sunnudagur, 4. maí 2014

Aðrir tímar: Hægri menn klofnir í herðar niður.

Sú var tíð þegar hægri menn dilluðu sér yfir klofningi vinstri manna. 
Það væri nú allt annað á þeirra væng. Þar var algjör samstaða yfir grunnsjónarmiðum og hugmyndum. 
Nú er öldin önnur.  Hver höndin upp á móti annarri.  
ESB atkvæðagreiðsla og hlýðni forráðamanna flokksins við forystu Framsóknar er með endemum. 
Sviksemi og fláráðshyggja ráðherra á sér engin dæmi.  
Loforð margra ráðherra í aðdraganda kosninga um atkvæðagreiðslu um framhald viðræðna. 
Einstök vinnubrögð Innanríkisráðherra í flóttamannamálum sem í öllum siðmenntuðum löndum hefðu kostað ráðherrastól. Mannvonska og bellibrögð í hávegum höfð. Lygar frammi fyrir alþjóð. 

Svo nú eru það hægri menn sem eru klofnir í herðar niður. 
Mörgum einlægum sjálfstæðismönnum er brugðið.  Eru farnir að skrá sig úr flokki allra landsmanna og stétta. 
Já, lesendur góðir.  Nú eru aðrir tímar.  


föstudagur, 2. maí 2014

1. maí: Píslargangan heldur áfram

Það var 1. maí í gær.  Aldrei þessu vant var ferð okkar ekki heitið niður í bæ.  Við brunuðum út á Seltjarnarnes, heilsa mín leyfði ekki langa göngu í Miðbænum og enn síður að standa og hlusta á ræður.  Svo var líka spurningin til hvers?  Hvaða ræður hverra?  Forystumenn ASÍ sem láta spila
 með sig, ríkisstjórnin fær þá í samninga um jafnhækkun allra stéttarfélaga, einhvers konar 
þjóðarsátt.  En sjá.... engir sameiginlegir fundir ríkisstjórnar og forystumanna sem flestra samtaka, ef ná á þjóðarsátt.  Heldur skrifað undir eins lága hækkun og mögulegt var.  Svo er kvartað og kveinað þegar í ljós kemur að aðrir fá meira.  Forysta ASÍ tekin í nefið eins og bankamennirnir myndu segja. 

En ég brunaði út á Nes, Seltjarnarnes við ókum að norðan og ætluðum að leggja í bílastæðið þar. En sjá þegar við nálguðumst þyngdist umferðin.  Þarna var bíll við bíl, búið að leggja í öll stæði, mikill mannfjöldi. Hvað var um að vera?  Skrítið að sjá nokkurhundruð bíla, líklega of langt að labba frá hverfunum á Nesinu út á Gróttu. Gott dæmi um umhverfisstefnu landans.    Svo við flúðum af hólmi fórum suður fyrir og fengum stæði á
 horninu við Golfvöllinn.  Ég staulaðist út úr bílnum, það er ansi erfitt, svo kíktum við á hvað væri um að vera.  Var verið að halda upp á 1. maí á Nesinu, eða var verið að opna kosningabaráttu xD, var Hrafn Gunnlaugsson að taka upp nýja kraftaverkamynd?   Í ljós kom seinna að það var einhver Gróttuhátíð Nesjamanna.  Góða veðrið dró til sín fólkið.  Við röltum út í Herskýlið fyrir vestan Golfvöllinn þar var allt með kyrrum kjörum.   Þó nokkuð fólk á rólinu eða hjólinu.   Þetta var prýðisdagur.  Samt hefði verið ennn skemmtilegra að geta hlaupið kringum golfvöllinn eða þrammað í göngunni. Kíkt á trúgjörnu herrana, fengið sér kaffi og meððí.  Eins og maður á að gera á 1. maí.  Svo fékk ég rauðvín með kvöldmatnum.   Gleymdi hinni eilífu píslargöngu íslensks launafólks að fá mannsæmandi kjör.  Þar sem allt stefnir í verrra, árs bið að komast í hnéaðgerð (ég er búinn að bíða í 7 mánuði).  Margir hafa ekki efni á því að fara til læknis en myndu samt örugglega kaupa nýjustu IPad gerðina það eru þverstæður auðmagnsins.  Að framleiða varning sem neytendurnir geta ekki verið án.   Já, hún verður löng þessi píslarganga þessarar þjóðar sem telur sig geta stjórnað sjálfri sér þótt það séu ekki forsendur fyrir  því nema með samstarfi við aðra.  Svo Píslargangan heldur áfram, ætli ég fari ekki til Santiago de Compostela ef ég næ bata og bið fyrir vanhæfri ríkisstjórn.  Kannski gerist þá kraftaverk!!!



miðvikudagur, 30. apríl 2014

Guðrún Bryndís: Það er gott að vera í Framsókn, not!!!!

Ein allra skemmtilegasta og óhugnanlegasta lýsing á starfi stjórnmálaflokks birtist í gær í Kvennablaðinu
Þar lýsir Guðrún Bryndís Karlsdóttir því þegar hún gekk í Framsóknarflokkinn, hún vildi gera góða hluti fyrir Framsóknarflokkinn. 
Flokkurinn þar sem engin spilling er til, flokkur sem hefur skilið við vafasama fortíð sína. Eða hvað??   En .... einhvern fór allt á verri veg. 

Ekki á lista Framsóknar: „Átti það alundarlegasta símtal við fólkið á bak við tjöldin“

Hún uppgötvar með tímanum, að það er ekki ætlast til að hún  hafi forgöngu í málum. Smátt og smátt myndast veggur. Fólk horfir ekki á hana. Hún er lokuð inni, fær ekki upplýsingar,  þögnin verður algjör.  Hún vogar sér að hafa gott sjálfsálit, mæla sig við Guðna og Magnús Scheving.  Annar landskunnur skemmtikraftur hinn sjónvarpsstjarna og vel ættaður inn í flokkinn (faðir Magnúsar og Sigrún Magnúsdóttir eru systkini og Sigrún er þar að auki eiginkona Páls Péturssonar fyrrverandi þingmanns og ráðherra) svo hún gengur allt of langt!!!! 

Þegar ég furðaði mig á fundarsköpum og viðbrögðum við meðframbjóðendur mína, var mér bent á reynsluleysi mitt í stjórnmálum og að ég gæti fengið leiðsögn hjá „fólkinu á bakvið tjöldin“, sem ég og gerði.

En hvers vegna gerðist þetta. Hví fór Guðrún Bryndís þvílíka Bjarmalandsför inn í Framsóknarflokkinn???  Er eitthvað að henni?  Ekki þekki ég konuna neitt, en hún heldur ágætlega á penna eftir greininni að dæma.  Svo er annað mál hvernig raðist á lista í flokkum. Þegar ekkert prófkjör er og uppstillingarnefnd starfar sem óskar eftir fólki.  Er það eðlilegt að fólk labbi inn af götunni án þess að hafa starfað neitt þar?  Frægt og vel virt fólk hefur getað það, eins og hugmyndin var með Guðna og Magnús Scheving. Lilja Móses fór inn á þing á forvali í VG, eftir að hafa vakið athygli í Búsáhaldabyltingunni, það gekki ekki svo vel hjá henni.  Mikið af nýju fólki kemur í framboð núna í nýju framboðunum, BF, Dögun og Píratarnir.  Svo þess vegna hefði hún átt að vera dæmi um opinn flokk sem tekur vel á móti nýju og fersku fólki!!!! 

„Ég frétti að menn hefðu miklar áhyggjur af hroka mínum og viðmóti,“ segir Guðrún Bryndís Karlsdóttir.

En aftur að Framsókn, þrátt fyrir kynslóðaskipti þá hefur ekki margt breyst þar.  Formaðurinn er einráður og uppstökkur.  Einhvern veginn er alltaf stutt yfir í gömlu spillingaröflin. Eflaust eru ekki allir sammála mér um það.  En stjórn xB og xD í meira en áratug kom svo mörgu illu til leiðar, ég hræðist slík öfl.  Þau eru enn of víða með puttana í báðum stjórnarflokkunum.  Þess vegna kemur þessi saga Guðrúnar Bryndísar mér ekki á óvart.  Ég held að salan á x B í seinustu alþingiskosningum sé ein mesta svikamylla seinni áratuga í stjórnmálum.  Þess vegna er niðurstað Guðrúnar Bryndísar eðlileg og sönn:  Þá vissi ég það – þetta var ekki góður staður til að vera á.


Upplýsingarnar sem ég fékk af fundum kjörstjórnar komu aðallega úr fréttum, ég heyrði af og til í fólkinu á bakvið tjöldin án þess þó að ég fengi að vita nokkuð, hvaða vinna færi eiginlega fram.




þriðjudagur, 29. apríl 2014

World press freedom index 2014: Hvar er frétta og tjáningafrelsi?

Það er gott að hafa þessa mynd hér að neðan þegar við ræðum um frelsi, frelsi til að miðla fréttum og upplýsingum í heiminum:  World press 
freedom index 2014 sem tekinn er saman af Reporters withour Borders.
Það er ekki sjálfsagt að að tjá sig þótt við getum hér skrifað nokkurn veginn það sem okkur dettur í hug. 


Finnland er efst á lista og öll Norðurlöndin og Eistland tilheyra hvítu svæðunum, gott ástand. 
Ísland er númer 8 
Breska konungsveldið þaðan sem við fáum flestar fréttir frá  er númer 33
Bandaríkin eru númer 46 á eftir Rúmeníu og á undan Haití !!! Kína er númer 175 af 180
Úkraína er númer 127 Rússland númer 148
Palestína er númer 138 og Ísrael 96 
Litirnir segja sína sögu : Hvítur þar sem best er, Svart þar sem verst er. 
Hugsið ykkur það er til fólk á Íslandi sem vill bindast fastari böndum við Rússland og Kína. 
Hafið líka í huga að þessi listi og rannsókn segir margt, en ekki allt.






mánudagur, 28. apríl 2014

Prýðissýning: Furðulegt háttalag hunds ......

Það er erfitt að lýsa sjúkdómum.  Ég tala nú ekki um andlega sjúkdóma sem lengst af var ekkert vitað um hvað væri.  Eins og Einhverfa. Þar sem einstaklingur virðist ekki ná sambandi við umheiminn, hann lifir í sínu innra, mótar sér veröld þar sem erfitt er að nálgast. Það hlýtur að vera gífurlega erfitt fyrir foreldra að upplifa
þennan sjúkdóm, að geta ekki komist í gegnum þennan múr sem heilinn hefur mótað sér.  Í hinni snjöllu sögu Mark Haddons Furðulegt háttalag hunds um nótt er fengist við þetta. Að móta listaverk úr þessum efniviði.  Ég varð ofsahrifinn af þessari bók þegar hún kom út fyrir nokkrum árum. Það tókst að lýsa Einhverfunni á svo mannlegan og hlýlegan hátt.  Og nú er komið leikritið, Simon nokkur Stephens, hefur gert leikritsgerð.  Eiginlega átti ég erfitt að ímynda mér hvernig það væri hægt.  En sjá, ég fór í Borgarleikhúsið og sá þessa sýningu.  Hún er alveg afbragð.  

Hvers vegna? Jú, Borgarleikhúsið býr yfir listamönnum sem geta komið þessu til skila.  Það eru ekki bara leikarar, heldur líka sviðs, ljóð, mynd, og hreyfingarmeistarar sem starfa í þessu leikhúsi.  Undir öflugri stjórn Hilmars Jónssonar verður þessi áhrifaríka sýning til.  Og á bak við sér maður handbragð leikhússtjórans Magnúsar Geirs Þórðarsonar, hann er svo naskur að koma saman fjölbreyttri dagskrá.  Sem hefur skilað sér í stöðugt meiri aðsókn.  Hann hefur verið óhræddur að leggja í vandasöm stykki sem ná til breiðs hóps áhorfenda. Og gar ég lít yfir salinn í Borgarleikhúsinu í gærkvöldi, þá hefur hann víkkað út hinn hefbundna áhorfendahóp leikhúsa, í húsinu var fólk á öllum aldri, þetta var sýning sem náði til allra.  Ung, ný stjarna fer með aðallhlutverkið og fer á kostum, Þorvaldur Davíð Kristjánsson. Hann er Kristófer fyrir augum okkar, með furðulegheit sín, köstin, gáfurnar, allt gert með leikgleði og kunnáttu.  Leikhópurinn er mjög góður, mér finnst Bergur Þór vera orðinn einn albesti leikari okkar, hann kann allt, er einn besti gamanleikari okkar, trúður, svo lýsir hann aumkunarverðu lífi föðurins snilldarlega.   Þessi sýning yrði ekkert ef ekki væri hugmyndaauðgin á umgjörðinn, þar sem tölvur, lýsing og leikmunir mynda þessa veröld.  Oft greip maður andann á lofti yfir fegurðinni og útsjónarseminni .

Svo sýningin fór framúr björtustu vonum mínum.  Maður sá líka hversu áhorfendurnir nutu sýningarinnar. Og viðbótin í lokin, stærðfræðikennsla var dásamleg. Það er gott að fólk þyrpist í leikhús.  Í tveimur minni sölunum eru íslensk verk sýnda sama sunnudagskvöldið. Alls staðar fullt af fólki.  Mig langar að sjá þær. Svo er Arthur Miller og Auður Ava í Þjóðleikhúsinu mig langar að sjá þær.   Svo er fjöldi leikhópa í Tjarnarbíó og fleiri stöðum.  
Því skýtur skökku við að loka eigi á allt leiklistarlíf á Akureyri, eina atvinnuleikhúsinu utan Reykjavíkursvæðisins.  Mér finnst að yfirvöld þar eigi að hugsa sig um áður en það verður.  Það væri ansi stór slys.  




laugardagur, 26. apríl 2014

Guðni: Gerendur og þolendur

Týpískt fyrir íslensku þjóðina að gera Guðna að fórnarlambi.  Fórnarlambi hvurs eigin skrifa, eigin orða, eigin þátttöku í einkavæðingu og spillingu sem var undanfari hrunsins!!!?

Nú eiga þeir sem minnast á hann að fyllast samviskubiti.  Nú má líklega enginn minnast á hann án þess að vera gerandinn í einelti.  Og Guðni þolandinn, Karlinn sem reitti af sér vafasama brandara um samstarfsfólk sitt, sem er ekki allur sem hann er séður.  

Jamm, í lífi okkar þjóðar verður allt öfugt um þessar mundir, allt á hvolfi.  Svo öfugmælavísur eiga vel við: 

Séð hef ég hvalinn sitja á stól,selinn strokka og renna,skötuna ganga á grænum kjól,gráan hest með penna.


Og framsóknardjókur (á góðri íslensku) :

Svo er sagt að Jónas Jónsson frá Hriflu hafi eitt sinn komið að máli við sýslumann ágætan og mælst til þess að hann gengi í Framsóknarflokkinn. Sýslumaður tók því dauflega. "Ertu þá í Íhaldsflokknum?" spurði Jónas. "Nei," sagði sýslumaður, "ég er utan flokka og ætla mér að vera það." Jónas hugsaði sig um andartak, en sagði svo af þjóðkunnri orðheppni: "Þetta er nú eins og að hafa tvo góða stóla og setjast á gólfið."

Þessi vísa á vel við um þessar mundir: 

Í eld er best að ausa snjó,
eykst hans log við þetta.
Gott er að hafa gler í skó
þá gengið er í kletta.



fimmtudagur, 24. apríl 2014

Flóttamenn: Hanna Birna er glöð á góðum degi

Lífið blasir við í allri sinni gleði, bjartsýni og krafti hjá Hönnu Birnu þessa dagana.  Það er gaman að skrifa svona fagnaðargreinar eins og hún gerir í Fréttablaðið í dag, á sumardeginum fyrsta. .  En það eru ekki allir sem geta fagnað, þeir finna áþreifanlega fyrir pennastrikum Hönnu Birnu. Þegar
samkomulagi kenndu við Dublin er veifað framan í flóttamenn eftir 2 ár eða meira.  Og um leið er mörgum lagabrotum hampað í nafni ráðherra.  

Þegar ég heyrði fréttirnar brast hjarta mitt og ég grét bara vegna þess að öll þessi ár sem ég hef verið á flótta komu aftur til mín,“ segir Eze titrandi röddu. Hann kemur frá Nígeríu. 

Ég á erfitt með svefn, mér líður hryllilega,“ segir Shawkan í samtali við DV (hann kom frá Írak) en hann hefur undanfarna mánuði þjáðst af mikilli streitu og þunglyndi. Hrefna Dögg Gunnarsdóttir er lögmaður hans og annars hælisleitanda frá Súdan sem á einnig að senda úr landi í vikunni. Hann er 30 ára gamall og þorir ekki að koma fram undir nafni af ótta við að hægt verði að rekja það sem hann segir til hans. Hér eftir verður hann því kallaður Tour Jamous. Þeir hafa báðir kært úrskurð innanríkisráðuneytisins en útlit er fyrir að Jamous verði ekki á landinu þegar málið fer fyrir dómstóla.

Hann segir erfitt að hugsa til þess að hann hafi verið á flótta í sjö ár og að nú eigi að senda hann aftur til baka. „Stundum hugsa ég að það væri kannski best ef ég fengi dauðadóm um leið og ég kæmi aftur til Súdan. Það væri gott fyrir mig að losna við þetta þjáningarlíf. Að vera alltaf í viðtölum hjá lögreglunni eða Útlendingastofnun upp á von og óvon. Þetta er samt flókið og stundum hugsar maður til fjölskyldunnar heima en ...“ Jamous byrjar að tala á tungumáli sem blaðamaður skilur ekki, eins og í einhvers konar örvæntingu og ráðaleysi yfir stöðu sinni, áður en hann heldur áfram:

Já, hún Hann Birna er glöð á góðum degi: Þetta er viðhorfið sem þarf að einkenna Ísland, sem nú stendur á tímamótum og tekst á við nýjar áskoranir, nýja framtíð. Bjartsýnin, gleðin og sóknarhugurinn sem tengist sumarkomunni þarf að einkenna samfélagið á hverjum degi. Þannig höfum við náð árangri í fortíðinni og þannig munum við áfram ná árangri. Við stjórnum ekki því sem liðið er en við getum haft áhrif á framtíðina. 

Hún getur svo sannnarlega haft áhrif á framtíð þessara þriggja karla.  Og sofið vel.  

_____________________________________________________________


Sögurnar sem ráðuneytið vildi ekki heyra

Þrír sendir úr landi í vikunni - Biðu hér á landi í tvö ár eða meira - Mál þeirra ekki skoðuð efnislega - Eiga erfitt með svefn og glíma við mikinn ótta 


__________________________________________________________________________


Í dag fögnum við fyrsta degi sumars. Þótt íslenska veðrið gefi ekki alltaf til kynna upphaf þess tíma látum við Íslendingar það lítið á okkur fá og fögnum sumarkomu, hvort sem það blæs, rignir eða snjóar.

Það er þessi kraftur og þessi bjartsýni sem gerir samfélagið okkar svo sérstakt og skapar svo mörg tækifæri til sóknar og sérstöðu. Veðurbrigðin í lífinu eiga nefnilega jafnt við um samfélög, fjölskyldur og einstaklinga. Það skiptast einfaldlega á skin og skúrir, en á okkur öllum hvílir samt alltaf sú ábyrgð að halda samt áfram – ganga yfir skaflana og standa af okkur stormana svo njóta megi síðar sólar og sumars.

Þetta er viðhorfið sem þarf að einkenna Ísland, sem nú stendur á tímamótum og tekst á við nýjar áskoranir, nýja framtíð. Bjartsýnin, gleðin og sóknarhugurinn sem tengist sumarkomunni þarf að einkenna samfélagið á hverjum degi. Þannig höfum við náð árangri í fortíðinni og þannig munum við áfram ná árangri. Við stjórnum ekki því sem liðið er en við getum haft áhrif á framtíðina. 

Burtséð frá einstaka verkefnum þá er sátt og samstaða um það að halda áfram – gera betur í dag en í gær – mikilvægara en flest annað fyrir framtíðina. Að vera sammála um að stefna lengra, nýta tækifærin og hafa trú á okkur sjálf og fólkið okkar skapar forsendur til að byggja upp frábært samfélag til framtíðar. Við getum tekist á um einstaka dægurmál á málefnalegan hátt en verið sammála um að gera alltaf það besta fyrir land okkar og þjóð.

Í dag er því við hæfi að taka sameiginlega ákvörðun um einmitt það. Þegar við fögnum sumri að íslenskum sið á þessum góða degi – flöggum fánum okkar og njótum samveru með okkar nánustu – skulum við því um leið taka á móti nýjum tímum með þeim góðu fyrirheitum, krafti, bjartsýni sem hefur, á og verður að einkenna þessa þjóð á einmitt þessum degi. 
Gleðilegt sumar.