Mikil er skömm Kaþólsku kirkjunnar, hér, sem annars staðar. Fyrir ekki löngu síðan kom „úrskurður" hennar útaf ofbeldi kynferðislegu, andlegu og líkamlegu. Á Mbl.is er frásögn eins þolandans, átakanleg og dæmigerð:
Ég hef óskað eftir hjá lögfræðingi kirkjunnar að fá í hendur mat Fagráðs kaþólsku kirkjunnar á vitnisburði mínum og hvernig það kemst að þeirri niðurstöðu að ég eigi að fá 82.170 kr. í bætur.
Upphæðin er „afar skammarleg og fram úr hófi hneykslanleg,“ svo ég noti orðalag sem Pétur Bürcher Reykjavíkurbiskup notar í bréfi sem hann sendi mér þegar hann lýsti afstöðu sinni til brotanna. Það er líka mjög einkennilegt að í bréfinu sem lögmaður kirkjunnar sendi okkur er hvergi nein upphæð tilgreind.
Kaþólska kirkjan fær á hverju ári um 8.400 krónur frá íslenska ríkinu sem eru skráðir í kaþólsku kirkjuna, en safnaðarmeðlimir eru um 11 þúsund. Það gerir um 92 milljónir á ári sem kirkjan fær frá ríkinu í sóknargjöld. Kaþólska kirkjan safnar peningum í gegnum heimasíðu sína, en þar er fólk hvatt, á nokkrum tungumálum, til skrá sig í gegnum Þjóðskrá. Síðan er okkur, sem höfum mátt þola ofbeldi af hálfu starfsmanna hennar, boðið upp á þessar smánarbætur.
Allt er þetta í samræmi við framgöngu Kaþólsku kirkjunnar í öðrum löndum. Það er engin iðrun, ekkert samband haft við þolendur, allt á sömu bókina lært, það er endanlegt svar sem sent er öllum, og 30 silfurpeningar eða minna fylgja. Kaþólska kirkjan ber ekki ábyrgð á sínu starfsfólki eða stofnunum.
Í kjölfarið skipaði biskup Kaþólsku kirkjunnar á Íslandi s.k. fagráð til að meta bótarétt þolenda. Niðurstaða fagráðsins, sem tilkynnt var í síðustu viku, var sú að kirkjan teldist ekki skaðabótaskyld nema í einu máli af 17 sem komu inn á borð til þeirra. Sama dag tilkynntu stjórnendur Kaþólsku kirkjunnar að „endanlegt svar“ hefði verið sent til þessara 17 aðila.
Það er ekki furða þótt sorg sæki að mörgum á ferð um Landakot. Það á enginn Jesús Kristur heima þar.
Fréttatilkynning 15. nóvember 2013
Fagráð Kaþólsku kirkjunnar á Íslandi hefur tekið til greina 10 kröfugerðir vegna
kynferðislegrar misnotkunar (á árunum 1959 til 1984) gegn presti og kennslukonu,
en þau eru bæði látin. Einnig bárust fagráðinu 6 aðrar kröfugerðir gegn þeim vegna
andlegs eða annars ofbeldis. Ein kröfugerðin varðaði kynferðisleg samskipti tveggja
fullorðinna einstaklinga.
Allir sem sendu inn kröfugerðir hafa haft formlegt tækifæri frá árinu 2010 til að koma
máli sínu á framfæri við þær tvær óháðu nefndir sem Kaþólska kirkjan setti á stofn
og enn fremur við biskupinn. Þeim var lofað að þeim yrði sent endanlegt svar í
síðasta lagi 15. nóvember 2013. Í bréfi sínu til þeirra í gær segja stjórnendur
Kaþólsku kirkjunnar á Íslandi að hugur þeirra leiti til fórnarlambanna persónulega og
til fjölskyldna þeirra. Eins og páfar og biskupinn hafa margítrekað gert, tjá yfirvöld
Kaþólsku kirkjunnar á Íslandi viðkomandi dýpstu hluttekningu sína vegna þess sem
gert hefur verið á þeirra hlut og biðja fórnarlömbin fyrirgefningar á því.
Yfirstjórn Kaþólsku kirkjunnar á Íslandi hefur gert allar nauðsynlegar ráðstafanir
hvað snertir fortíð sem framtíð (sjá um forvarnarráðstafanir á www.catholica.is).
Þessar ráðstafanir eru í samræmi við sömu verklagsreglur og tíðkast hjá Kaþólsku
kirkjunni um allan heim, og eru í samræmi við íslensk lög. Þær niðurstöður sem
Fagráð Kaþólsku kirkjunnar hefur komist að hefur stjórn Kaþólsku kirkjunnar nú
með formlegum og ákveðnum hætti sent skriflega í gær sérhverjum þeim sem sendi
inn kröfugerð.
„Að áliti fagráðs er kaþólska kirkjan ekki bótaskyld“, í öllum tilvikum nema einu,
sem einnig er fyrnt eins og öll þessi tilvik. Enn fremur segir í niðurstöðukafla skýrslu
fagráðsins (í sérhverju máli): „Kæmi til greiðslu af hálfu kirkjunnar engu að síður væri
það að mati fagráðs umfram lagaskyldu.“
Reykjavíkurbiskupsdæmi hefur síðustu þrjú ár varið miklum tíma, vinnu og orku í
þessi mál og hefur af sjálfsdáðum lagt áherslu á að komast til botns í þessu erfiða
máli með hlutlægni og vandvirkni að leiðarljósi. Stjórnendur Kaþólsku kirkjunnar
hafa gert sitt besta til að leiða málið til lykta og veitt öllum aðilum; nefndum,
yfirvöldum og þolendum reglulega allar tiltækar upplýsingar um málið. Allar
ráðstafanir sem nú verða gerðar gerir Kaþólska kirkjan af fúsum og frjálsum vilja,
sem felur þó ekki í sér viðurkenningu á bótaskyldu samkvæmt íslenskum lagareglum,
hvorki beinni né óbeinni.
Eingöngu verður tekið á móti skriflegum fyrirspurnum vegna þessara mála á netfanginu tengilidir@catholica.is
Með þessum aðgerðum staðfesta kaþólsk kirkjuyfirvöld endanleg lok þessara erfiðu
mála. Á undanförnum árum hefur í forvarnarskyni allt verið gert sem í mannlegu valdi
stendur til þess að koma í veg fyrir hvers konar misnotkun í framtíðinni. Kirkjan er
að auki ætíð reiðubúin að veita þjónustu og sálusorgun öllum þeim sem þess óska
enda er það hlutverk hennar.
Pétur Bürcher Séra Patrick Breen Séra Jakob Rolland
Reykjavíkurbiskup staðgengill biskups kanslari