Tveinnir sinfoníutónleikar eru gengnir um garð. Báðir ansi góðir. Fyrri buðu upp á Richard Strauss og Beethoven,7. sinfoníuna, sem fyrir mína parta er hápunkturinn ennþá í vetur. Þessi
síflutta og vinsæla sinfonía hafði svo mikinn ferskleika og hreif mig algjörlega, Andrew Litton, hljómsveitarstjórinn er ekkert slor. Þó voru Strauss, Eulenspiegel og 6 Brentano Söngvar ekkert til að kvarta yfir. Og Suður-Afríska söngkonan Golda Schultz fín.
Á seinni tónleikunum var boðið upp á ástmögur okkar Víking Heiðar Ólafsson og sérfræðingur minn í píanóleik sagði að hann væri alltaf að verða betri og betri og ég trúi henni vel. Hann spilaði 1. píanókonsert Beethovens og gerði það glannavel, að vísu var kadensan ein af 4 sem Beethoven samdi, ansi löng og of mikil fyrir konsertinn, það er nú bara minn smekkur, en hægi kaflinn var yndislegur og svo voru læti og hamagangur í 3. kaflanum eins og vera ber. Svo fengum við tvö dásemdar aukalög. Chopin og Schumann-Lizt. Meira er ekki hægt að biðja um. Á undan konsertinum var flutt Largo Mistico efit Pál Pamplicher Pálsson, prýðisverk við fyrstu hlustun. Svo var Prókofieff eftir hlé, sinfónia númer 6, vel flutt en höfðaði ekkert sérstaklega til mín þetta kvöldið. Stundum er maður misjafnlega upplagður. Eins og ég hef gaman að Prókofieff. Það var ekkert yfir neinu að kvarta, fínn stjórnandi, einn af þessum fjöldamörgu sem Finnar unga út. Pietari Inkinen. Á þessum tónleikum hefur sýnt sig hversu hljómsveit okkar er góð. Á þessum tónleikum var ég oft að hugsa um tréblástursleikarana, þeir eru svo góðir.
Svo var Þorvaldur Gylfason frumkvöðull að tónleikum í Salnum. Þorvaldur er eins og pabbi hans, Gylfi Þ. Gíslason, var, tónelskur maður, líklega hefur hann samið töluvert af lögum í gegnum tíðina. En nú fékk hann Kristján Hreinsson til að semja ljóð þar sem grunnþemað eru fuglar og náttúra. Þetta eru ansi rómantískir textar fyrir minn smekk. Þorvaldur samdi síðan lögin og fékk Þóri Baldursson til að útsetja. Og Jónas Ingimundarson, Bryndísi Höllu Gylfadóttur til að spila (á píanó og knéfiðlu). Svo var Kristinn okkar Sigmundsson sem söng. Húsfyllir var og boðið er upp á aðra tónleika á morgun (sunnudag).
Ég dáist að fólki eins og Þorvaldi sem lætur drauma sína rætast. Ég vildi að ég væri svona hugrakkur!!! Margar fallegar laglínur streymdu út í salinn og Kristján útskýrði textana (sem kannski var óþarfi) en salurinn kunni vel að meta söngvana, sérfræðingur minn í útsetningum sagði að þær hefðu mátt vera fjölbreyttari (ég hafði líka hugsað það!) en mikið var klappað og hóað í lokin, eitt lagið endurflutt og allir fóru ánægðir heim. Missið ekki af seinni tónleikunum á morgun!
Ég vil vekja athygli á nýútkominni ljóðabók eftir gamlan vin minn, Sigurð Jón Ólafsson,
bókavörð í Borgarbókasafninu. Sigurður hefur alltaf ort töluvert, óhefðbundið, og nún hefur hann safnað saman
ljóðum sínum í bók Slitinn þráður úr köngulóarvef, sem er í 4 köflum, 44 ljóð. Þarna eru náttúrustemningar og minni úr lífi okkar og hvunndagsleika, oft kryddað með angurværð og húmor. Hér eru tvö dæmi:
Dauðvona fluga
Um það bil er presturinn var að biðja fyrir söfnuðinum
tók ég eftir flugu sem reikaði stefnulaust um kirkjugólfið.
Hún virtist of máttfarin til að hefja sig til flugs.
Sennilega beið hennar ekkert nema hægt andlát
nema því aðeins að presturinn eða kórstjórinn eða
jafnvel einhver úr kórnum stigi óvart oná hana.
Áreiðanlega hefur engin fluga fengið að njóta jafn fagurs söngs
né jafn ákafrar bænar svona skömmu fyrir andlátið.
Í Hafnarvogi
Þegar við göngum þröngar götur Hafnarvogs
eru fáir á ferli enda
kvöldmatur og bókasafnið að loka.
Gæfur gulbröndóttur köttur
fylgir okkur að húsi skáldsins
- George Mackay Brown
bjó hér 1968-1996 -
Handan vogsins blasir Háey við
þar sem öldungurinn stendur vörð.
Í þröngri götu þorpsins
er hugsun skáldsins víð eingsog
vegurinn blái.