miðvikudagur, 7. júní 2017

Framhaldsskólar: 25 ára og eldri og skólastyrkir

Ein af furðulegustu hugmyndum fyrrverandi Menntamálaráðherra var að skerða réttindi fólks 25 ára og eldri til náms í framhaldsskólum. Þetta hefur haft víðtækar afleiðingar eins og kemur fram í þingsályktunar tillögu Svandísar Svavarsdóttur og fleiri þingmanna í stjórnarandstöðu: 

Afleiðingar þessarar pólitísku ákvörðunar sáust berlega í svörum mennta- og menningarmálaráðherra við fyrirspurnum Oddnýjar G. Harðardóttur á 144. löggjafarþingi (þskj. 533) og 145. löggjafarþingi (þskj. 492) en þar kom fram að á milli áranna 2014 og 2015 fækkaði nemendum 25 ára og eldri um 742 í framhaldsskólum landsins. Þar af fækkaði bóknámsnemendum um 447 og verknámsnemendum um 295. Þessi þróun er afleiðing þeirrar ákvörðunar ríkisstjórnarinnar að hætta að greiða með þessum nemendum.

Greinarhöfundur var Grunn- og framhaldsskólakennari um áratugaskeið.  Þar var einn mesti gleðigjafimi fá aftur inn í skólana fólk oft komið á miðjan aldur sem hafði ekki haft tækifæri til að halda áfram námi og ljúka stúdentsprófi eða verknámi.  Þetta fólk var oft toppfólk í námi og kom sjálfum sér oft á óvart með frábærri frammistöðu.  Ég sé fyrir mér svipinn á andlitum þeirra þegar þau virtu fyrir sér árangur sinn sem var svo miklu betri með auknum þroska og ábyrgð.  En fyrrum menntamálaráðherra datt það í hug, eða ráðgjöfum hans, að loka þessari leið og fækka nemendum í framhaldsskólum um  7 til  800, nemendur eldri en 25 ára. Það er því ótrúlegt að framfarasinnuðum þingmönnum geti dottið nokkuð annað í hug en að breyta þessu þegar þing kemur aftur saman í haust.  

Annað mál sem tillaga þyrfti að koma fram um er verulegur námsstyrkur fyrir þá sem þurfa að sækja framhaldsskóla fjarri heimahögum og eiga ekki kost á að dvelja í heimahúsum hjá foreldrum eða ættingum.  Ég sá þegr ég bjó úti á landi í 15 ár að aðstöðumunur hjá nemendum var gífurlegur og fjöldi nemenda hrökklaðist úr námi vegna efnahags.  Og ekki er sá kostur betri í dag þegar námið hefur verið stytt um ár sem leiðir til meiri álags í námi og minni tækifæra að stunda vinnu með námi. Þegar ég kenndi lífsleikni á Unglingstigi datt mér í hug að fá nemendurna til að reikna út hve einn vetur í skóla kostaði fjarri heimili.  Ég man hve þau urðu hissa þegar allur kostnaður hafði verið reiknaður og það voru þau sjálf sem leituðu eftir þessum upplýsingum um skólakostnað, fæði og neyslu.     

Tillagan er svona í heild:


146. löggjafarþing 2016–2017.

Prentað upp.

Þingskjal 525  —  395. mál.

Flutningsmenn.




Tillaga til þingsályktunar

um að öllum nemendum verði tryggð skólavist í framhaldsskólum.

Flm.: Svandís Svavarsdóttir, Einar Brynjólfsson, Þórunn Egilsdóttir, Oddný G. Harðardóttir.

    Alþingi ályktar að fela mennta- og menningarmálaráðherra að tryggja öllum sem þess óska og uppfylla almenn skilyrði skólavist í framhaldsskólum óháð aldri.

Greinargerð.
    Í október 2014 ákvað þáverandi ríkisstjórn að hætta að borga fyrir bóknám 25 ára og eldri nemenda í framhaldsskólum landsins. Þáverandi mennta- og menningarmálaráðherra tilkynnti að þetta væri gert til að hækka framlög á hvern nemanda og eldri nemendur gætu nýtt sér önnur menntaúrræði. Þessi ákvörðun var tekin með breytingum í fjárlögum en ekki með sérstakri lagabreytingu og hlaut þessi grundvallarstefnubreyting því ekki næga pólitíska umræðu.
    Um var að ræða verulega stefnubreytingu í menntamálum. Í gildi er reglugerð þar sem gert er ráð fyrir því að ákveðin forgangsröðun gildi við innritun nemenda. Þar hafa t.d. nemendur sem innritast á starfsbrautir fatlaðra ákveðinn forgang, þeir sem eru að hefja framhaldsskólanám að loknum grunnskóla hafa forgang á þá sem eru orðnir eldri og svo framvegis. Þegar þessi reglugerð var sett fylgdi þó sögunni að öllum nemendum væri tryggð skólavist í framhaldsskóla. Ekki væri hins vegar hægt að tryggja að allir kæmust í þann skóla sem þeir settu efst á blað og því væri eðlilegt að hafa einhverjar forgangsreglur.
    Það að kippa hreinlega burt einum hópi nemenda með ákvörðun í fjárlögum um að fækka nemendum í framhaldsskólum og hætta að greiða fyrir bóknám þeirra sem náð hafa 25 ára aldri er sérstök pólitísk ákvörðun sem hefur ekkert með forgang nemenda við innritun að gera þó að ráðherra og stjórnarþingmenn hafi haldið öðru fram.
    Afleiðingar þessarar pólitísku ákvörðunar sáust berlega í svörum mennta- og menningarmálaráðherra við fyrirspurnum Oddnýjar G. Harðardóttur á 144. löggjafarþingi (þskj. 533) og 145. löggjafarþingi (þskj. 492) en þar kom fram að á milli áranna 2014 og 2015 fækkaði nemendum 25 ára og eldri um 742 í framhaldsskólum landsins. Þar af fækkaði bóknámsnemendum um 447 og verknámsnemendum um 295. Þessi þróun er afleiðing þeirrar ákvörðunar ríkisstjórnarinnar að hætta að greiða með þessum nemendum.
    Eftir efnahagshrunið varð veruleg ásókn eldri nemenda í framhaldsskóla sem höfðu þá jafnvel misst atvinnu og vildu nýta tækifærið til að ljúka námi á framhaldsskólastigi. Um þetta var búið í sérstöku verkefni stjórnvalda, skólanna og aðila vinnumarkaðarins sem kallaðist Nám er vinnandi vegur. Þar kom berlega í ljós að skólarnir þjónuðu fólki á öllum aldri og skipti þetta verkefni sköpum fyrir marga. Það skaut því skökku við að loka skólunum fyrir eldri nemendum. Haldbær rök fyrir þeirri ákvörðun hafa hvergi komið fram eða mat á áhrifum, svo sem á menntunarstig þjóðarinnar eða á möguleika einstaklinga á að bæta stöðu sína með aðgengi að námi á framhaldsskólastigi.
    Þessi ákvörðun var því grundvallarstefnubreyting í þá átt að loka íslensku menntakerfi, draga úr hlutverki framhaldsskólanna og torvelda eldri nemendum að sækja sér menntun og þau tækifæri sem henni fylgja. Ákvörðunin hefur verið harðlega gagnrýnd allt frá árinu 2014 og nú liggur fyrir að a.m.k. einn ríkisstjórnarflokkur hefði viljað breyta um stefnu og tryggja á nýjan leik að allir fengju skólavist í íslenskum framhaldsskólum. Meiri hluti Alþingis getur sýnt þennan vilja með því að samþykkja þessa tillögu og tryggja um leið að öllum nemendum verði tryggð skólavist í framhaldsskólum óháð aldri og að þeim fylgi fjármagn.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli