mánudagur, 29. maí 2017

Ríkisstjórnin: Fyrstu önninni lokið

Nú lýkur fyrstu önn þessarar furðulegu ríkistjórnar.  Ekki er hægt að segja að allt hafi gengið hljóðalaust fyrir sig.  En ..... enn lafir hún og gerir það um sinn.  Ekki er neitt sem bendir til þess að hún hnígi út af.  Þrátt fyrir innri óróleika þá á hún eftir að hanga á því að kosningar eru ekki æskilegar í þeirra huga.  

Stóru málin eru þau sem lítið er unnið með.  
Heilbrigðismálin: Einkarekstur og fjársvelti
Menntamálin:  Ráðleysi í kjölfar mistaka Illuga, fjársvelti Háskólastigs, furðulegar hugmyndir Kristjáns ráðherra um breytingu á kerfinu, árás á vinsælan skóla, ætli þetta sé eitthvað framhald af vinnu Illuga?  
Ferðaiðnaðurinn, enn allt í lausu lofti.  Reynslulaus ráðherra, sterkir hagsmunaaðilar innan stóra flokksins.
Sjávarútvegur, allt í nefnd.  Ráðleysi Viðreisnar. 
Utanríkismál:  Heimurinn stjarfur vegna Trumps og Brexit. Guðlaugur Þór fylgist með úr fjarlægð en hefur enn ekki gert neitt slæmt.  

Sjálfstæðisflokkurinn lætur hina flokkana um erfiðleikana.  Forsætisráðherrann passar hagsmuni fjölskyldunnar og sjávarútvegsins og reigir sig í þröngum jakkafötum. Jón Gunnarsson æðir fram og aftur um Reykjanesbraut, frá Helguvík til Ártúnsbrekku.  Sigríður reynir að vera nýfrjálshyggjuvera í tækifærissinnaheimi Sjálfstæðisflokksins. Hún getur ekki verið talsmaður kynsystra sinna, þvi jöfnuður er ekki til í hennar heimi. 

Svo.... nú anda ráðherrar rólega fram að hausti. Stjórnarandstaðan á í erfiðleikum.  Píratar í sárum eftir seinustu kosningar.  Allt upp í loft í Framsókn, spillingarbangsinn á fullu, utan Alþingis.  Samfylkingin að rétta úr kútnum, heppin með formann sem átti aldrei að verða formaður.  Og það er skrítið að sjá Vinstri Græn verða stabílasta flokkinn, þar er ró og friður.  Þótt reynt sé að þyrla upp ryki um meint svik Steingríms og Björns Vals.  Formaðurinn situr í góðu búi, vinsæl og alþýðleg. 

Svo þetta verður gott sumar,  Bjarni fer til Flórída, Túristarnir streyma til landsins, Landinn streymir úr landi, við höfum ekki efni á að ferðast um okkar eigið land.  Svo kemur annar vetur, önnur vandamál, kannski langum meiri en við höfum áður þekkt. Við getum ekki neitt um það sagt.  Við fljótum að feigðarósi. 

Mér finnst að flestir ættu að lesa Eyland. 

   

Engin ummæli:

Skrifa ummæli