi atvinnu í skattaskjólum og aflandssvæðum. Ekki gera þeir neitt sem yfirstéttir  gera í  öðrum löndum.  Að koma sér undan lögum og reglum sinna landa. Ó nei. Þeim datt bara öllum í hug að tilkynna eignir sínar núna.  Einmitt núna.  Og við eigum að trúa því.


Sá stóri hópur sem hóf þessa iðju á þessari öld gerði það ekki í góðgerðarskyni, hér var verið að ná sem mestum arði, gróða og sjá til þess að yfirvöld séu ekki að reka puttana niður í hítina þeirra.  Ef einhverjum dettur annað í hug þá er það algjör auli. Eins og ég. 

Hér fyrir neðan eru góðir bitar frá Indriða, þökk sé honum fyrir starf sitt, líklega værum við á öðru flökti ef hans hefði ekki notið við í Hruninu.  Hann þekkti sitt heimafólk af starfi sínu í íslenska embættis- og skattakerfinu.  Lesið grein hans  og berið saman í huganum það sem hefur verið troðið upp í kokið á manni af yfirvöldum, ráðherrum og valdsmönnum okkar seinustu daga.    

__________________________________________

 Úr grein Indriða:

Sterkríkir einstaklingar eru aðrir stórnotendur skattaskjóla. Með því að færa eignir sínar þangað geta þeir gengið svo frá hnútum að þeir komast hjá því að greiða skatta af tekjum af þessum eignum og viðskipti með þær eru huldar leynd. Þrátt fyrir skráninguna fer engin eiginleg starfsemi fram í þessum skattaskjólum. Féð er ekki fjárfest þar heldur í öðrum löndum þar sem meiri feng er að fá. Fjármálastofnanir og svokallaðir umsýslumenn eru ráðnir til að sýsla með fé að fyrirmælum eigenda þess. 

Hagræði af skattaskjólsfélagi felst í því sem aðgreinir það frá félögum utan aflandssvæða en það er eins og áður segir einkum þrennt. Skattleysi, leynd og ógagnsæi. Þar að auki má nefna það hagræði sem felst í því að vera laus undan ýmsum reglum sem gilda myndu um félagið og starfsemi þess væri það í heimalandi eigandans. Eitthvert þessara atriða eða þau öll saman eru eina rökræna skýringin á því að einhver velur það að stofna félag í skattaskjóli. Því fylgja engir aðrir viðskiptalegir kostir enda fer starfsemi félagsins og stjórn þess ekki fram í skattaskjólinu og það hefur í reynd engin raunveruleg tengsl við það.

Að lokum má nefna að eigendur félaga hafa ýmsar leiðir til að ná til sín tekjum úr þeim og ekki alltaf víst að tilgreint sé eða rétt farið með í skattalegu tillliti. Auk þess að greiða eiganda arð er algengt að honum sé greitt fyrir störf eða þjónustu við félagið. Um getur verið að ræða greiðslur fyrir stjórnunarstörf, ráðgjöf og skýrslugerð o.fl. Allur háttur er á hvaða leið slíkar greiðslur fara og hvort þær eru rekjanlegar til eigandans. Ein úttektarleið er að eigandinn hefur kreditkort á félagið undir höndum og notar það til að greiða persónulega neyslu, kaupir með því farmiða, gistingu og veitingar á ferðalögum, notar það til að greiða fyrir stórinnkaup og jafnvel til að greiða með í matvöruversluninni. Fyrir fáum árum komust sænsk skattyfirvöld yfir upplýsingar af þessum toga sem m.a. teygðu sig hingað til lands og sýndu að þetta er útbreitt.

Leynd og ógagnsæi er mikilvægt einkenni skattaskjóla. Leyndin felst í því að skráning félaga er ófullkomin, engar eða litlar kröfur eru gerðar um upplýsingar um eigendur og upplýsingar eru ekki veittar. Hlutabréf eru gefin út á handhafa en ekki nafn og nafnlausir reikningar leyfðir. Litlar eða engar kröfur eru gerðar um ársreikninga og skil á þeim. Afleiðingin er að erfitt eða ómögulegt er fá upplýsingar um eignarhald á félögum og hverjir séu raunverulegir eigendur þeirra, sjá umsvif þeirra og viðskiptatengsl og leggja mat á það sem fram kemur um þau í heimalandi eigandans t.d. ef hann lætur þeirra getið á framtali eða félagið kemir fram fyrir hans hönd í bankaviðskiptum o.fl.
Gerð ársreikninga skil á þeim og opinbert aðgengi að þeim er lögbundin í öllum þróuðum löndum. Hér eins og annars staðar innan EES svæðisins eru reglur um ársreikninga byggðir á tilskipun Evrópusambandsins og verða þeir að fylgja ákveðnum bókhaldsstaðli, vera skoðaðir af óháðum fagaðila og birtir almenningi með tilteknum hætti. Þessu fylgir kostnaður en þetta er talið nauðsynlegt til að tryggja samkeppni og heilbrigða starfsemi fyrirtækja og er skilyrði þess að viðskiptamenn fyrirtækja geti fengið þær upplýsingar sem þeir eiga rétt á og þarfnast. Engar slíkar reglur gilda um aflandsfélög sem staðsett eru í löndum utan EES svæðisins eða hafa sambærilegar reglur.
Leynd og ógsagnsæi er þannig “hagræði” fyrir eigandann umfram það eitt að “vernda” skattalegt hagræði.

Það er ekki bara í skattalegu tillliti sem erlend lögsaga hefur áhrif. Sama á við um gagnvart öðrum lögum. Þegar hefur verið minnst á lög um ársreikninga og á það einnig við um öll önnur lög sem lúta að eða snerta starfsemi félaga hér á landi. Þau lög eiga sér flest samsvörun í löggjöf annarra þróaðra ríkja. Því má segja að aflandsfélögin hafi haslað sér völl utan hins sameiginlega réttarfars sem þróast hefur og er við lýði á Vesturlöndum.
 

Engin ummæli:

Skrifa ummæli