mánudagur, 4. apríl 2016

Sigmundur Davíð: Skuldadagar



Dagurinn í gær var skrítinn, maður settist niður með doða og drunga, eftir að horfa á Forsætisráðherra koma í viðtal sem hann er „blekktur“ í , æðsti yfirmaður þjóðarinnar missir sig, verður frægur að endemum um allan heim.  Ég sá Sigmund Davíð í Arte, fransk þýskri sjónvarpsstöð í kvöld.  Þetta óraði mann ekki fyrir að sjá Putin, Assad og Sigmund Davíð saman á forsíðublöðum ótal blaða, það var eitthvað sem var óhugsandi, óraunverulegt.

Þegar ég vaknaði í morgun þá var ég sorgbitinn, horfði á forsætisráðherrann bruna á fund sinna manna sem virðast allir líta á hann sem leiðtoga þjóðarinnar eftir þessa útreið, meðvirknin skín af þeim.  Það var sorglegra en tárum taki.  Ætlar að halda áfram að vinna sín „góðu verk“ líklega í samvinnu við Sjálfstæðismenn. Sem þurfa að ræða við sinn formann ekki með hreint mjöl í pokanum.

Sigmundur Davíð, sigurvegari Hrunsins,  sem getur ekki gert grein fyrir sínum málum.  Málflutningurinn byggist á því að búa til möntru:  þetta var gefið upp til skatts.  Endalaust.  Þegar málið snýst ekki bara um það heldur ótal aðra hluti. Meira að segja í skattamálinu er enginn til staðfestingar um heiðarleikann nema þau hjónin sjálf.   Hann er kominn á stað í lífinu þar sem hann ræður ekki við atburðarásina.  Hingað til hefur hann fengið allt upp í hendurnar, hefur getað logið og sagt hálfsannnleik um ótal hluti,  nám, fjárhag, samband og hjónaband við milljarðamæring, faðirinn velefnaður fjármálamaður sem hefur alist upp í skjóli Framsóknarflokksins, fékk fjármuni á vafasaman hátt í skjóli Steingríms Hermannssonar og Jóns Baldvins Hannibalssonar. Dansaði í gegnum Hrunið með milljarða í höndunum.

En nú er komið að skuldadögum, ætlar hann að halda áfram blekkingaleiknum við sjálfan sig og aðra?  Á þjóðin að kveljast, verða að athlægi um allan heim. Ætlast hann til þess að flokkurin hans eigi að halda áfram að vera meðvirkur? Ætlar samverkaflokkurinn að dansa með?

Á þessi sorgarleikur engan endi að taka, því auðvitað er þetta dramatísk atburðarás sem við horfum á: Uppgangur, hrun og fall.  Ungi maðurinn sem kemst til æðstu metorða og sekkur í kviksyndi sjálfsblekkinga og örvæntingar.  En um leið er þetta ævintýrið hans H.C. Andersons um Nýju fötin keisarans.  Nú birtist hann okkur í allri sinni nekt.  Ælultlar hann að þramma áfram, allsnakinn um stræti borgarinnar? Ég vona ekki.

Ég er ekki léttur í lund.  Sorgir mínar eru þungar sem blý.  Mig langar ekkert að lifa með þennan raunveruleika á herðunum.  En .... ég skrölti á fundinn á Austurvelli, aldrei hef ég séð jafnmarga og jafnmikinn troðning.  Það eru ótal margir þúsundir. Tugir þúsunda sem er á sama máli og ég. Mér létti.

Það er komið nóg.  Við neitum að halda áfram að láta leika með okkur.  Við trúum ekki þessum valdamönnum lengur, þótt þeir biðji afsökunar.   Þetta eru ótíndir skálkar. Þeir eiga enga leið aftur í okkar veröld. 



Gullið



ískaldur glampi gullsins

glitfiðrildið  sem dregur okkur að



blindar













Engin ummæli:

Skrifa ummæli