Líklega er vanþakklæti Íslendinga með endemum, eða hvað? Þeir kunna ekki að meta frábæra ríkisstjórn í brakandi góðæri! Nú kemur Bjarni og jarmar og krunkar um réttlætið sem eigi eftir að koma. Þegar fólkið í landinu sjái að sér. Allt sé í blóma og brátt muni sumarið heilsa með samhentri og fjörugri þjóð!
Hvernig stendur á því að ríkisstjórnarflokkarnir 3 eru með 33,4 prósenta fylgi og ríkisstjórin sjálf með 31,4 prósentu stuðning, er ekki kominn tími til að þeir fari í djúpa naflaskoðun og spyrji hvað er að? Sendi kafara lengst niður í naflann sem komi upp með sannleikann. Hvort þetta sé eðlilegt? Er ekki kominn tími til að horfa í spegil, horfast í augu við sjálf sig. Horfast í augu við þjóðina?
Er í lagi með ákvarðanatöku í
Heilbrigðismálum, Velferðarmálum, Umhverfismálum, Fiskveiðimálum, Atvinnumálum.
Framtíðarstefnu í stóru málunum um Gróðurhúsaáhrif og Jöklabráðnun og
hækkun Úthafanna. Stöðu okkar í heiminum?
Er í lagi að aðaláhersla sé að setja áætlanir um gjafir til vina og vandamanna Íhaldsins á auðæfum landsins. Meðan Viðreisn og Björt Framtíð sem eru að hverfa af yfirborði jarðar, fá að dingla í snörunni, meðan engir fjármunir eru ætlaðir til málanna sem fólkið í landinu setur efst á blað. Heilbrigði, Húsnæði, Félagskerfi, Vegaframkvæmdir,Menntakerfi. Það er eins og Óttarr og Benedikt hafi útrýmingarhvöt, vilji þurrkast út á mettíma. Fái nokkrar línur í sögunni neðanmáls. Kannski eru þeir bara á leiðinni inn í xD?
Er ekki kominn tími til að endurskoða vegferðina, segja: Aha, gerðum við þetta, eða efna til nýrra kosninga svo við fáum starfhæfa stjórn. Þetta er svo grátlega heimskulegt. Landið og þjóðin hafa upp á svo margt að bjóða.
Samkvæmt könnun MMR sem fram fór dagana 11-26. apríl 2017 mælist Sjálfstæðisflokkurinn með mest fylgi íslenskra flokka. Litlar breytingar urðu milli mælinga á fylgi stærstu flokkanna, Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna. Fylgi Sjálfstæðisflokks mældist nú 25,2% en það er 0,2 prósentustiga lækkun frá síðustu könnun sem lauk 13. mars 2017. Vinstri grænir mældust með næst mest fylgi eða 23,4% og er það eilítið lægra fylgi en í síðustu könnun þegar fylgið mældist 23,5%. Fylgi Pírata mældist nú 12,8% og er það lækkun um tæplega eitt prósentustig frá síðustu mælingu.
Fylgi Framsóknarflokks mældist nú 11,1% og mældist 11,4% í síðustu könnun.
Fylgi Samfylkingarinnar mældist nú 10,6% og mældist 8,8% í síðustu könnun.
Fylgi Viðreisnar mældist nú 5,0% og mældist 5,5% í síðustu könnun.
Fylgi Flokks fólksins mældist nú 3,2% og mældist 3,7% í síðustu könnun.
Fylgi Bjartrar framtíðar mældist nú 3,2% og mældist 5,0% í síðustu könnun.
Fylgi annarra flokka mældist 5,4% samanlagt.
Stuðningur við ríkisstjórnina lækkaði milli mælinga. Alls kváðust 31,4% styðja ríkisstjórnina nú samanborið við 34,5% í síðustu könnun
mbl.is
Engin ummæli:
Skrifa ummæli