föstudagur, 28. mars 2014

Ríkið hefur tækin; sagði Sigmundur Davíð

Það er ýmislegt látið flakka um lagafrumvörp ríkisstjórnarinnar um þessar mundir, en fáir minnast á það hvers vegna forsætisráðherra æði ekki í kröfuhafa eins og hann talaði um í kosningabaráttunni.  Hann tekur helminginn af þessu fé með skattheimtu sem gefur undir fótinn hugtakinu að fá með einni og borga með annarri.  Málið er að spurningin um kröfuhafa var alltaf blekking.  Ráðgjafar SDG hljóta að hafa vitað að það væri ómögulegt að ætla að koma fé frá þessum aðilum sem eiga þessa peninga, það eru margir Íslendingar sem eru kröfuhafar.  Svo það er almenningur sem borgar helminginn.  Það finnst mér röng aðferð, ég hef líka alltaf verið skeptískur á þessa almennu leið.  Þótt ég hafi verið þeirrar skoðunar að þeir sem hafa lent í stórhremmingum hefðu átt að fá leiðréttingu. það hefði átt að taka einn og einn og skoða og hafa ekki málið í höndum bankanna.  

Hér er útdráttur RÚV úr viðtalinu hér að neðan. SDG neitaði aldrei 300 milljörðunum þar, og fé kröfuhafa átti að renna til heimilanna, ekki almenn skattaleið!


Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, segist geta ábyrgst að það fé sem ríkið fær í sinn hlut í samningum við kröfuhafa föllnu bankanna verði nýtt til að koma til móts við heimilin. Þetta sagði Sigmundur Davíð í þættinum Forystusætið, sem sýndur var á RÚV í kvöld.
Ríkið getur þrýst á um samninga
Ástæða þess að Framsóknarmenn treysta sér til að tala með svo skýrum hætti um það fjármagn sem þarna verði til er að svigrúm verður að myndast, annars verði ekki samið. Kröfuhafarnir vilja losna héðan út, segir Sigmundur Davíð, og ríkið hefur tækin sem þarf til að þrýsta enn frekar á um samninga, bætir hann við og vísar í skattlagningarvaldið og löggjafarvaldið. Ef ekki nást samningar fljótlega getur ríkið sett smátt og smátt meiri þrýsting á kröfuhafana, ekki bara þrýsting heldur gæti það líka gengið svo langt að setja gömlu bankana í þrot og þeir yrðu þá gerðir upp í samræmi við lög.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, segist geta ábyrgst að það fé sem ríkið fær í sinn hlut í samningum við kröfuhafa föllnu bankanna verði nýtt til að koma til móts við heimilin. Þetta sagði Sigmundur Davíð í þættinum Forystusætið, sem sýndur var á RÚV í kvöld.
Ríkið getur þrýst á um samninga
Ástæða þess að Framsóknarmenn treysta sér til að tala með svo skýrum hætti um það fjármagn sem þarna verði til er að svigrúm verður að myndast, annars verði ekki samið. Kröfuhafarnir vilja losna héðan út, segir Sigmundur Davíð, og ríkið hefur tækin sem þarf til að þrýsta enn frekar á um samninga, bætir hann við og vísar í skattlagningarvaldið og löggjafarvaldið. Ef ekki nást samningar fljótlega getur ríkið sett smátt og smátt meiri þrýsting á kröfuhafana, ekki bara þrýsting heldur gæti það líka gengið svo langt að setja gömlu bankana í þrot og þeir yrðu þá gerðir upp í samræmi við lög.

Getur ekki nefnt neina dagsetningu
Spurður að því hvort einhver trygging væri fyrir því að 300 milljarðar kæmu í hlut ríkisins við þessa samninga sagði Sigmundur Davíð að ef niðurstaðan yrði ekki ásættanleg væri ekki hægt að ljúka samningum. Þá yrði ríkið að beita þeim tækjum sem það hefði til að ná ásættanlegri niðurstöðu. Hann sagðist ekki geta nefnt neina dagsetningu um það hvenær hægt væri að ljúka samningum af þessu tagi en áréttaði að ríkið hefði tækin til að knýja samninga fram.
Heimilin eiga réttmæta kröfu
Heimilin eiga réttmæta kröfu á þessi þrotabú, sagði Sigmundur Davíð, því leiðrétta þyrfti forsendubrestinn. Bankarnir bjuggu til þær aðstæður sem leiddu til forsendubrestsins, verðfall krónunnar leiddi til þess að skuldir heimilanna hækkuðu með ófyrirséðum hætti umfram réttmætar væntingar, sagði Sigmundur Davíð.
Ekki farið í flata niðurfærslu
Ekki verður þó farið í flata niðurfærslu höfuðstóls eins og Framsóknarmenn lögðu til árið 2009. „Viðmiðunin hlýtur að vera forsendurbresturinn og þar hlýtur að verða að miða við annars vegar eðlilegar væntingar um verðbólgu, til dæmis verðbólgumarkmið Seðlabankans og svo hve mikið umfram það verðbólgan varð“, bætir Sigmundur Davíð við. „Sá sem tók lán í síðasta mánuði getur ekki vænst þess að fá jafn mikla leiðréttingu og þeir sem tóku lán 2006". "Við verðum nánast að líta á þetta eins og myntkörfulán sem voru dæmd ólögmæt, þar sem menn hafa þurft að rekja sig aftur til að finna niðurstöðu, við verðum að líta svo á að forsendubresturinn hafi verið ólögmætur“.
Gagnast öllum ef heimilin rétt úr kútnum
Spurður um það hvort færa ætti niður skuldir þeirra sem ekki væru í vandræðum með afborganir sagði Sigmundur Davíð að það myndi gagnast samfélaginu öllu ef íslensk heimili rétta úr kútnum. Þetta snúist líka um stöðu þeirra sem ekkert hafi verið gert fyrir til þessa.
Því fleiri atkvæði því sterkari samningsstaða
Sigmundur Davíð var spurður um orð margra Sjálfstæðismanna sem hafa sagt undanfarið að atkvæði greitt Framsóknarflokknum sé ávísun á vinstri stjórn.  „Atkvæði greitt Framsókn er fyrst og fremst atkvæði greitt þeirri stefnu sem við boðum. Því fleiri atkvæði sem við fáum því sterkari samningsstöðu fáum við til að ná því fram“. En getur Framsóknarflokkurinn hugsað sér ríkisstjórnarsamstarf með Sjálfstæðisflokki að loknum kosningum? „Við getum starfað með þeim flokkum sem átta sig á mikilvægi þeirrar forgangsröðunar sem við höfum talað fyrir“.






miðvikudagur, 26. mars 2014

Kjósendur eru í þeirra augum fífl........

Öðru hverju verður maður að hvíla sig á ráðherrum og þingmönnum. 

Annars yrði maður búinn að vera. 

Fyrirlitningin gagnvart almenningi er einstök.   Hvort sem talar Gunnar Bragi eða Birgir Ármanns, Ragnheiður Elín eða Illugi Gunnars. Kjósendur eru í þeirra augum fífl........ 

Ég slökkti á Kastljósi í kvöld. Þið vitið af hverju. 

Svo mættu þeir sjóðheitir formennirnir í dag og verða ennþá heitari á morgun. 

Höfuðstólarnir sem á að borga með skattpeningi. Ráðherrastólarnir sem gliðna í sundur.  

Enn er verkfall og þau verða fleiri.  

Grunnhugmyndirnar um lífið  eru oft svo merkilegar, hjá þeim öllum.  

Heimssýnin svo grunn, þekking á nágrannalöndum okkur ótrúlega götótt. Sýndarveruleikinn allsráðandi. 

Svo hvíld er góð.  Svo góð. 












laugardagur, 22. mars 2014

Gunnar Bragi: Next stop Kiev

Gunnar Bragi reynir að verða nýr Jón Baldvin:  Stekkur upp í næstu vél birtist á byltingartorginu í Kiev. Klyfjaður íslensku 
lambakjöti og íslensku (eða er það írskt) smjöri.  Spurning er hvort lýðurinn fagni. 

Framsóknarráðamenn reyna að skera fæðingarstrenginn við Forsetann.  Hann er farinn að herða að hálsinum.  Gunnar Bragi tekur fyrstu sjálfstæðu ákvarðanir sem ekki vekja kjánahroll.  Pútín hjálpar þeim að uppgötva hversu hún er heimskuleg hugmyndafræðin sem byggir á að hlaupa upp í faðminn á einræðisherra.  Sáuð þið kosningakassana á Krím?  Gegnsætt plast !!!!! Ég sá ekki kjörklefana. 

Margir vilja losa sig við faðmlag við Forseta okkar, Birgir Ármannsson fyllist skelfingu þega hann nálgast.  Og Bjarni Ben vill frekar faðma aðra.  

Bjarni ræddi við David Cameron


Þar eru á ferðinni harðorð mótmæli  gegn Pútín.  En er nokkuð annað að gerast?  En mótmæli?  ÖSE samþykkir að senda eftirlitsfulltrúa til Úkraínu, en sættir sig við að engir fulltrúar séu sendir til Krímskaga!!!! Sýnir þetta ekki einu sinni enn máttleysi Vesturlanda gegn Pútín?   Hvar er líklegast að minnihlutahópar séu ofsóttir en á Krím???  

Og Gunnar Bragi, blessaður sé utanríkisráðherrann okkar, vonandi að ferð hans til Kiev skili jákvæðu hjartalagi landsmanna á hans eigin landi til hans og stjórnarinnar.  Hann má ekki við meiri bömmer. Ef hann vantar ráðgjafa þá er ég til !!!!  

 












fimmtudagur, 20. mars 2014

Hornstrandaljóð: tileinkuð minningu Guðmundar Hallvarðssonar

Það er erfitt að missa vin til áratuga, það er enn erfiðara fyrir þau sem eru næst honum í fjölskyldu.  Maður er alltaf svo bjartsýnn að maður býst ekki við því að jafnaldri manns hverfi yfir móðuna miklu.  Foreldrar hans höfðu dáið ekki fyrir svo löngu og maður ætlast til þess að eiga allmörg ár eftir að mörkin eru tekin yfir í
löglega elli.  En svona er lífið, það er ekkert gefið, húsbóndi alls er harður og óútreiknanlegur, við sem höfum lifað saman, séð börnin alast upp saman, etið saman, gengið saman á fjöllum, hlaupið saman um götur Reykjvíkur, kvatt árið saman, við gerum ekkert meira saman. Það væri hægt að segja margt um þennan furðugrip sem Guðmundur var.  En ég læt mér nægja að láta nokkur Hornstrandaljóð sem tengjast ferðum okkur og upplifunum.  Eg vil einnig senda samúðarkveðju til allra hans nánustu. Lífið verður ekki eins, lífið er ekki alltaf réttlátt. Blessuð sé minning Guðmundar Jóns Hallvarðssonar.


Logarnir 

Logarnir í kestinum að sofna
sólin horfin og gnúpurinn er skuggi
maðurinn með kúrekahattinn
gengur upp að húsinu þar sem
söngurinn mun hljóma innan skamms
pallurinn fyllist af misfölskum söngfuglum
söngtrúðum logarnir
maðurinn með kúrekahattinn
í villta norðrinu þrammar uppeftir
í gljúpum sandinum með brimið að baki
kríurnar verja svæði sitt æstar reiðar
logarnir og söngurinn mun hljóma fram
eftir nóttinni og maðurinn með hattinn
mun detta út af falla í draumafljót með
hrotubrim í raddhafinu
logarnir slokkna deyja og árniðurinn
einn mun ríkja

Hælavík 

Eldavélin í gróðurhafinu
hvönnin safnar flugum og fjaran reka
þú ert fjarri en ég sé
sporin þín út að vatninu
þú sérð bátinn sigla inn víkina og
snýrð við

Fuglabreiðan þyrlast upp frá fletinum
er einhver hreyfing út við Ófæruna
goðviðrisskýin dansa yfir höfði þínu
þú greikkar sporin til að fagna gestum
þetta er síðsumardagi sólin glitrar á víkinni
og áin hvíslar að þér kynjasögum
en þú skeytir því engu
þú vilt fagn a gestum
þú veist að enn er aðeins að vænta
góðra gesta

Enn

Bjargbrúnin 

Þegar hann stóð á bjargbrúninni
eftir göngu erfiða upp Kambinn
niður hlíðina yfir mýrargróðri
skrýdda  víkina upp bjargið
fékk hann löngun til að
fleygja sér fram af fljúga
svífa niður horfa á fuglalíf fuglaheim
kynnast högum íbúanna vekja furðu
finna þyt loftsins svífa niður
að fletinum kljúfa hann kafa
mynnast við fisk sel og hval
hverfa koma aldrei upp aftur
finna nýjan heim svo fjarri öllu hér

Hverfa týnast

Júlíkvöld á Hesteyri

Kirkjan flutt í aðra sveit
leiðin ein síns liðs í garðinum
tófan bíður þögul leifanna
tómt hús tregar einsemdina
árniðurinn á seinasta orðið

Jarðnuminn 

brúnn safinn spýttist úr úr vitunum
hann samhverfðist jörðinni
hvarf inn í bjargið
moldarbrúnn safinn rann niður leggina
hann tók sér rótfestu í mýrinni
beið haustsins einverunnar
brúnn safinn rann úr augntóftunum
hann samsamaði sig jörðinni
hvarf mannabygg

horfinn týndur ummyndaður
klettaþurs þarakóngur stráfrík
einbúi


Þar sem fuglarnar ráða ríkjum 

Þar sem fuglarnir ráða ríkjum
hann var þar
þar sem fuglarnir ráða ríkjum
hann kom þar
niður kambinn með raddir
þúsundanna í eyrum
þar sem fuglarnæir ráða ríkjum
hvítt dritið dansar í augum
hvönnin þekur sjónhimnurnar
gróðurinn teyfir sig inn í sjóntaugarnar
svo óendanlega svo mikilfenglega
þar sem fuglarnir ráða ríkjum
hann var þar
hann kom þar

Lokadagurinn 

Reykurinn af glæðunum
morgnr pokarnir skórnir nestið
enn er lagt af stað seinasti
áfanginn reykurinn sem líður
upp í loftið svo mjúkt svo þýtt
seinasti dagurinn jökullinn kastar
kuldagjólu niður heiðina árnar
hjartakaldar og stingandi reykurinn
röðin seiglast upp skarðið grjótrikið
steinaveldið um kvöldið mannaríki
mannalíf pizzur orlý túborg cóte de rhón
reykurinn af glæðunum glæðum
minninga glæðum trega gnúpurinn
tignarlegur heilagur brimið svo eilíft
óhagganlegt jökullinn svo beinhvítur

lokadagur   reykur glæður
lokadagur þau lokast



miðvikudagur, 19. mars 2014

Forsetinn hneigir sig fyrir Pútín

Utanríkismál okkar eru þessi misseri í uppnámi.  Við höfum utanríkisráðherra sem ræður ekki við starf sitt. Og auðséð er að Forsetinn ræður þar meiru en ríkisstjórnin.  Þótt hann feti ekki sómu slóð og ráðherrann í yfirlysingum um Krím.  Þá er hann trúr hugmyndum sínum um aukna samvinnu við einræðisstórveldin.  

Og orðalag hans um aukna samvinnu við Norðurlöndin sem ég hef feitletrað hér að neðan sýna vel hvaðan hugmyndir ríkisstjórnarinnar koma þegar skilja á að fullu og öllu við ESB.  Spurningin er hins vegar hvort þjóðirnar sem búa nær Rússlandi séu tilbúnar að þegja þegar Pútín er búinn að varpa valdasprengju sinni inn í Evrópu, sem veldur líklega mestri ólgu frá því að Sovét leystist upp og Austur Evrópumenn gátu sjálfir tekið völd í sínum löndum í hendurnar. 

Pútín er svo klókur valdamaður að hann sér að hann á leik þegar nágrannaland hansÚkraína á í efnahagslegum og stjórnmálalegum erfiðleikum, svo bætist við upplausn risaveldisins í vestri undri veikri stjórn Obamas.   Þjóðirnar á Norðurhjara sjá auðvitað að þessi innrás Rússlands á Krímskaga þarf í sjálfu sér ekki að vera einstök. Því er spurningin hvort þær treysti sér í nána samvinnu við Pútín sem svífst einskis.  Er hann ekki byrjaður að undirbúa hernaðarvæðingu í norðrinu?   Svo linkindarleg stefna Forsetans er frá mínu sjónarhorni fáranleg, svo er líka spurningin hvað hann á að vera að skipta sér af stjórnmálum.  Í umboði hvers talar hann?  Ekki í mínu.  



Forsetinn vildi ekki ræða stöðuna á Krím


Á ráðstefnuninni í dag voru tíðindi undanfarinna daga á Krímskaga rædd en nokkrir embættismenn gagnrýndu harðlega aðgerðir rússneskra stjórnvalda. Í ræðu sinni sagði Ólafur Ragnar hins vegar að það væri óviðeigandi að nota ráðstefnuna sem vettvang til að fordæma eitt af norðurslóðaríkjunum.
Hann sagði að það þyrfti ekki að taka lengri tíma en eina klukkustund til að grafa undan samstarfinu á norðurslóðum. Mikið væri í húfi og menn þyrftu að vera varkárir áður en þeir fjölluðu um ágreining innan einstakra ríkja.
Forsetinn sagðist jafnframt vera reiðubúinn að ræða ástandið á Krímskaga á öðrum vettvangi, en ekki á þessari ráðstefnu.

Í þessu sambandi væri mikilvægt að varðveita norrænar áherslur um umhverfisvernd, félagsleg réttindi, lýðræðislegar umræður og þátttöku almannasamtaka sem og virðingu fyrir náttúrunni og menningu frumbyggja.
Forseti rakti ýmis dæmi um framlag Norðurlanda á síðustu árum og hvatti til enn nánari samvinnu Norðurlanda um málefni norðurslóða. Það væri í senn skylda okkar og nauðsyn, hinn nýi prófsteinn á gildi norrænnar samvinnu.

þriðjudagur, 18. mars 2014

Einræður Illuga

Fyrir nokkrum mánuðum heyrði ég menntamálaráðherra tjá sig um framhaldsskólann og þróun hans, aðalatriðin í þeim skoðunum voru þessi: 

Námi í framhaldsskóla á Íslandi á að vera lokið á 3 árum

Við eigum að líta til nágrannaþjóða okkar þar sem þetta er gert

Framhaldsskólakennarar eiga að fá betri kjör en það gerist bara ef skólinn er styttur í 3 ár

Íslenskir nemendur standa sig ekki nógu vel í samanburði við aðrar þjóðir

Svo var hann í hádegisútvarpinu í dag og enn segir hann nákvæmlega það sama og fyrir 8-9 mánuðum síðar: 

„Við erum eina landið innan OECD þar sem að það tkeur 14 ár að undirbúa fólk að far í háskólanám. Öll önnur lönd hafa annaðhvort 12 eða 13 ár. En það sem meira er," sagði Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun. „Við erum sennilega það land sem kemur einna verst út þegar horft er til þess hversu stór hluti nemendanna klárar nám á tilsettum tíma. Þaannig að að það er alveg augljóst að það er eitthvað að í okkar framhaldsskólakerfi. Og eitt af því sem er augljóst, er að það þarf að stytta framhaldsskólann til þess m.a. að draga úr brottfallinu."

Það sem er svo merkilegt er að nú er hann búinn að koma upp stífri kjaradeilu, sem hann hefði getað leyst á auðveldan hátt.  Það er hann, ráðherrann sem á að ráða, hans hugmyndir.  En það eru svo margir sem eru svo sammála honum, bara ef hann setur ekki allt í hnút. 

Tökum nokkrar  hugleiðingar mínar: 

Stór hópur nemenda getur og á að klára frhsk.nám á 3 árum.  Það þarf ekki að breyta kerfinu mikið til þess.  Sbr. hugmyndir Sölva Sveinssonar um nýtingu prófmánaða. 

Stór hópur nemenda getur ekki lokið námi á 3 árum, því er hið sveigjanlega kerfi hér á landi gott til þess að gera þeim það mögulegt. Við sem höfum kennt á þessu skólastigi vitum það.  

Nemendur á Norðurlöndum fá styrk fyrir helstu nauðsynjum á skólatíma, þess vegna er vinna á skólatíma eins ekki mikil þar.  Þó er hún töluverð. 

Íslendski skólinn er allt of stéttskiptur, það eru allt of margir sem eiga erfitt meða að stunda nám vegna fátækntar fjölskyldn þeirra. 

Nemendur á Norðurlöndum eyða oft 1-3 árum eftir stúdentspróf að bæta við nám sitt til að komast í Háskóladeild að eigin vali.    

Ef framhaldsskólinn eru eins dapur og ráðherra segir hér að ofan þá er það furðulegt hversu þessi hópur stendur sig vel í Háskólanámi hér og erlendis.  

Það þarf fjölbreyttar aðgerðir til þess að stytta skólatíma, minnka brottfall, skapa námsgleði. Það gerir maður ekki með þvingunarðgerðum. Það gerir maðurmeð samvinnu við alla aðila kerfisins, finnum aðgerðir sem gleðja. 

Því skora ég á ráðherrann að semja kjaralega við kennara, leiðrétta hlut þeirra á ákveðnum tíma, Stofna starfshóp með þátttöku allra aðila og breyta kerfinu til góðs, þar sem ánægja og sáttfýsi ríkir, tekið er tillit til allra nemenda .

Einræður skapa ekki sátt. 






mánudagur, 17. mars 2014

Græðgisvæðing ferðamála: Bjartir tímar framundan

Nú er ferðamálaráðherra búin að missa allt úr höndunum í sambandi við gjaldtöku ferðamála. 

Nú verða allir eigendur, náttúruminja, fossa, fjalla, hvera komnir með baukinn ef einhver 
ferðamaður sést   á ferð, akandi, rútandi, hjólandi, gangandi jafnvel fljúgandi. 

Græðgisvæðingin sigrar allt og við sjáum ráðherrann á harðaspretti burtu með allt niðrum sig, fögur sjón að tarna. 

Ég hlakka til þegar ég verð aftur ferðafær og get byrjað að stunda skæruliðastarfsemi á svokallaðar "eignir" fjárgræðgisvæðara. Það eru spennandi tímar framundan, þegar hópar frjálsra Íslendinga og bandamenn þeirra erlendist ryðjast inna á falleg gæðasvæði og fá óblíðar móttökur varðsveita græðginnar.  

Já, það verður flest að sorgargrúti hjá þessari tvíhöfðastjórn.  Það eru bjartir tímar framundan, gullið glitrar í glirnum landans.  Svo er Grænlandsævintýri hið meira framundan.