þessu eilífðarþrasi. Hver sé jákvæður eða neikvæður, hver hafi unnið og náð bestum árangri. Ég tala nú ekki að kenna útlendingum um þetta. Er ekki eðlilegt að aðrar þjóðir berjist fyrir hagsmunum þegna sinna þegar óráðsíubankar ætla að stela þúsundum milljarða af sparnaði launafólks?
Staðreyndin er að fyrrverandi ríkisstjórn náði ótrúlegum árangri við ömurlegar aðstæður en tókst þó að ná upp hagvexti sem fáir gerðu í Evrópu á þeim tíma. Orð Sigmundar Davíðs hér að neðan um árangur sem tekið er eftir á alþjóðavettvangi eru orðrétt sem Jóhanna og Steingrímur gerðu á sínum tíma !!!! Þetta mjakast hjá okkur, við höfum verið heppin með Ferðamannaiðnaðinn sem hefur komið svo sterkur til leiks. Við fengum líka makrílinn á silfurfati sem hefur skilað góðu í þjóðarbúið. Og íslenskt launafólk hefur verið ákaflega þolinmótt gagnavart stjórnvöldum að mörgu tilliti. Við erum með langtum verri lífskjör en hin Norðurlöndin, hvað sem hver segir.
Því er sorglegt að núverandi ríkisstjórn láti leiða sig yfir í úreltar frjálshyggjuhugmyndir um lækkun skatta á þeim tekjuhæstu, um mýtuna um flókið skattakerfið sem þurfi að einfalda, þetta á auðvitað að gera á kostnað þeirra tekjulægstu. Að framsóknarmenn láti Bjarna Ben teygja sig áfram. Við eigum að sýna meiri stórhug til að ná því sem Sigmundur talar um í stóra feitletraða kaflanum hér að neðan. Við tökum undir þessi sjónarmið hans þar. En þá þarf að vinna að því, nota auðlegðarskatt, hátekjuskatt, sanngjarnan virðisaukaskatt sem eitthvað vit er í. Taka sanngjörn gjöld af útgerðarmönnum og stóriðnaði. Vera í samstarfi við aðrar þjóðir á viðskiptasviði. Lokka okkur ekki af norður í Ballarhafi. Þar sem allt á að vera mest og best.
Við gerum það ekki með sjálfsgrobbi og ranghugmyndum um okkur Íslendinga. Við erum lítil þjóð sem þurfum að vinna fyrir okkar brauði, oft við erfiðar aðstæður vegna harðbýllar náttúru, sem er Forsætisráðherranum svo kær. Við þurfum að hafa heildstæða sýna á hugmyndum okkar, um laun, gjöld og tekjur, um jafnrétti, mannréttindi og frið. Þetta getum við gert langtum meir í sameiningu.
Nokkur atriði úr ræðunni:
Hvort sem litið er til jarðnæðis, vatns, hreinleika eða möguleika til matvælaframleiðslu eru fáar þjóðir í heiminum sem búa við jafn rík tækifæri frá náttúrunnar hendi og við.
Sé litið til alþjóðlegs samanburðar er Ísland í efsta sæti við mat á öryggi og friði og jafnrétti kynjanna. Raunar hefur það sýnt sig að í alþjóðlegum samanburði á þeim kostum sem lönd búa yfir er Ísland gjarnan í hópi þeirra efstu, hvort sem spurt er hvar best sé að búa í heiminum, um stöðu lýðræðis, um réttindi ólíkra hópa, frelsi fjölmiðla, árangur af heilbrigðisstefnu eða um stöðugustu ríki heims. Slíkur samanburður er ekki algildur en veitir þó mikilvæga vísbendingu um það hversu góð lífsskilyrði við búum við.
Sú staðreynd hverfur því miður allt of oft í umræðuhefð sem sífellt beinir sjónum sínum að því neikvæða. Það er ákaflega mikilvægt að við gleymum því ekki að við búum í samfélagi sem flestir aðrir í heiminum gætu öfundað okkur af þar sem sterkir innviðir, miklar auðlindir og ríkulegur mannauður gera okkur kleift að byggja upp enn betra samfélag til framtíðar.
Markvissar aðgerðir í ríkisfjármálum og efnahagsstjórn
hafa skilað árangri sem nú er tekið eftir á alþjóðavettvangi.
Hagvaxtarspá Alþjóðagjaldeyrissjóðsins fyrir Ísland sem gefin var út í
sumar spáir nærri 3% hagvexti í ár og heldur meiri vexti árið 2015.
Seðlabanki Íslands spáir enn meiri hagvexti, eða rúmlega 3% í ár og
tæplega 4% árið 2015. Þetta er árangur sem fáar ef nokkrar Evrópuþjóðir
geta státað af um þessar mundir og þótt víðar væri leitað.
Með sameiginlegu átaki ríkisstjórnarinnar og aðila
vinnumarkaðarins hefur tekist að auka kaupmátt og koma verðbólgu niður
fyrir markmið Seðlabankans og hefur verðbólgan nú mælst undir
verðbólgumarkmiði bankans í sjö mánuði samfellt. Slíkur árangur hefur
ekki náðst í meira en tíu ár, en líta þarf til áranna 2002 og 2003 til
að finna samsvarandi verðlagsstöðugleika.
Á Íslandi eiga fjölskyldurnar að ná endum saman um mánaðamót. Öryrkjar
eiga að geta lifað mannsæmandi lífi og eldri borgarar eiga að fá notið
afraksturs ævistarfsins. Á Íslandi eiga allir að hafa jafnan aðgang að
heilbrigðisþjónustu og félagslegri aðstoð. Allir eiga að hafa jafna
möguleika á menntun og starfsframa og langtíma atvinnuleysi á ekki að
líðast. Ungt fólk á að geta fengið vinnu við hæfi í framhaldi af námi og
líta á Ísland sem vænlegan framtíðarstað, finna að hér er gott að búa
og að hér er gott að stofna fjölskyldur og ala upp börn. Íslendingar
þurfa sjálfir að trúa á framtíð landsins til að við getum byggt á grunni
þeirra styrkleika sem samfélagið býr nú þegar yfir. Við viljum að á
Íslandi séu allir metnir að verðleikum án tillits til þess sem gerir
okkur ólík og að allir séu jafnir fyrir lögum. Við viljum að samfélagið
virði frelsi og drifkraft einstaklingsins til að móta eigið líf, en að
einnig sé þess gætt að enginn sé skilinn eftir. Stjórnvöld eiga að
leggja höfuðáherslu á að skapa þetta jákvæða og heilbrigða umhverfi svo
að einstaklingarnir og fjölskyldurnar geti betur uppfyllt drauma sína og
vonir.