Ég hef nú aldrei
verið neinn Wagneraðdáandi. Ég er ekki í
klúbbnum sem dýrka hann, ekki í Wagnervinafélaginu, hleyp ekki til þegar
einhvers staðar eru Wagner í bíó eða fjölmiðlum. Það breytir því ekki hinsvegar að mér finnst
ýmislegt eftir Wagner fallegt og tignarlegt og einstakt.
En líklega hef ég
ekki þolinmæði til að sitja yfir 5 tíma verkum hans. Og hugmyndir hans og hugsanir í textum sínum
en hann samdi þá sjálfur, eru ekki fyrir mig.
Einhver blanda af rómantík, miðaldahyggju, trú og þjóðrembu. Sem leiddu til náinna tengsla seinna við
Nazismann sem ekki er þó hægt að kenna Wagner um.
Svo á hann 200 ára
fæðingarafmæli. Þá er tilvalið að halda
vel upp á það út um allan heim. Þannig
er gert með stórmenni. Vorblótið Stravinskys er 100 ára gamalt. Vitað er um 500
flutninga á því í ár. Ég sá hluta af uppsetningu í Metropolitan
óperunni af Parsefal fyrir nokkrum dögum í norska sjónvarpinu þar voru
stórstirnin Jonas Kaufmann (sem við sáum í Hörpunni í fyrra) og Renee Pape, í
magnaðri uppsetningu. Fyrir nokkrum
áratugum upplifði ég í Óperunni í Stokkhólmi, Meistarasöngvarana í Nürnberg,
þetta var mikið ævintýri og hléin voru mörg og boðið upp á kaffi og kanelsnúða
ókeypis í hléunum!!! Svo er Verdi líka 200 ára, kannski verða heilir tónleikar
í haust....
Svo er komið að
Sinfoníuhljómsveit Íslands. Sem bauð upp
á heilan konsert með Wagnerverkum, undir stjórn Petri Sakaari, Íslandsvinarins
ágæta. Og Bjarni Thor Kristinsson þandi rödd
sína eins og honum einum er lagið. Þetta
voru magnaðir tónleikar fyrir mig. Við
fengum öndvegis forleiki Tannhäuser sem allir þekkja (pílagrímskórinn
innifalinn, þessi sem Ríkisútvarpið bannaði forðum í flutningi Trúbrots á þeim
dögum þegar ýmislegt var bannað og enginn fékkst um það annað dæmi var Pétur
Gauts syrpa Duke Ellington) Parsifal,
forleikinn að 1. þætti, svo var Valkyrjureiðin sem eiginlega er búið að gera að
klysju með notkuninni í Apocalypse now, Dagrenningu úr Ragnarök, svo loksins
Tristan og Isold, forleikinn að 1. þætti og Ástardauða Ísoldar. Allt var þetta flott flutt og salurinn sýndi
hversu magnaður hann er, að heyra hornahljóma og blásara og alla sveitina í
öllu sínu veldi er nokkuð sem er ógleymanlegt.
Og Bjarni söng kafla úr Hollendingnum fljúgandi, Parsifal og Tristan og
Ísold. Hann náði mesta fluginu í
seinasta verkinu og sýndi sína dramtísku hæfni þar enda myndaði flutningurinn
þar eina heild sem skilaði sér best. Fögnuður var gífurlegur í lokin enda einir
best heppnuðu tónleikar vetrarins að mínu mati.
Ég hef verið að hlusta á nýjan disk Jonas Kaufmann með Wagner tónlist: Kaufmann Wagner. Ágætis diskur sem hefur fengist í Tólf tónum.
Svo óska ég öllum tónlistarunnendum góðs og ánægjulegs sumars.