þriðjudagur, 4. nóvember 2014

18 aldraðar konur og ríkisstjórn

Að segja upp 18 konum sem vinna við skúringar í ráðuneytum þarf hugrekki til og útsjónarsemi.
Ríkisstjórnin sýndi slíka gæfu.Eins og í mörgu öðru. Mér skilst að mótmælendur séu ekki að mótmæla. Mikið erum við heppin þjóð. Við elskun ríkisstjórnina okkur. Sýnum það með því að skilja að besta leiðin að afla fjár fyrir nýju Sjûkrahûsi sè að skattleggja ekki þá sem vaða í seðlum. Við viljum ekki að fólk lesi bækur, læri ekki á hljóðfæri, fái ekki skjótan og góðan bata af krankleikum sínum.

Þess vegna er góð leið að byrja á því að segja upp 18 konum í stjórnarráðum, að koma í veg fyrir að 180 tónlistarkennarar nenni að snúa aftur til vinnu í tónlistarskólana, að koma í veg fyrir að 18000 framhaldsskólanemendur geti stundað nám í framhalsskólum.

Meðan ég skrifa þessar fátæklegu línur horfi ég á myndir um þá ótrúlegu atburði fyrir 25 árum þegar fólk í landi í Evrópu fékk nóg og gekk yfir múra. Í þessum myndum kom orðið Bylting ansi oft fyrir, orð sem bara er notað við óvenjulegar aðstæður. Ég sé að margir nota orðið það orð á Íslandi. Lýðræðislegar samræður milli ríkisstjórnar og fólksins í landinu eru gagnslausar.Spurningin er þá hvað ber að gera. Er fólkið bara skríll sem ber að nota byssur gegn?  Nýfengnar byssur frá vinaþjóð  okkar?  

mánudagur, 3. nóvember 2014

Mótmæli: Veruleiki heima og erlendis

Ég er ekki á mótmælum, ég er í Berlín. Við götu sem heitir Rosenstrasse. Þar voru merk mótmæli árið    1943 þegar konur mótmæltu að menn þeirra ok ættingjar væru teknir og líklega átti að senda þá í útrýmingarbúðir, þeir sem voru hreinir gyðingar, mest af þessu fólki var blanda af gyðingum og Þjóðverjum. Á einhvern hátt var körlunum sleppt og sendir áfram í erfiðisvinnuna sem þeir höfðu verið í. Kvikmyndastjórinn Magaret von Trotta gerði mynd um þetta fyrir nokkrum árum.

Benedikt Erlingsson tók við verðlaunum fyrir hina frábæru kvikmynd Hrossí oss sem bestu kvikmynd Norðurlanda seinasta árið. Í þakkarræðu sinni leyfði hann sér að ræða um veruleika íslensks kvikmyndagerðarfólks.  Það fór fyrir brjóstið á i. Veruleikann á maður ekki að ræða í útlöndum, við eigum bara að hafa draumsýnina, vatn,eldur, fjöll og hestar. ráðamenn í útlöndum eiga ekki að heyra minnst á kjör íslenskra listamanna. Erlendis eiga allir að vera glaðir og hreyknir.

Valdamenn á Íslandi vilja hafa frið í útlöndum, ekkert nöldur og röfl. Það er nóg að taka við mótmæalagusum þegar heim kemur. Virðisaukaskatturinn, auðlindaskattur,  tekjuskattur, þeir eiga ekki að borga skatta, jafn vel þótt þeir vilji það!!!

Listamenn eru vanþakklátastir allra, eilíft tuð.  Leggjum  Tónlistarskólana af, burt með Sinfoníuna, engin hugmyndaverk og gagnrýnar skáldsögur. Hvenær kemur ritsafn Davíðs Oddssonar út?





þriðjudagur, 28. október 2014

Skýrsla Geirs Jóns kemur á róti......


Það er auðséð að skýrslugerð lögreglunnar og Geirs Jóns hefur komið róti á tilfinningar margra. Enda kannski ekki nema von.  Og enn sýna íslensk stjórnvöld hversu þau eru vanmegnug að halda uppi þó ekki væri nema sæmilegri stjórnsýslu.  Alltaf eitthvað rugl. 


Af tilviljun fann ég í tölvunni minni nokkrar myndir frá þessum mögnuðu dögum haustið 2008 og veturinn 2009.  Ýmislegt fór í gang í mínum huga. Það er merkilegt að hugsa til baka hversu þetta voru merkilegar vikur.  Það var alvara og festa yfir öllum.  Skilti og spjöld sem fólk kom með og skapaði sjálft voru einlæg.  Þetta var enginn fíflaskapur. Fólk fann það á sjálfu sér að það upplifði óhugnanlega tíma.  Enn í dag lifir glóðin í fólki.  Það hefur margt gerst síðan ýmis vonbrigði hafa orðið á vegi okkar en við tölum ekki um Svokallað Hrun eins og sumir fáráðar þarna úti. 

Flestir finna líka hvað það er stór hópur sem hefur sölsað til sín fjármuni og hversu stutt er í alls herjar græðgisvæðingu á ný.  Því yrði maður ekki hissa þótt aftur syði upp úr.  Hroki og ég held maður verði að segja heimska stjórnvalda og auðmanna er enn þvílík.  

Það eru margir sem spyrja er ekki komið nóg?  


















mánudagur, 27. október 2014

Verjum velferð: Nú er lag

Nú er hafið læknaverkfall.  Skæruverkfall til að minna á að þjónusta og tæki okkar eru á niðurleið. Til að minna á að við getum misst stóran hluta af okkar góða sérfræðingaliði svona einn tveir og þrír úr landi.  Og hvað ætlum við að gera?  Fólkið í landinu sem þarf að nota þessa þjónustu?

Þeir sem stjórna landinu um þessar mundir virðist vera fyrirmunað að skilja aðstöðu venjulegs fólks. Flestir ráðherrarnir eru silfurskeiðabörn sem hafa aldrei komið að störfum.  Sumir verið í pólitík alla ævi.  Hafa aldrei litið í eigin barm.  Samanber innanríkisráðherra á Kirkjuþingi.  Bjálkinn og flísin.  

Já, er ekki kominn tími til góðra verka?  Verjum velferð.  Er ekki liðinn tími að horfa á kjánana göslast í drullupollunum og segja fúla brandara?   Verðum við ekki að verja; grunnþjónustu alla, tryggingakerfið, heilbrigðiskerfið, skólakerfið.  Höfum við ekki horft á einum of lengi? 



Er ekki kominn tími til að tengjast?  Er ekki komið nóg?  



sunnudagur, 26. október 2014

Jack Bruce: Meistari horfinn

Þær hverfa yfir móðuna miklu, hetjurnar frá forðum, þær sem lituðu upp myrkrið og skammdegið í Reykjavík forðum daga. 
 Á sjöunda áratugnum.   Nú er Jack Bruce horfinn, bassaleikarinn knái og lagasmiðurinn, sem gerði marga smellina með ljóðskáldinu Pete Brown. Lék með Alexis Korner, John Mayall, Graham Bond Band.  Hann var í tríóinu sem breytti tónlistarsögunni, notuðu impróvíseraða tónlist í bland við flottar laglínur.  In the white room, Sunshine of your love, Badge , I feel frée og svo framvegis. Með Eric Clapton og Ginger Baker.  Enginn spilaði bassa eins og hann. Fáir glöddu mig meira. Eftir að leiðir þeirra félaga skildu, þá gerði hann nokkrar flottar sólóskífur, Songs for a Taylor, Harmony Row, Out of the Storm.  Tók þátt í ýmis konar tilrauna og jazz tónlist.  En svo skilst mér að Bakkus og Dópa hafa stjórnað ferðinni í nokkur ár. Og heilsan fór með því, lifrin gaf sig, henni var skipt út, en entist ekki.  En hann var alltaf að.  Cream kom saman fyrir nokkrum árum.  En ekki til langframa. Svo er hann horfinn, eins og við öllum gerum.  Út á ólgusjó moldar eða elds.   Við minnumst hans, með fögrum línum, sjáum fyrir okkur, hrukkótt og lífsreynt andlit hans, það verða margir sem fagna honum og vilja byrja strax að spila og djamma, eða hvað?


Fréttin.
 

Ný skífa kom í byrjun ársins, góður diskur en engin meistarasmíð. 
 

Frábært lag:  A Theme for an Imagninary Western

laugardagur, 25. október 2014

Landspítalinn: Nóg komið

Frétt vikunnar er eflaust Umræðan um Landspítalann. Skelegg frammistaða starfsfólks í fjölmiðlum. Fjöldi fólks sem vinnur við óviðunandi aðstæður. Er orðið örmagna að búa við úrelt tæki og lyf.

Yfir þessu kerfi voma stjórnmálamenn og ráðherrar sem telja sitt hlutverk vera að gæta hagsmuna auðmanna landsins. Stöðugt er hamrað á úreltum kenningum um lága skatta fjármálaelítunnar, því er það bannorð að nefna byggingu nýs Landspítala eða gera nokkuð róttækt til að bæta aðstöðu sjúklinga og starfsfólks.  Sem hefði í för með sér kröfur um eðlilegar og sanngjarnar álögur.

Dapurlegt var að horfa á Heilbrigðisráðherrann  á sjónvarpsskjá um, einhvern veginn úr öllum tengslum við veruleikann. Hann ræðir við lykilstarfsmenn heinbrigðiskerfisins án þess að hlusta. Kemur ofan af fjöllum þegar talað er um uppsagnir. Hjá honum er mikilvægast að sitja uppi í turninum í hægðum sínum og stjórna varðsetu um úrelt hjóm auðvaldsins og tryggja hag flokksins.

miðvikudagur, 22. október 2014

Vélbyssugleðir og vígasveitir

Húmoristar hafa gaman að vélbyssum, stjórnmálagleðipinnar á Îslandi ef marka má fréttir seinustu dægrin.  Svo eru þeir einstaklegar smekklausir.

Þetta fôlk veður áfram, heldur að að lífið allt sé eitthvað  til að skrumskæla, skilur ekki kjör fólks af öðrum trúarbrögðum sem hefur þurft að flýja yfir hálfan hnöttinn til að halda lífi, vopn er í þeirra skynjun leikföng til að vinna fjölmiðlapunkta. Fátækt annarra verður talnaruna króna og aura sem hefur enga aðra merkingu nema til að snúa út úr fyrir pólitískum andstæðingum.

Samt eru þau eitthvað feimin að bruna fram í sviðsljósið klædd í herskrúða veifandi alvæpni. En sagan er ekki öll.