Ræður Alþingis eru birtar á vef þess. Hér sjáið þið orðaskiptiSigmundar Davíðs og Katrínar Júlíusdóttur. Sem eru ansi dapurlegar eftir að hafa fylgst með umræðunni seinustu daga: Ég hlustaði á Bjarna Ben. á sunnudag lýsa því yfir að lækkaðar yrðu vaxta- og barnabætur svo og þróunaraðstoð. Hér. Á mánudegi var sagt frá tillögum um þetta í hádegisútvarpinu í fjárlaganefnd (viðtal við Vigdísi Hauksdóttur í morgunútvarpi): Hér. Svo segir forsætiráðherra að háttvirtir þingmenn vaða í villu og reyk og notar útúrsnúninga til þess. Það er því ekki furða þótt fólk beri saman stjórnmálasiðferði í Danmörku þar sem ráðherrar segja af sér ef upp kemst um ósannsögli. Lygi virðist vera sjálfsagður hlutur í íslenskum stjórnmálum.
Sigmundur sagði á Alþingi.
Virðulegur forseti. Ég hef skilning á því að hæstv. forseti skuli sýna hv. þingmönnum skilning og leyfa þeim að lýsa áhyggjum sínum hér undir liðnum um fundarstjórn forseta, en ég vil þá nota tækifærið undir þeim lið til að láta virðulegan forseta vita af því að áhyggjur þingmanna eru algerlega áhyggjulausar.
Það eina sem hefur gerst hér er að hv. þingmönnum hefur verið bent á að einhverjar getgátur þeirra hafi ekki reynst réttar. Auðvitað hafa menn velt ýmsu fyrir sér undanfarnar vikur og mánuði við fjárlagavinnuna en þegar hv. þingmenn ætla að fara að æsa sig yfir einhverju sem þeir eru að geta sér til um að verði niðurstaðan og þeim hefur verið bent á að sú sé ekki raunin þá eðlilega leiðréttum við það. Ég tala nú ekki um þegar hv. þingmenn fara að halda því fram að breytingar, t.d. breytingar á framlögum til þróunarmála sem núverandi ríkisstjórn mun líklega standa fyrir, þeir gefa sér það, sé eitthvað sem síðasti meiri hluti hafi aldrei gert þrátt fyrir að sá meiri hluti, síðasta ríkisstjórn, hafi gert einmitt það og meira til, skorið miklu meira niður til þróunarmála 2010, 2011 og 2012, þá er eðlilegt að benda mönnum á að þeir fara ekki með rétt mál.
Katrín Júlíusdóttir svaraði:
Virðulegi forseti. Hæstv. forseta er nokkur vorkunn vegna þess að það að vera með forsætisráðherra sem stýrir umræðum um stjórnmál eins og hann gerir hér, hefur forgöngu um að gera lítið úr öðrum stjórnmálamönnum og því sem þeir segja í ræðustóli með því að gefa í skyn að þeir fari endalaust aftur með rangt mál er fyrir neðan allar hellur.
Hæstv. fjármálaráðherra kom inn á það í fjölmiðlaviðtali á sunnudaginn að lækka ætti tillögur til vaxtabóta og barnabóta — Hæstv. fjármálaráðherra. — Fer hæstv. fjármálaráðherra með rangt mál?
Virðulegi forseti. Formaður fjárlaganefndar sagði nákvæmlega það sama um þróunaraðstoðina, barnabæturnar og vaxtabæturnar í löngu viðtali sem ég sat með henni í gærmorgun. Hún sagði það stefnu ríkisstjórnarinnar og þetta var rætt á föstudaginn. Og að sitja svo hér undir því aftur og aftur og aftur að við stjórnmálamenn, aðrir en hæstv. forsætisráðherra, förum sýnkt og heilagt með rangt mál er óþolandi. (Forseti hringir.) Ég fer fram á að hæstv. forseti grípi í taumana og kenni mönnum mannasiði og kenni (Forseti hringir.) mönnum umburðarlyndi og þolinmæði fyrir því að mæta gagnrýnum skoðunum. (feitletranir mínar)
Annar ráðherra sem hefur valdið mér vonbrigðum er Eygló Harðardóttir í framgöngu sinni um desemberuppbót fyrir atvinnulausa (nú er rætt um atvinnuleitendur, ætli verði bannað að tala um atvinnuleysi?). Ég hef hlustað á hana þrisvar segja það sama, að fyrrverandi ríkisstjórn hafi misreiknað atvinnuleysi og því hafi of litlir fjármunir farið í þennan málaflokk og það séu engir peningar til. Gott og vel. Það er aldrei hægt að reikna upp á krónu fjölda atvinnulausra og því hlýtur núverandi ríkisstjórna að verða að taka málið yfir. En nú hefur ríkisstjórnin setið í hálft ár og því hefur Eygló haft tíma til að velta fyrir sér fjármögnun desemberuppbótarinnar.
Það er í samræmi við samstarf xD og xB að rífa niður allt sem vinstri stjórnir hafa komið á til bættra kjara fyrir þá sem ekki hafa mikið á milli handanna fyrri ríkisstjórn sá til þess að þessi desemberuppbót var tekin upp. Það er engin sæla að vera á atvinnuleysisbótum. Þingmenn xD og xB virðast fyrirlíta þá sem eiga í erfiðleikum þeim er gert að lifa á eins erfiðan hátt og hægt er, fátækt er böl og því er í siðaðra manna samfélagi sjálfsagt að reyna að gera þeim lífið léttara, að fjölskyldur og einstaklingar hafi smáuppbót í þessum erfiðasta mánuði ársins, jólamánuðinum. Þetta litla dæmi sýnir það. Að nota útúrsnúninga til að koma í veg fyrir afgreiðslu þessa máls, sem ætti að hafa komið í fjáraukalögunum, 240 milljónir, ég hafði búist við öðru frá Eygló Harðardóttur að taka þátt í skollaleik Vigdísar Hauks og annarra Teboðsþingmanna. Nú verða atvinnulausir að bíða milli vonar og ótta hvort að meirihluti fjárlaganefndar þóknist að setja þennan lið inn fyrir 3. umræðu.
Þetta er sorglegt. Þetta er mannfjandsamlegt. Að níðast á þeim sem hafa það erfiðast í okkar samfélagi.